Mynd: Samsett

Reynt að bjarga íslensku fjölmiðlalandslagi frá algjörri einsleitni

Drög að frumvarpi um hvernig íslenska ríkið ætlar að styðja við einkarekna fjölmiðla liggja fyrir og verða kynnt í ríkisstjórn von bráðar. Í þeim er útlistað hvernig greiða eigi 350 milljónir króna til þeirra framleiðenda fréttaefnis sem uppfylla ströng skilyrði um meðal annars rekstrarsögu, gagnsæi í eignarhaldi og skil á opinberum skuldum. Tilgangurinn er að bjarga fjölbreytni í íslensku fjölmiðlalandslagi.

Fyrir mánaðamót er von á frumvarpi sem ætlað er að stuðla að bættu rekstrarumhverfi ritstýrðra íslenskra fjölmiðla sem miðla fréttum, fréttatengdu efni og mikilvægu samfélagslegu hlutverki í samráðsgátt stjórnvalda. Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, hefur undanfarna mánuði unnið að því að reikna út kostnað við mismunandi sviðsmyndir þessu tengdu. Heimildir Kjarnans herma að þeir útreikningar hafi meðal annars snúist um hvort næði tilgangi frumvarpsins betur, að greiða einkareknum fjölmiðlum styrki úr ríkissjóði eða gera þeim kleift að fá hluta ritstjórnarkostnaðar endurgreiddan. Niðurstaðan er sú að dreifing þeirrar upphæðar sem til stendur að greiða til fjölmiðla sem frumvinna fréttir er mjög sambærileg í báðum leiðum. Því er líklegt að endurgreiðsluleiðin verði ofan á. 

Það munu ekki allir fjölmiðlar geta fengið endurgreiðslur vegna ritstjórnarkostnaðar, verði frumvarpið að lögum óbreytt. Í því verða ströng skilyrði um t.d. rekstrarsögu til að koma í veg fyrir að nýir aðilar geti stofnað fjölmiðil og farið samstundis fram á greiðslur úr ríkissjóði, um gegnsæi eignarhalds og að öll opinber gjöld séu í skilum, svo fátt eitt sé nefnt. 

Auglýsing

Drög að frumvarpinu liggja fyrir og næsta skref er að Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynni það í ríkisstjórn og fái þar staðfestingu á boðuðum stuðningi við það. Í kjölfarið verður frumvarpið að öllum líkindum lagt fram til samráðs. 

Ferli sem staðið hefur yfir í eitt ár

Lilja kynnti þær tillögur sem frumvarpið á að meginuppistöðu að byggja á á fréttamannafundi í september 2018. Þær byggðu meðal annars á skýrslu nefndar sem falið var að koma með tillögur um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, sem gerð var opinber fyrir einu ári síðan. Frá þeim tíma hefur verið unnið að útfærslu sem nú stendur til að kynna á næstu vikum. 

Í tillögum Lilju kom fram að áætlaðar endurgreiðslur til þeirra einkareknu fjölmiðla sem munu uppfylla sett skilyrði verði alls 350 milljónir króna á ári. Ráðgert er að fyrst endurgreiðslan komi til vegna rekstrarársins 2019, og yrði því til útgreiðslu í byrjun árs 2020. 

Auk þessa sagði Lilja að til stæði að sam­ræma skatt­lagn­ingu á aug­lýs­ingum svo íslenskir fjöl­miðlar standi jafn­fætis erlendum netmiðlum og með því að auka gagn­sæi í opin­berum aug­lýs­inga­kaup­um. Mikið ójafnræði er í slíkum auglýsingakaupum en á fyrstu tíu mánuðum síðasta árs borguðu ráðuneyti, ríkisstofnanir og fyrirtæki á vegum hins opinvera alls tæplega 190 milljónir króna fyrir birtingu auglýsinga. Tvö fjöl­miðla­fyr­ir­tæki, útgáfu­fé­lag Frétta­blaðs­ins og Árvakur útgef­andi Morg­un­blaðs­ins, fengju sam­tals tæp­lega þriðj­ung fjár­ins ­sem hið opin­bera eyddi í aug­lýs­inga­birt­ingar.

