Efnahags- og viðskiptanefnd hefur einróma fallist á að samþykkja frumvarp sem gerir starfstíma Bankasýslu ríkisins ótímabundna óbreytt með öllum greiddum atkvæðum þvert á flokka.
Stjórnarformaður Bankasýslunnar, Lárus L. Blöndal, og forstjóri hennar, Jón G. Jónsson, sendu inn umsögn vegna málsins til nefndarinnar þar sem þeir sögðust fagna frumvarpinu og styðja það. Þar sagði enn fremur að starfsemi stofnunarinnar hefði aukist verulega á liðnum árum, meðal annars með tilkomu á umsýslu með allan eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Stofnunin hafi einnig hlutverki að gegna við undirbúning og framkvæmd á sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. „Með útgáfu Hvítbókar um framtíðarsýn um fjármálakerfið telur stofnunin líklegt að verkefni stofnunarinnar muni aukast að umfangi næstu árin.“
Átti að starfa í fimm ár
Þegar lög um Bankasýslu ríkisins voru sett árið 2009 var sett í þau ákvæði um að stofnunin skuli hafa lokið störfum eigi síður en fimm árum eftir að hún var sett á fót. Þegar þeim störfum lyki yrði „hún þá lögð niður“.
Áður en sá fimm ára frestur rann út lét fjármála- og efnahagsráðuneytið vinna lögfræðilega skoðun á því hvaða þýðingu umrætt ákvæði hefði á starfsemi Bankasýslu ríkisins ef hún myndi starfa í lengur en fimm ár, sem hún hefur sannarlega gert. Niðurstaða hennar var sú að ekki yrði ráðið með ótvíræðum hætti af lagagreininni að starfsemi Bankasýslunnar legðist sjálfkrafa af að liðnum fimm árum frá því að stofnunin tók til starfa.
Á fundi ríkisstjórnar Íslands í lok nóvember 2018 kynnti Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hins vegar frumvarp um breytingar á lögum um Bankasýslu ríkisins. Það snýst einvörðungu um breytingar á niðurlagningarákvæðinu.
Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið sagði að ljóst væri að verkefnum Bankasýslu ríkisins sé ekki lokið og ekki lægi fyrir hvenær þeim ljúki. Ríkið á enda nær allt hlutafé í tveimur bönkum, Landsbankanum og Íslandsbanka og ekkert lægi fyrir um hvenær þeir eignarhlutir verði settir í sölumeðferð. Í svarinu segir að þótt ekki sé talið að vafi leiki á því hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu að stofnunin hafi traustan lagagrundvöll „var ákveðið að leggja til að hún verði felld brott en þess í stað bætt við ákvæði til bráðabirgða um að leggja skuli stofnunina niður þegar verkefnum hennar er lokið.“
Frumvarp átti að leggja niður stofnunina
Bankasýsla ríkisins var sett á fót af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur til að halda á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þá stóð til að stofnunin yrði starfrækt í fimm ár.
Þegar ný ríkisstjórn, undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, tók við hófst vinna við að breyta þessu skipulagi mála. Bjarni Benediktsson sat þá sem nú í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og lagði vorið 2015 fram frumvarp um meðferð og sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Samkvæmt frumvarpinu yrði Bankasýsla ríkisins lögð niður og eignarhlutir ríkisins í fjármálafyrirtækjum færðir undir fjármála- og efnahagsmálaráðherra. Hann átti að setja sérstaka eigandastefnu ríkisins sem tæki til þeirra fjármálafyrirtækja sem ríkið á eignarhluti í, skipa þriggja manna ráðgjafarnefnd, án tilnefninga, til að veita honum ráðgjöf um meðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum og undirbúa sölu og sölumeðferð þeirra eignarhluta. Þetta frumvarp varð á endanum ekki að lögum og Bankasýslan hefur haldið áfram störfum umfram þann líftíma sem henni var upphaflega ætlað.
Um nokkurra ára skeið hefur verið heimild í fjárlögum til að selja allt hlutafé ríkisins í Íslandsbanka og allt að 30 prósent hlut í Landsbankanum.
Stefnt að því að selja banka
Í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið er fjallað ítarlega um hvernig skuli standa að sölu á hlutafé í ríkisbönkunum, Landsbankanum og Íslandsbanka, og er horft til þess að nota skráðan markað til þess að endurskipuleggja eignarhald með þeim hætti, að dreift og traust eignarhald verði hluti af fjármálakerfinu til framtíðar.
Þá er einnig lagt til að það verði skoðað gaumgæfilega hvernig megi efla samstarf bankanna á sviði innviða í fjármálakerfinu, til að auka hagræðingu í bankakerfinu og bæta þannig kjör til neytenda.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við RÚV fyrr í þessum mánuði að hún sæi ekki fyrir sér að ríkisbankarnir yrðu seldir á þessu ári. Hún sagði það þó ekki hafa verið sína sýn né ríkisstjórnarinnar að halda Íslandsbanka. Það sem skipti máli sé að ríkið verði áfram leiðandi fjárfestir í Landsbankanum.
Bjarni sagði nokkrum dögum síðar í viðtali við sama miðil að hann væri þeirrar skoðunar að til lengri tíma litið eigi ríkið að draga sig úr því umfangsmikla eignarhaldi sem það er með á bönkum. Það þurfi meðal annars að gera vegna þeirrar áhættu sem fylgi svo umfangsmiklu eignarhaldi. Þá sagðist Bjarni hafa talað fyrir því að ríkið verði áfram aðaleigandi Landsbankans, og eigi áfram 35 til 40 prósent hlut í þeim banka. Hann vilji þó að ríkið fari út úr eignarhaldi á Íslandsbanka.