Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti í desember á síðasta ári að laun nefndarmanna starfskjaranefndar fyrirtækisins verði 25 þúsund krónur fyrir hvern unninn klukkutíma. Formaður nefndarinnar fær sama tímakaup auk 50 prósent álags eða 37.500 krónur á tímann. Starfskjaranefndin leggur til hver laun nefndarmanna skulu vera. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þriggja manna nefnd sem fjallar um kjör forstjóra
Nefndin er þriggja manna nefnd sem hefur það verkefni að fjalla um kjör forstjóra og innri endurskoðanda Orkuveitunnar. Sigríður Rut Júlíusdóttir, formaður starfskjaranefndar OR, lagði fram og kynnti tillögu nefndarinnar um laun nefndarmanna á stjórnarfundi Orkuveitunnar í desember. Geir Guðjónsson, varamaður í stjórn OR, lagði á fundinum fram breytingartillögu um að lækka launin í 10 þúsund krónur fyrir hverja unna klukkustund. Sú tillaga var felld og tillaga nefndarinnar um eigin laun upp á 25 þúsund krónur á tímann var samþykkt.
Í umfjöllun Fréttablaðsins segir að Sjálfstæðismenn í stjórn Orkuveitunnar hafa löngum deilt á starfskjaranefnd og sagt hana óþarfa peningasóun. Kjartan Magnússon, sem setið hefur í starfskjaranefnd, hefur ítrekað bent á það að stjórnarformaður og stjórn Orkuveitunnar geti vel séð um þetta verkefni.
Orkuveita Reykjavíkur er sameignarfyrirtæki í eigu þriggja sveitarfélaga, Reykjavíkurborg á 94 prósent, Akraneskaupstaður 5 prósent og Borgarbyggð 1 prósent. Dótturfélög OR eru Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur. Orkuveitan starfar á grundvelli laga nr. 139/2001 um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur.