Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti í desember á síðasta ári að laun nefndarmanna starfskjaranefndar fyrirtækisins verði 25 þúsund krónur fyrir hvern unninn klukkutíma. Formaður nefndarinnar fær sama tímakaup auk 50 prósent álags eða 37.500 krónur á tímann. Starfskjaranefndin leggur til hver laun nefndarmanna skulu vera. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þriggja manna nefnd sem fjallar um kjör forstjóra

Í umfjöllun Fréttablaðsins segir að Sjálfstæðismenn í stjórn Orkuveitunnar hafa löngum deilt á starfskjaranefnd og sagt hana óþarfa peningasóun. Kjartan Magnússon, sem setið hefur í starfskjaranefnd, hefur ítrekað bent á það að stjórnarformaður og stjórn Orkuveitunnar geti vel séð um þetta verkefni.
Orkuveita Reykjavíkur er sameignarfyrirtæki í eigu þriggja sveitarfélaga, Reykjavíkurborg á 94 prósent, Akraneskaupstaður 5 prósent og Borgarbyggð 1 prósent. Dótturfélög OR eru Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur. Orkuveitan starfar á grundvelli laga nr. 139/2001 um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur.