Gleymið tollastríði Bandaríkjanna og Kína, skuldavanda síðarnefnda landsins er nú þegar orðinn mun meira áhyggjuefni heldur en tollastríðið.
Þetta segir Michael Schuman, pistlahöfundur Bloomberg, í pistli sem birtist á vef fréttaveitunnar í dag.
Hann bendir á að nýjar hagtölur í Kína séu ógnvekjandi fyrir hagkerfið í Kína og raunar heiminn allan.
Hagkerfið dróst saman á þriðja ársfjórðungi í fyrra um 6,5 prósent, miðað við sama tímabil árið á undan, og þá dróst bílasala í fyrra saman við við árið undan, en þær tölur komu mörgum verulega á óvart.
Hagvaxtarskeiðið í Kína undanfarna rúmu tvo áratugi er það mesta og hraðasta sem nokkurt ríki hefur gengið í gegnum, en nú virðist vera farið verulega að hægja á, og að mati Schumann eru það skuldir - bæði fyrirtækja og heimila - sem vekja ugg.
Tollastríðið sé vissulega áhrifamikið, en vandamálin í Kína hafi verið löngu farin að magnast upp fyrr.
Luxury companies hit as China slowdown bites https://t.co/HI99ev6Jne
— Financial Times (@FT) January 14, 2019
Það sem tollastríðið hafi gert, er að vekja stjórnvöld í Kína upp við vondan draum. Nú þurfi að taka til hendinni til að afstýra erfiðleikum.
Schuman segir að það sé líklegt, að samið verði um viðskipti milli Bandaríkjanna og Kína á nýjan leik, en það eitt og sér sé ekki nóg til að róa fjárfesta og markaðinn, þegar kemur að því að greina hvað sé að gerast í Kína.
Fasteignaverðhjöðnun á mörgum svæðum í landinu hefur vakið upp spurningar, og einnig hvernig áhættan er í fjármálakerfi landsins. Þar er kínverska ríkið helsta bakbein, hvert sem litið er, en fjárfesting einkaaðila hefur þó aukist gríðarlega hratt, samhliða 6 til 10 prósent hagvexti, á hverju ári í 20 ár.
Schuman segir að ástæða sé til þess að hafa miklar áhyggjur af því sem sé að gerast í Kína, þessi misserin.
Í Kína búa um 1,4 milljarðar manna, eða um 20 prósent af íbúum jarðar.