„Ég held að við gætum náð mjög mörgum skemmtilegum og góðum málum á dagskrá ef við myndum mynda ríkisstjórn frá miðju til vinstri þar sem Samfylkingin væri kjölfestuflokkur og við hefðum svo Viðreisn og Pírata öðrum megin við okkur og Vinstri græn hinum megin við okkur.“ Þetta segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í viðtali í Mannlífi í dag.
Þar fer hann yfir formannsferil sinn í flokknum, en hann tók við Samfylkingunni eftir að hún hafði goldið sögulegt afhroð í kosningunum 2016, þar sem hún fékk einungis 5,7 prósent atkvæða og þrjá þingmenn kjörna. Til að setja það hrun í samhengi þá fékk Samfylkingin 29,8 prósent atkvæða í kosningunum 2009 og 20 þingmenn kjörna.
Logi segir í viðtalinu að hann hafi verið látinn vita af félögum sínum að þetta væri vonlaust tafl og að einhverjir hefðu nefnt hann útfararstjóra Samfylkingarinnar. Flokkurinn hefur hins vegar náð vopnum sínum ágætlega síðan þá, fékk 12,1 prósent atkvæða í kosningunum haustið 2017 og mælist með 15-18 prósent fylgi í síðustu könnunum sem hafa verið gerðar.
Logi segir að hann telji að Samfylkingin sé í dag mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. „ Samfylkingin er í hægum vexti og ég held að það sé betra að þetta gerist hægt og rólega. Ég er sannfærður um að við eigum meira inni. Ég held að Samfylkingin verði komin á þann stað sem hún á að vera þegar hún er komin í góða ríkisstjórn sem byggir á málefnaáherslum jafnaðarmanna.“
Hann greinir einnig frá því að það hefði verið orðað við Samfylkinguna að taka þátt í myndun ríkisstjórnar gamla fjórflokksins eftir síðustu kosningar.
Logi segir að það hafi hins vegar ekki verið neitt fyrir flokkinn þar, meðal annars vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn var ekki að fara að gera grundvallarbreytingar á skattkerfinu eða velferðarkerfinu sem hann telji að þjóðin þurfi. Því hafi verið mynduð sú stjórn sem nú situr að völdum.
Hann veltir því upp, í ljósi þeirrar stjórnarmyndunar, að kannski sé meira á milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna en hann Logi hélt áður og að kannski séu flokkarnir tveir eðlisólíkir. „Kannski snýst þetta ríkisstjórnarsamstarf svo um eitthvað allt annað en hægri og vinstri. Kannski snýst það einmitt um íhaldssemi, um að viðhalda gömlum kerfum sérhagsmunahópa. Kannski snýst það um að viðhalda rétti útgerðarinnar til þess að sitja á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og nýta hana fyrir litla peninga. Kannski snýst þetta um hagsmuni landbúnaðarins eingöngu en ekki hagsmuni neytenda. Kannski snýst þetta um það að afneita því að stór og örugg mynt geti skilað ávinningi fyrir launafólk.“
Margt fleira ber á góma í viðtalinu. Þar ræðir Logi meðal annars braggamálið, Klaustursmálið og hvernig það atvikaðist að hann rataði í fremstu viglínu stjórnmála og ýmislegt annað.