Félag í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu, eigenda Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, hefur að undanförnu verið að auka umtalsvert eignarhlut sinn í Tryggingamiðstöðinni með kaupum á bréfum sem fjármögnuð eru hjá Íslandsbanka. Hlutur félagsins nemur nú nokkrum prósentum sem þýðir að Guðbjörg er komin í hóps stærstu hluthafa TM. Frá þessu er greint í Markaðinum í dag.
Byrjaði að fjárfesta í TM árið 2016
Guðbjörg var einn aðaleigandi TM og sat í stjórn félagsins á árunum fyrir hrun. Hún seldi hins vegar eignarhlut sinn í TM að stærstum hluta til Glitnis haustið 2007. Félagið Kristinn ehf, sem er í eigu Guðbjargar og fjölskyldu, byrjaði síðan að fjárfesta í´TM árið 2016 en í árslok 2017 nam eignarhlutur félagsins 0,7 prósentum. Samkvæmt heimildarmönnum Markaðarins hefur félagið aftur á móti verið að auka umtalsvert við eignarhlut sinn og byggja hratt upp stöðu sína í tryggingarfélaginu með kaupum á bréfum í gegnum framvirka samninga hjá Íslandsbanka.
Í umfjöllun Markaðarins segir að ekki hafi fengist staðfestar upplýsingar um nákvæmlega hversu stóran hlut félag Guðbjargar á orðið í TM, en ljóst er að eignarhluturinn er ekki stærri en samtals fimm prósent enda væri félaginu þá að öðrum kosti skylt að tilkynna um það til Kauphallarinnar.
Guðbjörg greiddi sér 3,25 milljarða í arð
Guðbjörg Matthíasdóttir, og afkomendur hennar, eru á meðal efnuðustu fjölskyldna á Íslandi og reka þau umsvifamikla fyrirtækjastarfsemi. Fjölskyldan á meðal annars nær allt hlutafé í Ísfélagi Vestmannaeyja, hluti í skráðum félögum, allt hlutafé í Ísam, einu stærstu innflutnings- og framleiðslufyrirtækis landsins, og stærstan hluta bréfa í Odda. Guðbjörg og börn hennar greiddu sér 3,25 milljarða króna í arð árið 2017 í gegnum félagið ÍV fjárfestingafélag ehf., sem heldur meðal annars á hlut hennar í Ísfélaginu.
Fjölskyldan eru líka stærstu eigendur Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. Ísfélagið á sjálft 13,43 prósent hlut og áðurnefnt félag, Hlynur A, í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, á 16,45 prósent hlut.
Stærstu hluthafar TM eru lífeyrissjóðir
Stærstu hluthafar TM eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, LSR, Gildi og Birta lífeyrissjóður. Aðrir umsvifamiklir fjárfestar í eigendahópi félagsins eru erlendir sjóðir í stýringu Lansdowne og Miton og þá er eignarhaldsfélagið Helgafell með rúmlega 6,6 prósenta hlut, samkvæmt umfjöllun Markaðarins
Eignarhlutur Íslandsbanka í TM, sem skiptist á veltubók og hluti vegna framvirkra samninga við viðskiptavini bankans, nemur í dag rúmlega 7,8 prósentum. Þá hefur hlutur bankans aukist um þrjú prósent frá því í júlí á síðasta ári þegar Íslandsbanki var skráður fyrir um fimm prósenta hlut í tryggingafélaginu.
Markaðsvirði TM er í dag tæplega 18 milljarðar króna. Hlutabréfaverð TM hefur lækkað um fjórðung á síðustu tólf mánuðum og miðað við núverandi gengi bréfa félagsins, sem er um 26 krónur á hlut. Í umfjöllun Markaðarins segir að því er til dæmis fimm prósenta hlutur í félaginu í dag metinn á um 880 milljónir króna.