Kauphöllin vonast til þess að geta á ný birt lista yfir stærstu hluthafa skráðra félaga á heimasíðu sinni. Beiðni þess efnis hefur verið send til Persónuverndar og búast má við afgreiðslu hennar innan skamms tíma. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Hætti að birta lista yfir hluthafa síðasta sumar
Kauphöllin hætti útsendingu og birtingu hluthafalistans síðasta sumar vegna þess að forsvarsmenn Kauphallarinnar töldu að birting hluthafalistans í þáverandi mynd uppfyllti ekki skilyrði nýrra laga um persónuvernd. Þá var skráðum hluthafafélögum endurgreitt helming ársgjalda sinna vegna breytinganna. Að undanförnu hafa mörg félög kosið að birta þessar upplýsingar sjálf.
Nú hefur Kauphöllin aftur á móti sent erindi til Persónuverndar í von um að hefja aftur birtingu á tuttugu stærstu hluthöfum skráðra félaga.
„Persónuvernd er með erindi frá okkur til skoðunar og við gerum okkur vonir um að geta hafið birtingu á þessum yfirlitum innan skamms á nýjan leik,“ sagði Páll Harðarson í samtali við Morgunblaðið í dag.
Auglýsing