Miðflokkurinn mælist með 6,9 prósent fylgi í nýjustu könnun MMR á fylgi stjórnmálaflokka sem birt var í dag. Þar er prósentustigi hærra en í síðustu könnun fyrirtækisins, en niðurstöður hennar voru birtar 11. desember síðastliðinn. Miðflokkurinn er samt sem áður töluvert frá því fylgi sem hann mældist með áður en að Klaustursmálið kom upp, en þá mældist fylgi hans 12,1 prósent. Fylgið er einnig töluvert frá kjörfylgi flokksins, sem var 10,7 prósent.
Flokkur fólksins, sem átti tvo fulltrúa á Klausturbar 20. nóvember 2018, en hefur rekið þá báða úr flokknum, bætir líka við sig fylgi á milli kannana. Fylgi flokksins mældist 4,2 prósent fyrir rúmum mánuði, sem hefði ekki dugað til að ná inn manni á þing, en mælist nú 6,7 prósent, sem er mjög svipuð staða og í kosningunum 2017, þegar 6,9 prósent landsmanna kusu Flokk fólksins.
Samfylkingin tapar fylgi á milli kannana og nú segjast 15 prósent landsmanna að þeir myndu kjósa flokkinn ef kosningar færu fram í dag. Það er lægsta fylgi sem Samfylkingin hefur mælst með í könnunum MMR frá því í maí 2018. Í desember mældist fylgið 16,9 prósent. Flokkurinn er þó enn að mælast yfir kjörfylgi, en hann fékk 12,1 prósent í síðustu kosningum.
Viðreisn mælist með aðeins minna fylgi en í desember og nú segjast 7,8 prósent kjósenda styðja flokkinn. Sömu sögu er að segja af Pírötum en fylgi þeirra fer úr 13,8 prósentum í 14,4 prósent. Báðir flokkar mælast með meira fylgi en þeir fengu í kosningunum í október 2017.
Á meðal ríkisstjórnarflokkanna eru Vinstri græn að glíma, áfram sem áður, við mesta fylgisflóttann. Flokkurinn fékk 16,9 prósent fylgi í kosningunum 2017 en mælist nú með 11,3 prósent. Fylgi flokks forsætisráðherrans hafði tekið smá kipp upp á við í desember, þegar fylgið mældist 12,9 prósent hjá MMR, en það dalar nú að nýju.
Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr stærsti flokkur landsins og stendur nánast í stað milli kannana. Fylgi hans mælist 22,2 prósent sem er þremur prósentustigum undir kjörfylgi. Framsóknarflokkurinn er eini stjórnarflokkurinn sem mælist með meira fylgi en í síðustu kosningum. Nú segja 11,7 prósent kjósenda að þeir styðji hann en Framsókn fékk 10,7 prósent atkvæða í síðustu kosningum. Þótt fylgið hafi minnkað eilítið frá því í desember er ljóst að Framsókn er sá flokkur sem hefur hagnast mest á Klaustumálinu. Nýjasta könnun MMR sýnir næst mesta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með á kjörtímabilinu.
Stuðningur við ríkisstjórnina eykst lítillega
Stuðningur við ríkisstjórnina þokast lítillega upp á við og mælist nú 41,1 prósent. Hann var 40,3 prósent í desember en mældist lægst 37,9 prósent í nóvember.
Sameiginlegt fylgi ríkisstjórnarflokkanna er nú 45,2 prósent, sem myndi ekki duga þeim til að mynda meirihlutastjórn. Þeir fengu 52,8 prósent atkvæða í kosningunum 2017.
Þeir þrír flokkar sem hafa bætt mestu við sig á kjörtímabilinu eru Samfylkingin, Píratar og Viðreisn. Samanlagt fylgi þeirra mælist nú 36,6 prósent en var 39,8 prósent fyrir mánuði síðan. Í kosingunum 2017 fengu þessir þrír flokkar 28 prósent atkvæða.
Miðflokkurinn og Flokkur fólksins mælast samanlagt með 13,6 prósent atkvæða, en fengu 17,8 prósent í kosningunum 2017. Miðað við orð Ingi Sæland, formanns Flokks fólksins, um formann Miðflokksins, og ætlað samsæri þess flokks gegn hennar, í grein í Morgunblaðinu í morgun eru þó litlar líkur á frekara samfloti þessarra tveggja flokka náinni framtíð.