Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti í dag drög að frumvarpi um breytingar á fjölmiðlalögum. Meginefni frumvarpsins snýst um að veita stjórnvöldum heimild til að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla í formi endurgreiðslu á allt að 25 prósent af tilteknum hluta ritstjórnarkostnað einkarekinna fjölmiðla. Skilyrði fyrir styrknum er að viðtakendur uppfylli ýmis skilyrði fjölmiðlalaga, efni þeirra sé fjölbreytt og fyrir allan almenning og byggist á fréttum, fréttatengdu efni og samfélagsumræðu í víðum skilningi. Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2020 og endurgreiðslur miðist við síðastliðið ár. Drög að frumvarpinu eru nú aðgengileg í stjórnargátt stjórnvalda.
Hámark endurgreiðslu 50 milljónir
Gert er ráð fyrir endurgreiðsluhæfur kostnaður verði bundinn við beinan launakostnað blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara og prófarkalesara auk verktakagreiðslna fyrir sömu störf, í frumvarpsdrögunum. Hlutfall endurgreiðslu verði að hámarki vera 25 prósent af kostnaði við framangreint, þó ekki hærri en 50 milljónir til hvers umsækjanda vegna síðastliðins árs. Jafnframt kemur fram í frumvarpsdrögunum að heimild sé til að veita staðbundnum fjölmiðlum viðbótar endurgreiðslu. Í frumvarpsdrögunum segir að lagt er til framlag ríkisins nemi 300 til 400 milljónum á ári.
Fjölmiðill þarf að hafa starfað í 12 mánuði
Í drögnum segir að þar sem megin markmiðið frumvarpsins sé að tryggja lýðræðislega umræðu og samræður í samfélaginu um málefni þess, þá séu gerðar kröfur um að fjölmiðlarnir uppfylli tiltekin skilyrði til þess að geta hlotið styrk eða endurgreiðslu á hluta kostnaðar við öflun og miðlun frétta, fréttatengt efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni. Helstu skilyrði fyrir styrknum eru:
- Fjölmiðill skal vera skráður eða hafa leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar
- Fjölmiðill hafi starfað óslitið í tólf mánuði eða lengur fyrir þann tíma er umsókn berst til fjölmiðlanefndar.
- Aðalmarkmið fjölmiðils skal vera miðlun frétta, fréttatengds efnis og umfjöllun um samfélagsleg málefni.
- Efni fjölmiðilsins skal vera fjölbreytt og fyrir allan almenning á Íslandi.
- Prentmiðlar skulu koma út að lágmarki fjörutíu og átta sinnum á ári. Netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar skulu miðla nýju efni daglega.
- Ritstjórnarefni skal að lágmarki vera 40 prósent af því efni sem birtist í prentmiðlum sem dreift er endurgjaldslaust til lesenda. Ritstjórnarefni í öðrum prentmiðlum og hjá netmiðlum skal að lágmarki vera helmingur af birtu efni.
- Einn sjötti hluti ritstjórnarefnis skal byggja á sjálfstæðri frétta- eða heimildaöflun.
Rekstur einkarekinna fjölmiðla erfiður hér á landi
Í frumvarpsdrögunum segir að frumvarpið sé í samræmi við það meginmarkmið stjórnvalda á sviði fjölmiðlunar að viðhalda og efla lýðræðislega umræðu og lýðræðisþátttöku fólks með því að efla miðlalæsi, stuðla að fjölbreytni, gagnsæi og fjölræði í fjölmiðlum.
Jafnframt segir að frumvarpið sé unnið á grundvelli stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnar og fjármálaáætlunar 2019 til 2023 þar sem gerð er grein fyrir því að unnið verði að því að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla á tímabilinu. Í skýrslu nefndar um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi, sem skipuð var í lok árs 2016 kom fram að rekstur einkarekinna fjölmiðla sé svo erfiður að það gefi stjórnvöldum tilefni til að stuðla að bættu rekstrarumhverfi þeirra.
Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2020
Gert er ráð fyrir að fjölmiðlanefnd sjái um framkvæmd og að kostnaður við hana verði tekinn af árlegum fjárveitingum til verkefnisins. Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2020 og endurgreiðslur miðist við síðast liðið ár. Lögin verði endurskoðuð fyrir 31. desember 2024 .
Til að meta hvort markmið laganna hafi náðst verður gerð úttekt á áhrifum og árangri stuðnings við einkarekna fjölmiðla fyrir lok árs 2023. Athugað verður skoðað hvort stuðningskerfið hafi náð fram þeim markmiðum sem að er stefnt með frumvarpinu. Í því sambandi skal m.a. kanna hvort stuðningskerfið hafi stuðlað að aukningu á miðlun frétta og fréttatengds efnis einkarekinna fjölmiðla, hvort hlutfall efnis sem byggist á sjálfstæðri frétta- eða heimildaöflun hafi aukist, hvort starfsfólki á ritstjórnum fjölmiðla hafi fjölgað og fleira.
Frumvarpsdrögin eru nú í samráðsgátt stjórnvalda en umsagnafrestur er til 15. febrúar 2019. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem berast.