Hagar hf. högnuðust um um 1,764 milljarða á þriðja ársfjórðungi rekstrarárs félagsins, sem stendur frá mars til nóvember. Hagnaðurinn jafngildir 3,1 prósent af veltu en hagnaður á fyrra ári var rúmur 1,9 milljarðar, eða 3,6 prósent af veltu. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Haga sem birt var í gærkvöldi.
Salan jókst um fjögur prósent milli ára
Þá var vörusala á fyrstu níu mánuðum rekstrarársins 56,255 milljarður samanborið við 54,1 milljarða á sama tímabili árið áður. Nemur söluaukning því 4 prósent. Í uppgjörinu segir jafnframt að í matvöruverslanahluta félagsins hafa seld stykki aukist um 1,0 prósent og viðskiptavinum hefur fjölgað um 1,6 prósent milli ára.
Heildareignir samstæðunnar námu tæpum 53 milljörðum króna í lok tímabilsins og eigið fé nam tæpum 24 milljörðum. Eiginfjárhlutfall Haga var 45 prósent í lok tímabilsins.
Afhending eigna Haga og Olís hefst 1. febrúar
Í uppgjörinu kemur einnig fram að afhending þeirra eigna sem Högum og Olís bar að selja samkvæmt sátt félagsins við Samkeppniseftirlitið hefst 1. febrúar næstkomandi þegar verslun Bónus á Hallveigarstíg verður afhent. Búist er við því að afhendingu eigna sem Högum bar að selja verði lokið í mars en afhendingu eigna Olís í apríl.
Þá munu höfuðstöðvar Olís á sumarmánuðum flytja frá Katrínartúni 2 í Skútuvog 5. Skútuvogur 5 er í eigu Haga. Árleg áhrif á samstæðureikning félagsins verða um 110 milljónir króna frá og með september 2019 að telja. Söluandvirðið er greitt við afhendingu fyrstu eignar og því munu þær eignir sem Hagar selja hafa áhrif á sjóðsstreymi þess rekstrarárs sem nú er að ljúka en áhrifin af sölu eigna Olís koma ekki fram í sjóðsstreymi fyrr en á nýju rekstrarári.
Í tilkynningunni kemur einnig fram að leigusamningur Hagkaups í Borgarnesi rennur út í apríl næstkomandi og verður samningurinn ekki endurnýjaðar. Verslunin verður því lokað eftir 12 ár í rekstri.