Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem íslenska ríkið er sýknað af kröfu Ólafs Ólafssonar, fjárfestis, sem var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Al Thani málinu svonefnda.
Hann var dæmdur til að greiða íslenska ríkinu eina milljón í málskostnað.
Ólafur krafðist þess að úrskurðar endurupptökunefndar, um að taka ekki aftur upp hans þátt í Al Thani málinu, yrði ógildur.
Kröfu sína byggði hann meðal annars á því að ranglega hafi verið lagt mat á gögn, og Ólafur talinn vera annar Ólafur í símtali, sem vitnað var til í dómnum.
Þessu hefur nú verið hafnað í bæði héraði og Landsrétti, og rökstuðningur yfir niðurstöðu endurupptökunefndar, staðfestur.
Ólafur byggði kröfu sína meðal annars á því að vanhæfi væri til staðar innan endurupptökunefndar, þar sem Kristbjörg Stephensen, varformaður endurupptökunefndar, væri vinkona Bjargar Thorarensen, eiginkonu Markúsar Sigurbjörnssonar, sem dæmdi í Al Thani málinu, og væri meðal annars með henni í saumaklúbb.
Á þetta var ekki fallist.
„Með vísan til þess sem að framan greinir, um mat endurupptökunefndar á sönnunarmati Hæstaréttar, og forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að rökstuðningi endurupptökunefndar hafi ekki verið svo áfátt að þessu leyti að fallast eigi á ógildingarkröfu áfrýjanda,“ segir í dómi Landsréttar.