Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, segist hafa miklar áhyggjur af því fordæmi sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, settu þegar þeir neituðu að koma fyrir nefndina vegna sendiherramálsins svokallaða. „Ég vona að þeir aðilar sem við þurfum að kalla fyrir nefndina í hverri viku, mörgum sinnum á hverju þingi, ég vona að þeir horfi ekki á þessa tvo aðila, Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Braga Sveinsson, og líti til þeirra sem fordæmisgjafa.“
Sömuleiðis segist hún vona að almenningur í landinu, sem þingnefndir þurfi oft að leita til, vegna álita eða svara við einhverjum störfum eða starfsháttum, sem og embættismenn, ráðherrar og forstjórar ríkisfyrirtækja, finni til ábyrgðar sinnar gagnvart samfélaginu og mæti fyrir fastanefndir Alþingis þegar þess sé óskað.
Í upphafi opins fundar nefndarinnar, sem haldin var á miðvikudagsmorgun, las Helga Vala upp yfirlýsingar frá Sigmundi Davíð og Gunnari Braga þar sem þeir gagnrýndu málið allt og sérstaklega Helgu Völu sem formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þetta var í annað sinn sem þeir neituðu að koma fyrir nefndina til að ræða grunsemdir um pólitísk hrossakaup með sendiherrastöður, sem þeir ræddu í frægu drykkjusamlæti á Klausturbar í nóvember 2018.
Aðspurð hvort að það komi til greina að boða Sigmund Davíð og Gunnar Braga aftur til fundar við nefndina segir Helga Vala að þeir séu nú búnir að lýsa yfir sinni skoðun. „Ég las upp þeirra yfirlýsingar eins og óskað var eftir. Þær voru nokkuð afgerandi. Þeim finnst sem þingmenn að þeim beri engin skylda til að mæta fyrir fastanefndir þingsins. Ég held að þetta sé mál sem forsætisnefnd Alþingis þurfi að skoða. Það er auðvitað þannig í lögum um þingsköp Alþingis að það er hvergi minnst á skyldu forstjóra ríkisstofnana, ráðherra eða þingmanna til að mæta. Það er ekki eins og er í lögum um meðferð sakamála þar sem þú getur látið handtaka einstakling og færa hann í skýrslutöku. Í gjaldþrotalögunum er það hægt líka.“