Rúmlega helmingur landsmanna hefur breytt neysluvenjum sínum í daglegum innkaupum gagngert til þess að minnka umhverfisáhrif á síðustu tólf mánuðum. Auk þess hafa tæplega tveir af hverjum þremur breytt hegðun sinni fyrir umhverfið en færri hafa breytt ferðavenjum sínum á einhvern hátt með það fyrir augum að lágmarka umhverfisáhrif. Þetta kemur fram í nýrri Umhverfiskönnun Gallups, Rúv greindi fyrst frá niðurstöðum könnunarinnar.
Meirihluti landsmanna hefur breytt hegðun sinni til að minnka áhrif á umhverfið
Í könnunni var spurt hvort að viðkomandi hafði breytt neysluvenjum sínum í daglegum innkaupum á einhvern hátt gagngert til að minnka umhverfisáhrif en 51,5 prósent svöruðu að þeir hefðu breytt neysluvenjum sínum í innkaupum annaðhvort mikið eða nokkuð. Rúmlega 30 prósent svarenda sögðust hafa breytt neysluvenjum sínum lítið en 17,2 prósent sögðust ekkert hafa breytt innkaupum sínum á síðustu tólf mánuðum til að lágmarka áhrif á umhverfi og loftslagsbreytingar.
Jafnframt var spurt í könnunni hvort að viðkomandi hefði breytt hegðun sinni til þess að lágmarka áhrif á umhverfi og loftslagsbreytingar. Þá svöruðu tæplega tveir af hverjum þremur eða um 63 prósent svarenda að þeir hefðu breytt hegðun sinni mikið eða nokkuð. Alls svöruðu 23,9 prósent að þeir hefðu breytt hegðun sinni lítið og rúm 13 prósent svarenda sögðust ekkert hafa breytt hegðun sinni.
Færri breytt ferðavenjum sínum
Fæstir hafa breytt ferðavenjum sínum á einhvern hátt til þess að minnka umhverfisáhrif af ferðamáta sínum en 40,8 prósent sögðust ekkert hafa breytt ferðavenjum sínum á síðustu 12 mánuðum. Um 20 prósent sögðust hafa breytt ferðavenjum sínum nokkuð og 5,2 prósent sögðust hafa breytt þeim mikið.
Könnunin var gerð í tilefni af umhverfisráðstefnu Gallup sem haldin verður í annað sinn í Hörpu næsta föstudag. Á ráðstefnunni verða heildar niðurstöður Umhverfiskönnunar Gallup kynntar, en þar verður farið yfir viðhorf og hegðun Íslendinga í tengslum við umhverfismál og loftslagsbreytingar.