„Ég hef lært að ekki eru allir viðhlæjendur í stjórnmálum vinir. Sömuleiðis hef ég fundið á eigin skinni að það er gömul saga og ný, bæði í pólitík og atvinnulífi, að til eru karlar sem eiga afar erfitt með að sæta því að hlíta stjórn sterkrar konu. Þeir láta engin tækifæri ónotuð til að freista þess að grafa undan slíkum konum. Gera þær tortryggilegar með baknagi, dylgjum, ósannindum og hreinni illmælgi; – hatri og heift, er þeir skynja að konan er ekki reiðubúin að afhenda þeim þau yfirráð sem þeir krefjast.“
Þetta segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í grein í Morgunblaðinu í dag sem ber fyrirsögnina „Karlar sem hatast við konur“ þar sem hún gerir upp Klausturmálið og eftirmála þess.
Tilgangur fundarins á Klaustri augljós
Meginþorri greinar Ingu beinist að fyrrverandi samstarfsmönnum hennar, þeim Ólafi Ísleifssyni og Karli Gauta Hjaltasyni, sem reknir voru úr þingflokki Flokks fólksins í lok nóvember og starfa nú sem óháðir þingmenn. Hún segir mennina tvo einungis hafa átt eitt erindi á Klaustur Bar þetta kvöld og að þeir hafi mætavel vitað hvað til stóð. „Þeir voru að svíkja flokkinn sem kom þeim á þing. Er uppvíst varð hvað þarna hafði farið fram átti stjórn Flokks fólksins engan annan kost en að fara fram á afsögn þessara tveggja þingmanna.“
Inga segir að enginn stjórnmálaflokkur hefði getað látið forystumenn þingflokks síns eins og Ólaf og Karl Gauta komast upp með önnur eins svik og framin hafi verið á Klausturbar 20. nóvember síðastliðinn án þess að slíkir stjórnmálamenn hefðu verið látnir axla ábyrgð. „Með þá Ólaf og Karl Gauta áfram innanborðs hefði þingflokkur Flokks fólksins ekki aðeins verið óstarfhæfur heldur einnig meðsekur í þeirri andstyggð sem fram fór á Klaustur Bar.“
Inga segir fyrrum félaga sína, þá Ólaf og Karl Gauta, nú vera farna í sögubækurnar sem fyrstu þingmenn lýðveldissögunnar sem séu látnir sæta ábyrgð fyrir gjörðir sínar með því að þeir eru reknir úr sínum eigin flokki fyrir afbrot sín. „Engir nema þeir sjálfir frömdu þau ótrúlegu afglöp að fara til samsærisfundar við stjórn flokks pólitískra andstæðinga Flokks fólksins á Klaustur Bar, steinsnar frá Alþingishúsinu þann 20. nóvember síðastliðinn. Öll heimsbyggðin hefur þegar fengið að frétta af því í fjölmiðlum hvað gerðist þar.“
Inga segir að fundurinn á Klausturbar hafi haft skýrt markmið: að fá Ólaf og Karl Gauta til að ganga til liðs við Miðflokkinn. „Þess vegna sat gervöll stjórn Miðflokksins á barnum Klaustri með þeim. Tilefni fundarins augljóst, þessi „hættulegi“ flokkur fátæka fólksins sem auðmaðurinn Sigmundur Davíð [Gunnlaugsson] og félagar hans vildu fyrir hvern mun koma fyrir kattarnef.“
Vildu fá vald yfir fjármunum flokksins
Inga segir að bæði Ólafur og Karl Gauti hafi gengið til liðs við flokkinn haustið 2017, eftir að boðað hafði verið til kosninga í októberlok það ár. „Þeir komu að krásunum sem aðrir höfðu matreitt ofan í þá í boði Flokks fólksins og fengu 1. sæti, hvor í sínu kjördæminu. Eftir að þeir voru kjörnir á þing var Ólafur gerður að þingflokksformanni. Karl Gauti varð varaformaður þingflokks.“
Hún víkur svo að ásökunum þeirra Ólafs, Karls Gauta og Halldórs Gunnarsson, oftast kenndum við Holt, um að fjármál Flokks fólksins hefðu verið í ólestri og að hún hafi haldið á öllum þráðum þeim tengdum. Karl Gauti sagði m.a. í grein í Morgunblaðinu um liðna helgi að hann gæti ekki sætt sig við að „opinberu fé sé varið til launagreiðslna í þágu nánustu fjölskyldumeðlima stjórnmálaleiðtoga. Landslög kveða skýrt á um vandaða meðferð þeirra fjármuna sem stjórnmálaflokkar þiggja úr almannasjóðum og er mikilvægt að eftir þeim sé farið.“ Þar vísaði hann til þess að Flokkur fólksins hefði ráðið son Ingu í launað starf.
Inga segir í grein sinni að ástæða þess að hún sé enn með prókúru og hafi lengi verið gjaldkeri flokksins samhliða formennsku, sem hún sé ekki lengur, sé að finna í því að flokkurinn sé einungis tveggja og hálfs árs gamall. Flokkur fólksins hafi barist fjárhagslega í bökkum eftir stofnun en búi nú við heilbrigðan rekstur, sé skuldlaus og slíkt sé afar fátítt meðal íslenskra stjórnmálaflokka.
Hún segir Ólaf og Karl Gauta hafa ásamt Halldóri Gunnarssyni í Holti þrýst á að hún afsalaði sér „prókúru og aðgangi að reikningum flokksins og færði þetta vald þeim í hendur. Stjórn flokksins tók það ekki í mál enda alla farið að gruna þessa menn um græsku færi svo að þeir fengju vald yfir fjármunum flokksins. Enda hlýtur öllum nú að vera ljóst að þeim var ekki treystandi. Okkur sem af einlægni störfum í Flokki fólksins hrýs hugur við tilhugsuninni um að þeir hefðu haft sitt fram.“.
Inga segir aumt að horfa upp á mennina þrjá „í hefndarleiðangri nú þar sem þeir reyna að sá fræjum efasemda og tortryggni um fjármál Flokks fólksins um leið og þeir vita betur.“ Sonur hennar hafi verið ráðinn eftir að hafa sinnt sjálfboðaliðastörfum fyrir flokkinn og áunnið sér traust með kunnáttu og dugnaði. Annað fólk í trúnaðarstörfum innan Flokks fólksins en hún hefðu tekið ákvörðum um ráðningu hans og Inga segist hafa vikið af fundi stjórnar þegar ráðningin var ákveðin.