Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, telur að málsmeðferð Alþingis á Klaustursmálinu séu pólitísk réttarhöld í boði Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis. Sigmundur segir að Steingrímur eigi harma að hefna og sé nú að nýta stöðu sína sem forseti í þeim tilgangi. Hann gagnrýnir það harðlega að Steingrímur vilji skipa nýja forsætisnefnd til að fjalla um Klausturmálið. Hann segir að þingmennirnir sex hafi nú þegar þolað grimmilegri refsingu en nokkur dómstóll myndi telja viðeigandi. Þetta kemur fram í aðsendri grein Sigmund Davíðs í Morgunblaðinu í dag.
Markmiðið að vanhæf nefnd gæti beðið vanhæfa undirnefnd um álit
Sigmundur segir í grein sinni með Steingrímur brjóti blað í sögu Alþingis meðþví að skipa nýja forsætisnefnd til að fjalla um samræður sexmenningana á Klaustur bar í fyrra en Sigmundur Davíð var sem kunnugt er einn þeirra sexmenninga.
Forsætisnefnd hefur haft til umfjöllunar erindi átta þingmanna þar sem þess er að óskað, að það verði kannað hvort þingmennirnir sex sem áttu fund á Klaustur bar hafi brotið gegn siðareglum með ummælum sínum um ýmsa, þar á meðal samstarfsfólk í stjórnmálum. Öll forsætisnefndin hefur hins vegar þurft að lýsa sig vanhæfa að fjalla um málið efnislega þar sem allir meðlimir hennar, ásamt meirihluta þingmanna, hafa tjáð sig um málið opinberlega. Þá var ákveðið að skipa nýja forsætisnefnd sem skipuð væri tveimur til þremur, eða fleirum, þingmönnnum, sem hefur það eina verkefni að koma Klaustursmálinu til siðanefndar þingsins. Nefndarmenn mega ekki hafa tjáð sig um málið opinberlega, á nokkurn hátt, svo ekki sé hægt að draga hæfi þeirra í efa.
„Markmið þingforseta var koma málinu til svo kallaðrar siðanefndar til að geta að því búnu fellt dóm sinn. Siðanefndin er undirnefnd forsætisnefndar Alþingis og henni aðeins til ráðgjafar. Þingforsetinn hefur þegar verið upplýstur um að þar sem forsætisnefndin sé vanhæf sé siðanefndin það einnig. Markmiðið var því að vanhæf nefnd gæti beðið vanhæfa undirnefnd sína um álit.“ segir Sigmundur í grein sinni.
Segir þingmennina þegar hafa þolað grimmilega refsingu
Sigmundur Davíð segir að Klaustursmálið, eða hlerunarmálið líkt og hann kallar það í grein sinni, eigi ekkert erindi við siðanefndina þar sem einkasamtal á bar sé varla hluti af opinberri skyldu þingmanna. „Í reglunum sem starf hennar byggist á kemur enda skýrt fram að gildissvið þeirra nái einungis til þess sem þingmenn gera sem hluta af opinberum skyldum sínum. Enginn skynsamur maður gæti haldi því fram að einkasamtal yfir öldrykkju væri hluti af opinberum skyldum þingmanna,“ skrifar Sigmundur Davíð.
Hann segir jafnframt að þingmennirnir sex í Klausturmálinu hafi nú þegar tekið út íþyngjandi refsingu vegna málsins. „Ekki hvað síst þeir sem það gerðu, eins og þeir hafa viðurkennt afdráttarlaust og beðist fyrirgefningar á af einlægni. Fyrir atvikið hafa þeir enda liðið sálarkvalir og þegar þolað grimmilegri refsingu en nokkur dómstóll myndi telja viðeigandi. Í okkar samfélagi telst það ekki til glæps að hugsa ljótar hugsanir, hugsanir sem menn iðrast jafnan, og ekki heldur að missa út úr sér slíkar hugsanir í einkasamtölum, hvort sem þær lýsa einlægri afstöðu eða eru sagðar í hálfkæringi, gríni, kaldhæðni eða til að ganga fram af öðrum.“ segir Sigmundur.
Hann segir jafnframt að almenningur sé fullfær um að meta hvað sé siðlegt og hvað ekki og þarf því ekki ekki pólitíska sérfræðinga til að segja sér það. „Afstaða slíkrar nefndar, sem skipuð væri á pólitískum forsendum hefði því ekkert gildi og skipti engu mál..“
Telur Steingrím eiga harm að hefna
Í greininni segir Sigmundur jafnframt að margir hafi haft efasemdir um að Steingrímur væri „heppilegur· til gegna hlutverki þingforseta, þar sem fyrri þingforsetar hafa leitast við að vera forsetar allra þingmanna. „Nú kýs hann að renna stoðum undir þær efasemdir með afgerandi og sögulegum hætti. Viðhorf Steingríms til mín er vel þekkt. Hann telur sig eiga harma að hefna og leitast nú við að nýta stöðu sína í þeim tilgangi. Þó blasir við að ekkert af því sem ég sagði í einkasamtali sem tekið var upp með ólögmætum hætti jafnast á við fjölmargt sem þingforsetinn sjálfur hefur sagt og gert opinberlega að yfirlögðu ráði,“ segir Sigmundur.
Þá segir Sigmundur að mannréttindi hans og hinna fimm sem sátu með honum að Klaustri umrætt kvöld hafi verið brotin, ekki sé þó áhugi fyrir því hjá forseta Alþingis að láta rannsaka slíkt. Hann sé með aðgerðunum sínum í málinu að „svala hefndarþorsta sínum,“. Auk þess segir Sigmundur að ef einkasamtal nokkurra þingmanna eigi erindi til siðanefndar þýði það að mati Sigmundar Davíðs að fjölmörg mál eigi heima á borði nefndarinnar., þar með talið málum sem varða þingforsetann.
Hann segir að Steingrímur hefði frekar átt að biðjast afsökunar á því sem hann hafi sjálfur sagt fremur en að biðjast afsökunar á tali þingmannanna á Klaustur bar í ræðu sinni á Alþingi í fyrra.
„Þingforsetinn hefði getað byrjað á að biðjast afsökunar á orðfæri sínu undanfarna áratugi, á því að hafa lagt hendur á ráðherra í þingsal og reyna svo að koma sama manni í fangelsi með pólitískum réttarhöldum, á því að afhenda erlendum hrægammasjóðum íslensku bankana á sama tíma og þúsundir fjölskyldna misstu heimili sín, á því að hafa reynt að láta íslenskan almenning taka á sig skuldir fallinna einkabanka í andstöðu við lög, á því að nýta ekki þau tækifæri sem gáfust til að endurreisa íslenskt efnahagslíf en státa sig í staðinn af hrósi erlendra fjármálastofnana. Verði þingforsetinn kominn á skrið getur hann svo haldið áfram og beðist afsökunar á því sem hann hefur sagt og gert í gleðskap undanfarin ár, meðal annars sem ráðherra.“ segir Sigmundur að lokum.