Brugðist við til að koma í veg fyrir einsleitni

Samkvæmt heimildum Kjarnans munu endurgreiðslurnar einungis standa þeim fjölmiðlum sem frumvinna fréttaefni til boða. Þeir sem að uppistöðu taka upp fréttir annarra miðla og endursegja þær munu ekki uppfylla þau skilyrði sem sett verða.

Auglýsing

Þá á að draga úr umsvifum RÚV á aug­lýs­inga­mark­aði og skapa með því svig­rúm fyrir aðra til að auka sínar tekj­ur. Alls er búist við því að umsvif RÚV á sam­keppn­is­mark­aði muni drag­ast saman um 560 millj­ónir króna á ári með því að kostun dag­skrár­liða verði hætt og með lækkun hámarks­fjölda aug­lýs­ingamín­útna úr átta í sex á klukku­stund. Lilja hefur margoft látið hafa það eftir sér opinberlega síðan að RÚV verði bætt upp þetta tekjutap með öðrum hætti. Samhliða verði metið hvað RÚV þurfi að kosta til að geta sinnt því hlutverki sem fyrirtækinu er ætlað samkvæmt þjónustusamningi sem er í gildi milli ríkisins og RÚV, en sá samningur er til endurskoðunar í ár.

RÚV í algjörri yfirburðastöðu á markaðnum

Ríkisútvarpið, eða RÚV eins og það er betur þekkt sem, var gert að opinberu hlutafélagi árið 2007. Fyrsti heili ársreikningur þess var því fyrir rekstrarárið 2008, sem hófst 1. september 2007 og lauk 31. ágúst 2008. Það ár námu greiðslur úr ríkissjóði til ríkisfjölmiðilsins 2,9 milljörðum króna auk þess sem hann sótti sér tæplega 1,4 milljarða króna í tekjur með sölu auglýsinga og kostana. Alls voru tekjur RÚV það árið vegna ofangreinds því um 4,3 milljarðar króna.

Ef þessar tekjur eru uppreiknaðar, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, þá eru þær um 6,1 milljarður króna miðað við vísitölu neysluverðs í upphafi árs 2018. Til samanburðar voru tekjur RÚV úr ríkissjóði og vegna auglýsinga eða kostana 6,4 milljarðar króna árið 2017. Þær eru því aðeins hærri að raunvirði á því ári en þær voru á rekstrarárinu 2008.

Staða RÚV vænkaðist enn frekar í fyrra. Samkvæmt fjárlögum ársins 2018 fékk fyrirtækið úthlutað 4,2 milljörðum króna úr ríkissjóði auk þess sem sýning á HM í knattspyrnu tryggði RÚV um 200 milljóna króna viðbótartekjur vegna auglýsinga og kostana. Ef gert er ráð fyrir því að aðrar tekjur vegna samkeppnisrekstrar hafi verið svipaðar og árið 2017 þá ætti sala auglýsinga og kostana að skila RÚV um 2,5 milljörðum króna í kassann á árinu 2018. Ofan á það fékk RÚV 222 milljónir króna úr ríkissjóði á fjáraukalögum síðasta árs vegna „leiðréttingar“ á lögbundnu framlagi til fyrirtækisins. Sú upphæð sem RÚV fékk á fjáraukalögum er 63 prósent af því sem til stendur að deila á milli allra einkarekinna fjölmiðla landsins verði hugmyndir mennta- og menningarmálaráðherra um ívilnanir fyrir þá að veruleika.

Í ár verður staðan enn betri. Fjárlög ársins 2019 gera ráð fyrir því að framlag ríkissjóðs til RÚV hækki um 534 milljónir króna, eða um 12,8 prósent. Breyt­ing­una má rekja til 175 milljón króna hækk­unar á fram­lagi til RÚV vegna sjóðs sem ætlað er að kaupa efni frá sjálf­stæðum fram­leið­endum hér­lendis og 360 milljón króna hækk­unar á fram­lagi til RÚV. Alls mun RÚV fá um 4,7 milljarða króna úr ríkissjóði á árinu 2019. Því má ætla að tekjur RÚV fari nálægt, og jafnvel yfir, sjö milljarða króna í ár.

