Björn Zoëga, fyrrverandi forstjóri Landspítalans, hefur verið ráðinn forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Svíþjóð. Hann tekur við stöðunni í vor eða snemma sumars að því er sænskir miðlar greina frá. Fréttablaðið greinir fyrst frá íslenskra miðla.
Samkvæmt fréttinni er haft eftir Birni, sem síðast gegndi stöðu aðalframkvæmdastjóra lækningasviðs sænsku GHP samstæðunnar, að hann fyllist bæði stolti og ánægju með ráðninguna. Aðstæður á Karolinska séu í heimsklassa og hyggst hann takast á við þær áskoranir sem starfinu fylgja.
Birgir Jakobsson, fyrrverandi landlæknir en nú aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, gegndi stöðu forstjóra Karolinska sjúkrahússins frá 2007 til 2014.
Björn sagði upp störfum sem forstjóri Landspítalans í lok september árið 2013. Hann sagði í yfirlýsingu vegna uppsagnarinnar að nokkrar ástæður væru fyrir uppsögn sinni og nefndi sérstaklega fjárskort spítalans. Hann sagði nauðsynlega uppbyggingu ekki í augnsýn.
Þetta var í annað sinn á rúmlega ári sem Björn tók ákvörðun um að hætta sem forstjóri Landspítala. Það ætlaði hann að gera árið áður þegar honum barst boð um starf erlendis. Eftir viðræður við Guðbjart Hannesson, þáverandi heilbrigðisráðherra, ákvað Björn að halda áfram í starfi forstjóra. Þá fékk hann loforð um aukið fjárframlag til tækjakaupa og um fleiri aðgerðir í þágu spítalans. Björn átti einnig að fá launahækkun en ekkert varð af henni vegna harðrar gagnrýni starfsfólks á spítalanum.