Bandaríkjastjórn vinnur nú að því að beita efnahagsþvingunum til að ýta undir stjórnarskipti í Venesúela, meðal annars með því að færa stjórn á olíuhreinsistöð ríkisfyrirtækis Venesúela, Citgo, til Juan Guaidó, helsta stjórnarandstæðings Maduro forseta.
Frá þessu greindi Washington Post í dag, en fjármálaráðuneyti Steven Munchin sendi frá sér tilkynningu þar sem segir að þvingunum verði beitt, og meðal annars lagt hald á eignir sem tilheyra stjórnvöldum í Venesúela, ef þörf þykir.
Bandaríkin hafa lýst því yfir að þau viðurkenni Guaidó sem forseta Venesúela og hafa heitið því að breðast við af hörku, ef Maduro reynir að fara gegn vilja Bandaríkjana, hvort sem það er í Venesúela eða annars staðar.
Maduro hefur þegar svarað tilkynningu bandarískra stjórnvalda, og sagt að Citgo sé eign ríkissjóðs Venesúela og enginn geti tekið ákvörðun um ráðstöfun þeirra eigna nema stjórnvöld í Venesúela.
Citgo er með erlendar höfuðstöðvar í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í olíuríkinu Texas. Samkvæmt skrifum Washington Post er ekki vitað með vissu, hversu miklar eignir sem tilheyra ríkissjóði Venesúela eru utan ríkisins, en megnið af þeim er í Bandaríkjunum, og í olíutengdum iðnaði.
John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, hefur sagt að yfirráð eigna verði að fara frá Maduro og til Guaidó. Ekki sé hægt að viðurkenna eða styðja stjórnvöld í Venesúela undir stjórn Maduro, enda sé efnahagur landsins í rúst.
Í skrifum Washington Post kemur einnig fram, að stjórn Maduro hafi á undanförnum mánuðum gjörbreytt viðskiptum Citgo, sem hefur til þessa selt mikið af olíu til Bandaríkjanna. Í staðinn er fyrirtækið nú að einblína á Evrópu og Asíu, með Kínverja sem helstu kaupendur.
Skuldir Citgo eru að mestu leyti í eigu banka í Bandaríkjunum, en rússneska jarðgas- og olíufyrirtækið Rosneft er með veð í 49,9 prósent eignarhlutaf þess eftir lán upp á 1,5 milljarða Bandaríkjadala til ríkissjóðs Venesúela, eftir því sem Washington Post greinir frá.
Efnahagur Venesúela einkennist þessi misserin af nær algjöru hruni. Heildaríbúafjöldi í Venesúela er um 32 milljónir, en talið er að allt að 2,3 milljónir manna hafi flúið erfitt efnahagsástand í landinu á undanförnum árum. Óðaverðbólga, mikið atvinnuleysi og erfiðleikar fyrirtækja, er það sem helst einkennir stöðu mála, ofan í glundroða í stjórnmálum.
Uppfært: Breska ríkisútvarpið greindi frá því rétt í þessu, að Bandaríkjastjórn hefði þegar beitt viðskiptaþvingunum gegn ríkisolíufyrirtæki Venesúela, PDSVA, og beini því til hersins í landinu, að láta stjórnarskipti í landinu fara friðsamlega fram.