„Við erum alls ekki að tala fyrir því að allt bankakerfið eða allur hlutur ríkisins sé seldur á einni nóttu. En það gæti mögulega, til lengri tíma litið, verið betra að fá inn einkaaðila þar. Þá er auðvitað gríðarlega mikilvægt að regluverkið og eftirlitið sé traust.“ Það eigi að tryggja að Ísland lendi ekki í sambærilegum hremmingum og síðast þegar bankarnir voru í eigu einkaaðila.
Þetta segir Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, hagfræðingur hjá Oliver Wyman í Svíþjóð sem sat í starfshópnum sem skrifaði Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem sýnt verður í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21 og hægt er að sjá stiklu úr honum hér að neðan:
Kristrún Tinna segir að það sé alltaf áhætta af fjárfestingum og óvissa ríki um verðþróun fjármálafyrirtækja sem ríkið taki á sig sem eigandi. Auk þess sé það líka varhugavert að vera með mörg egg í sömu körfunni.
Hún segir að það hafi verið jákvætt að ríkið hafi verið sá aðili sem hafi hagnast á þeirri óvenjulega háu arðsemi sem verið hafi af bankastarfsemi vegna þessara sérstöku aðstæðna á undanförnum árum og óvissa ríkti um raunverulegt virði eigna bankanna. „En núna erum við í rauninni að fara inn í aðeins eðlilegra rekstrarumhverfi þar sem að grunnreksturinn þarf að standa undir þeirri arðsemiskröfu sem er gerð.“
Í viðtalinu ræðir Kristrún Tinna einnig ýmsa aðra anga Hvítbókarinnar, meðal annars þær kannanir sem starfshópurinn lét gera um viðhorf almennings til fjármálakerfisins, álagningu á íbúðarlánum hérlendis í samanburði við hin Norðurlöndin og sértæka skatta sem leggjast á íslenska banka en ekki samkeppnisaðila þeirra innanlands og erlendis.