Mikill munur er á milli sveitarfélaga hér á landi þegar kemur að leikskólagjöldum en 53 prósent munur er á hæstu og lægstu gjöldunum eða 13.655 krónur á mánuði sem jafngildir 150.205 á ári. Verðmunurinn er enn meiri eða um 69 prósent á milli sveitarfélaga ef sömu leikskólagjöld fyrir forgangshópa eru skoðuð. Lægstu leikskólagjöldin eru í Reykjavík, ef miðað er við almennt gjald, en hæst eru þau í Garðabæ. Þetta kemur fram í samanburði Alþýðusamband Íslands en verðlagseftirlit ASÍ kannaði breytingar á gjaldskrám fyrir vistun og fæði í leikskólum hjá 16 stærstu sveitarfélögum landsins frá 1. janúar 2018 til 1. janúar 2019.
Leikskólagjöld hæst í Garðabæ
Miðað við 8 tíma, sem er almennt gjald, eru lægstu gjöldin í Reykjavík, 25.963 krónur þrátt fyrir 2,9 prósent hækkun á leikskólagjöldum hjá borginni um áramótin. Hæst eru gjöldin í Garðabæ eða 39.618 og hækkuðu þau um 3 prósent um áramótin. Næst hæst eru gjöldin í Fljótsdalshéraði en þriðju hæst eru leikskólagjöldin á Akranesi.
Heildarmyndin breytist töluvert þegar gjöld fyrir forgangshópa eru skoðuð en meðal þeirra sem tilheyra þeim hópi eru einstæðir foreldrar, námsmenn og öryrkjar. Verðmunurinn er allt að 131.802 á ári milli sveitarfélaga þegar gjöld fyrir forgangshópa eru skoðuð. Fyrir forgangshópa eru gjöldin lægst í Reykjavík en hæst hjá Sveitarfélaginu Árborg 29.241.
Níundi tíminn mjög dýr í sumum sveitarfélögum
Í greiningu Alþýðusambandsins segir að margir foreldrar nýti sér að geta haft börnin í níu tíma á leikskóla til að auðveldara sé að samræma vistunartíma barna við vinnutíma og getur það jafnvel verið nauðsynlegt fyrir suma eins og einstæða foreldra. Níundi tíminn er hins vegar mjög dýr í mörgum tilfellum og getur hækkað leikskólagjöldin töluvert. Á almennu níu tíma gjaldi er 58 prósent munur á milli sveitarfélaga eða 17.837 á mánuði og 65 prósent munur er á hæsta og lægsta gjaldi fyrir forgangshópa eða 14.049 á mánuði.Níundi tíminn er dýrastur í Kópavogi en gjöldin þar hækka um 44 prósent við að hafa barn í leikskóla í 9 tíma á dag í stað 8 tíma. Ódýrastur er níundi tíminn í Skagafirði en þar kostar það einungis 3.066 kr. á mánuði að bæta níunda tímanum við.
80 prósent sveitarfélaga hækkuðu gjöld sín um síðustu áramót
Hjá þrettán af sextán sveitarfélögum hækka leikskólagjöld með fæði árið 2019 en hækkunin nam oftast 2 til 3 prósentum á milli ára. Mest var hækkunin hjá Seltjarnesi eða um 5 prósent en leikskólagjöldin þar eru þó næst lægst allra leikskólagjalda. Mesta lækkunin eru hjá Fjarðarbyggð eða 4,1 prósent á 8 tímum m eð mat og 5,3 prósent lækkun á sama gjaldi fyrir forgangshópa.
Systkinaafslættir eru eitt af því sem getur haft mikil áhrif ef fólk er með fleira en eitt barn á leikskóla. En samkvæmt samanburði ASÍ er afslátturinn mismikill eftir sveitarfélögum eða frá 25 til 7 prósent afsláttur fyrir annað barn og 75 til 100 prósent afsláttur fyrir þriðja barn.