Ef orkuskipti í samgöngum á landi ganga hraðar fyrir sig en reiknað er með í raforkuspá verður raforkunotkun meiri næstu árin og áratugina en spáin gerir ráð fyrir en notkunin verður þó í lok spátímans svipuð og gert var ráð fyrir. Ekki eru talin nein vandkvæði á að afla orku fyrir aukna almenna notkun, samkvæmt spám. Þó þarf að bæta við orkuöflun sem svarar til tveggja Búrfellsvirkjana I. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins í dag.
Jafnframt kemur fram að síðasta raforkuspá hafi verið gerð árið 2015 og sé uppreiknuð árlega en endurskoðuð frá grunni á fimm ára fresti. Á síðasta ári hafi verið sýndar há- og lágspár, til hliðar við spá um raforkunotkun. Í nýjum endurreikningi sem miðast við raforkunotkun á síðasta ári og ýmsar upplýsingar sem fram hafa komið síðan síðasti endurreikningur gerður séu sýndar þrjár sviðsmyndir til hliðar við raforkuspá. Meðal annars sé litið til stefnu stjórnvalda um orkuskipti og umhverfismál og spár Hagstofu Íslands um áætlaðan fólksfjölda.
Í skýrslu Orkustofnunar kemur fram að vel sé þekkt að veigamiklar forsendur varðandi raforkunotkun geti breyst snögglega. Á það til dæmis við um stórnotkun sem geti haft veruleg áhrif á heildarnotkun. Að sama skapi hafi notkun rafbíla aukist mikið á undanförnum árum hérlendis sem erlendis og margir greiningaraðilar hafi bent á mikla möguleika rafdrifinna bíla í framtíðinni á kostnað hinna hefðbundnu bíla sem notast við jarðefnaeldsneyti. „Um allan heim er leitað leiða til að skipta út sem mestu af notkun jarðefnaeldsneytis fyrir umhverfisvænni kosti og nánast allar leiðir sem þar koma til greina kalla á verulega raforkunotkun sem þá er mikilvægt að komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum,“ segir í skýrslunni.
Raforkunotkun hvers heimilis hefur minnkað á síðustu árum
Jón Vilhjálmsson, sviðsstjóri orku hjá verkfræðistofunni Eflu, sem vinnur með raforkuhópi orkuspárnefndar, segir í samtali við Morgunblaðið að heildarnotkun breytist lítið frá fyrri spám. Þó sé meiri breytileiki í spánum vegna þess að betur hafi verið farið ofan í orkuskipti í samgöngum á landi. Raforkunotkun hvers heimilis fór lengi vaxandi ár frá ári. Á allra síðustu árum hefur hún minnkað, meðal annars vegna aukinnar notkunar sparneytnari heimilistækja og lýsingar. Jón segir að gert sé ráð fyrir að þessi þróun gangi yfir og fari síðan að aukast með fjölgun rafbíla sem hlaðnir eru á heimilum.
Fyrsta sviðsmyndin sem tilgreind er kallast „hægar framfarir“. Þar er gert ráð fyrir minni hagvexti en í raforkuspá og minni áhersla á orkuskipti. Hún sýnir 0,9 prósent árlegan vöxt að meðaltali, samanborið við 1,7 prósent vöxt í raforkuspá. Í sviðsmyndinni „grænni framtíð“ er gert ráð fyrir meiri hagvexti auk þess sem miðað er við meiri áherslu á umhverfismál, meðal annars hraðari orkuskipti. Þessi sviðsmynd sýnir 2,2 prósent aukningu á ári að meðaltali og mun almenn raforkunotkun rúmlega tvöfaldast til loka spátímabilsins. Þriðja sviðsmyndin er „aukin stórnotkun“. Hún grundvallast á þróuninni frá árinu 2008. Samkvæmt þessari forsendu verður aflþörf stórnotenda orðin rúmlega 3.000 MW árið 2050 og samanlögð orkuþörf almenna markaðarins og stórnotenda 33.400 gígavattstundir.
Á næsta ári verður gefin út ný raforkuspá, endurskoðuð frá grunni. Jón segir í samtali við Morgunblaðið að líklegt þyki að hún nái tíu árum lengra fram í tímann, til ársins 2060. Jón telur að vöxturinn framundan sé svipaður og orkufyrirtækin þekki frá undanförnum áratugum og eigi vel að ráða við að sinna með virkjunum, orkuflutningum og dreifingu. Að minnsta kosti fyrir almenna notkun sem raunar er aðeins hluti af heildarnotkuninni. Þá reiknar hann með að hægt verði að stýra notkuninni betur í framtíðinni með framförum í tækni. Nefnir hann sérstaklega tækni til að stýra hleðslu rafbíla í fjölbýlishúsum.