Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, segir í yfirlýingu, í tilefni af opnu bréfi Kevin Stanford og Karen Millen á vef Kjarnans fyrr í dag, að ásakanir sem komi fram í bréfinu á hendur honum eigi ekki við rök að styðjast.
Hann segir bréfið „fullt af staðreyndavillum“ og að það sé ekki rétt að hann hafi átt frumkvæði að kaupum Kevin Stanfords á hlutabréfum í Kaupþingi, heldur hafi hann haft það sjálfur.
Yfirlýsingin, eins og hún birtist á vef Vísis.is, fer hér á eftir.
„Vegna opins bréfs frá þeim Kevin Stanford og Karen Millen sem er fullt af staðreyndavillum og birtist í netmiðlinum Kjarnanum fyrr í dag, tel ég rétt að koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri:
Það er ekki rétt að ég hafi haft frumkvæði að kaupum Kevin Stanfords að hlutabréfum í Kaupþingi á árinu 2008. Ósk um þau kaup komu frá honum sjálfum og eru samtímagögn, meðal annars tölvupóstar, sem staðfesta það.
Það er ekki rétt, eins og haldið er fram, að ég hafi unnið að því að taka yfir rekstur Kaupþings í Lúxemborg. Hvorki fyrir né eftir hrun.
Í störfum mínum hjá Kaupþingi átti ég aldrei samskipti við Karen Millen, hvorki símtöl, fundi eða tölvupóstsamskipti. Ég kom ekkert að fjárfestingum hennar og því síður veitti ég henni fjármálaráðgjöf.
Kevin Stanford hefur átt í harðvítugum deilum við slitastjórn Kaupþings í bráðum áratug. Þeim deilum hef ég hvergi komið nærri. Það er einlæg von mín að þær deilur leysist farsællega, en því miður get ég ekki haft nein áhrif þar á, enda lauk störfum mínum hjá Kaupþingi haustið 2008.
Virðingarfyllst, Hreidar Már Sigurðsson.“