Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra opnaði vefinn tekjusagan.is á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag. Vefurinn veitir aðgang að gagnagrunni um lífskjör landsmanna. Hver sem er getur skoðað þróun ráðstöfunartekna mismunandi hópa, áhrif skatta og bóta auk félagsleg hreyfanleika. Forsætisráðuneytið hefur um rúmlega eins árs skeið unnið að gerð gagnagrunnsins en hann byggir á ópersónugreinanlegum upplýsingum úr skattframtölum allra einstaklinga á Íslandi frá árinu 1991 til 2017. Tekjusögunni er ætlað til að auka gagnsæi og aðstoða stjórnvöld við að meta áhrif breytinga á sköttum og bótum á lífskjör einstakra hópa.
Launaumslagið og lífshlaupið
Tekjusagan skiptist í tvo hluta, annars vegar launaumslagið sem lýsir þróun mánaðarlegra tekna, skatta og bóta ríkis og sveitarfélaga á tímabilinu 1991-2017 á föstu verði ársins 2017 og hins vegar lífshlaupið sem lýsir hreyfingu einstaklinga á milli tekjutíunda yfir tíma.
Í launaumslaginu er hægt að velja sér ákveðin hóp til skoðunar en unnt er að velja sér hóp eftir tekjutíund, aldri, búsetu, hjúskaparstöðu, barnafjölda og tegund húsnæðis. Ásamt því er hægt að bera saman ráðstöfunartekjur tveggja ólíkra hópa.
Til dæmis ef borin eru saman mánaðarlegar ráðstöfunartekjur á föstu verðlagi árið 2017 hjá einstæðum körlum sem eiga húsnæði og búa á höfuðborgarsvæðinu, sem eru í sjöttu tekjutíund, á aldrinum 25 til 24 ára og með 1 til 2 börn, við mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hjá einstæðrar konu úr sömu tekjutíund, á sama aldursbili, með sama barnafjölda og sömu tegund húsnæðis og búsetu. Þá má sjá að samkvæmt þessum forsendum er munurinn ráðstöfunartekjum þeirra er 91.387 krónur árið 2017.
Má sjá hvernig fólk hreyfist á milli tekjuflokka
Í lífshlaupinu má skoða hvernig fólk hreyfist á milli tekjutíunda yfir ákveðið tímabil, og hversu stórt hlutfall færist upp og niður tekjutíundir eða stendur i stað. Með því að raða öllum einstaklingum eftir árstekjum og skipta þeim upp í tíu jafnstóra hópa var fundið tekjutíund allra einstaklinga á vinnumarkaði.
Samkvæmt forsætisráðuneytinu er lífshlaupið góður mælikvarði á félagslegan hreyfanleika og þá bendi þessi gögn sterklega til þess að félagslegur hreyfanleiki sé mikill á Íslandi. Sem dæmi má með Lífshlaupinu greina að hlutfall yngra fólks í efstu tekjutíund hefur lækkað síðastliðinn aldarfjórðung á meðan hlutfall eldra fólks hefur hækkað.
Segir að með gagnagrunninum séu stjórnvöld komin með styrkan grundvöll undir umræður um kjaramál
Katrín Jakobsdóttir segir Tekjusöguna vera mikilvægt innlegg í samráð stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. „Það er þörf á áreiðanlegum og óumdeildum gagnagrunni með launatölfræði sem allir hafa aðgang að til að hægt sé að leggja mat á launaþróun auk áhrifa skatta og bóta með óumdeildum og áreiðanlegum hætti. Ég tel að með Tekjusögunni séum við komin með styrkan grundvöll undir umræður um kjaramál,“ segir Katrín.
Hún bætir við að hægt sé að nota Tekjusöguna til að sjá hvaða hópar þurfa sérstaklega athygli. „Það er lykilatriði fyrir stjórnvöld að hafa aðgang að áreiðanlegum upplýsingum þegar kemur að stefnumótun og ákvarðanatöku. Tekjusagan gerir okkur kleift að sjá hvernig lífskjör mismunandi hópa hafa þróast, hvaða hópum hefur vegnað vel og hvaða hópar þurfa sérstaka athygli,“ segir Katrín.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir þessa vinnu vera einstaka á evrópska vísu, aldrei áður hafi verið farið í jafn yfirgripsmikla og ýtarlega gagnasöfnun og rannsókn á lífskjaraþróun á Íslandi. „Það er ánægjulegt að sjá að okkur hefur miðað áfram og að allir hafa það betra þótt, eins og fram kom í máli forsætisráðherra, módelið sýni okkur hópa sem hafa ekki notið eins mikils vaxtar og við vildum. Það gefur okkur um leið tækifæri til að bregðast við því með markvissum aðgerðum.“