Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, segir Pál Magnússon, þingmann Sjálfstæðisflokksins, hafa farið með rangt mál þegar hann gagnrýndi Sigríði fyrir „óboðlega stjórnsýlu“ í tengslum við breytingar hjá sýslumannsembættinu í Vestmannaeyjum.
Sigríður segir að það sé rangt að til standi að leggja niður embætti sýslumannsins í Vestmannaeyjum líkt og Páll hélt fram í ræðu sem hann flutti á Alþingi í dag. Það sé einnig rangt sem fram kom í ræðu Páls að sérstök sendinefnd á vegum dómsmálaráðuneytisins hafi verið gerð út til Eyja.
Í viðtali við mbl.is segir hún að hið rétta sé það, að sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum muni frá næstu mánaðarmótum taka að sér tímabundin störf fyrir sýslumannaráð meðal annars í tengslum við ákvörðun sem hún hafi tekið síðasta sumar í góðu samráði við alla sýslumenn þess efnis að farið yrði í gagngera skoðun á framtíðarstefnumótun vegna allra sýslumannsembættanna í landinu.
Frá þessu var greint í tilkynningu frá ráðuneytinu í gær.
Í ræðu sinni fyrr í dag gagnrýndi Páll dómsmálaráðherra harðlega. „Það vildi þannig til að fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, sem er frá Vestmannaeyjum, var staddur á flugvelli þar í bæ í gærmorgun. Þá var nýlent í bænum sendinefnd frá dómsmálaráðuneytinu. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að hún var þangað komin til að tilkynna heimamönnum að frá og með föstudeginum næsta, ekki á morgun heldur hinn, yrði enginn sýslumaður í Vestmannaeyjum! Hvorki þingmenn kjördæmisins né bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum, höfðu hugmynd um þetta,“ sagði Páll meðal annars.
Sigríður segir í viðtali við mbl.is að í það fari nú fram vinna í samvinnu við þá sem tengjast málum. Sýslumannsembættið í Vestmannaeyjum verði þannig óbreytt með þeim breytingum þó að sýslumaðurinn á Suðurlandi muni gegna því tímabundið út árið þar til ákvörðun hafi verið tekin um annað. Þá sé þess vænst að niðurstaða verði komin í þá vinnu sem sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum sé að fara í með sýslumannaráði og dómsmálaráðuneytinu.