Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis, vera einn mesta popúlista íslenskra stjórnmála í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Sigmundur Davíð hefur haldið því fram að Steingrímur sé að brjóta þingskapalög með tillögu sinni um að skipa nýja forsætisnefnd. Hann segir að viðhorf Steingríms í sinn garð sé vel þekk og hann telur að pólitík, popúlisma og persónuleg óvild Steingríms sé ástæða þess að forseti þingsins noti nú aðstöðu sína til að fara í prívat herferð gegn Sigmundi.
Steingrímur segir að þinginu sé heimilt að skipa nýja forsætisnefnd
Sigmundur skrifaði grein um málið í Morgunblaðið í gær. Þar hélt hann því fram að Steingrímur væri að brjóta þingskapalög með tillögu sinni um að kjósa sérstaka forsætisnefnd til að fjalla um Klaustursmálið svokallaða. Steingrímur lagði til að ný nefnd væri skipuð þar sem öll forsætisnefndin hefur þurft að lýsa sig vanhæfa að fjalla um málið efnislega þar sem allir meðlimir hennar, ásamt meirihluta þingmanna, hafa tjáð sig um málið opinberlega.
Því var lagt til að skipa í stað þess sérstaka forsætisnefnd ,sem skipuð væri tveimur til þremur, eða fleirum, þingmönnum, sem hefur það eina verkefni að koma Klaustursmálinu til siðanefndar þingsins. Nefndarmenn mega ekki hafa tjáð sig um málið opinberlega, á nokkurn hátt, svo ekki sé hægt að draga hæfi þeirra í efa. Kosið verður um varaforseta nefndarinnar á Alþingi í dag ef kosning verði leyfð en tveir þriðju þingmanna þurfa að leyfa slíka kosningu. Slík kosning fer fram á grundvelli heimilda til að leita afbrigða til þess að bregða frá þingsköpum.
Segir Steingrím vera popúlista
Steingrímur sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að það væri yfir allan vafa hafið að þinginu sé heimilt að skipa nýja forsætisnefnd. Sigmundur Davíð sagði aftur á móti í Bítinu að morgun að það sé ekki rétt en hann telur að pólitík og persónulega óvild Steingríms í garðs Sigmundar hafi áhrif á ákvörðun Steingríms um að fara þessa leið með Klaustur málið. „Hann telur sig eiga harma að hefna og leitast nú við að nýta stöðu sína í þeim tilgangi. Þó blasir við að ekkert af því sem ég sagði í einkasamtali sem tekið var upp með ólögmætum hætti jafnast á við fjölmargt sem þingforsetinn sjálfur hefur sagt og gert opinberlega að yfirlögðu ráði,“ skrifaði Sigmundur í grein sinni í Morgunblaðinu í gær.
Enn fremur segir Sigmundur að Steingrímur sé popúlisti og það sé önnur skýring á framferð Steingríms í þessu máli. „Hann er popúlisti og einhver mesti popúlisti íslenskrar stjórnmála að mínu viti svo þetta hefur örugglega áhrif á hann líka. Hann er líka mjög harður vinstri maður og sér þarna tækifæri fyrir sinn hóp,“ sagði Sigmundur Davíð að lokum.