Ef svo skyldi fara að þeir styrkir eða endurgreiðslur sem stefnt er að greiða til einkarekinna fjölimðla myndu gilda fyrir árið 2019, og sú upphæð sem ráðherra málaflokksins hefur kynnt haldist, myndu framlög ríkisins til fjölmiðla á þessum ári því nema rétt rúmlega fimm milljörðum króna. Af þeirri upphæð myndi 93 prósent renna til RÚV en sjö prósent til einkarekinna fjölmiðla sem uppfylla skilyrði fyrir styrki eða ívilnun.

RÚV hefur getað aukið rekstr­­ar­hæfi sitt með öðrum leiðum en auknum tekjum og fram­lögum á síð­­­ustu árum. Samanlagður hagnaður RÚV á árunum 2016 og 2017 nam tæplega 1,8 milljarði króna. Þar skipti hagnaður af sölu byggingalóða við Efstaleiti mestu máli.

Til viðbótar gerði RÚV tímamótasamkomulag við Líf­eyr­is­­­sjóð starfs­­­manna rík­­­is­ins (LSR) um að breyta skil­­­málum á skulda­bréfi í eigu sjóðs­ins sem er til­­­komið vegna ógreiddra líf­eyr­is­skuld­bind­inga ríkisfjölmiðilsins. Í sam­komu­lag­inu fólst að veru­­lega er lengt í greiðslu­­­ferli bréfs­ins, en loka­gjald­dagi þess er nú 1. októ­ber 2057 í stað 1. apríl 2025. Sam­hliða er höf­uð­­­stóll hækk­­­aður og vextir lækk­­­aðir úr fimm pró­­­sentum í 3,5 pró­­­sent. Þetta mun gera það að verkum að greiðsla skuld­­ar­innar mun teygja sig til nýrra kyn­slóða en fjár­­­magns­­gjöld sem RÚV greiðir árlega munu lækka umtals­vert. Þau voru 282,5 millj­­ónir króna árið 2017.

Þegar samráði um frumvarpið er lokið verður það lagt fram á Alþingi og síðan vísað til allsherjar- og menntamálanefndar til meðferðar. Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi útvarpsstjóri RÚV, er formaður þeirrar nefndar. Hann sagði í samtali við Fréttablaðið 4. janúar síðastliðinn að hann geri ráð fyrir því að frumvarpið verði töluvert átakamál, bæði á milli flokka og innan flokka. „Þótt flestir séu sammála um að það verði að huga að þessum málum ef menn ætla ekki að sitja bara uppi með einn ríkisfjölmiðil í landinu, eins og þróunin hefur verið, þá er ég jafn viss um að tekist verði á um aðferðirnar við að ná því markmiði.“

Bylting og aðgerðarleysi

Það sem Páll á við með því að án aðgerða gæti þjóðin setið uppi með einungis einn fjölmiðil, RÚV, er að rekstraraðstæður einkarekinna fjölmiðla hafa versnað gríðarlega hratt síðastliðinn áratug. Á sama tíma hefur rekstrarstaða RÚV haldist nokkuð svipuð, líkt og rakið er í hliðarefni. 

Að hluta til er það vegna þess að upplýsinga- og tæknibyltingin hefur gjörbreytt heiminum og öllum neytendavenjum. En að hluta til er það vegna þess að stjórnmálamenn á Íslandi hafa ekki skilgreint fjölmiðla sem nægilega nauðsynlegan hluta, jafnvel hornstein, lýðræðisins til að grípa inn í þróunina og tryggja fjölbreytni fjölmiðla. 

Raunar hafa þeir ekkert gert til að bæta stöðu einkarekinna fjölmiðla þrátt fyrir augljós viðvörunarljós sem blikkað hafa stanslaust ár frá ári. Afleiðingin er sú að flest allir einkareknir fjölmiðlar landsins hafa verið reknir með tapi á undanförnum áratug. Samhliða hefur átt sér stað atgervisflótti úr stétt fjölmiðlamanna vegna kjara og starfsaðstæðna, hlutur falsfrétta, áróðurs og rangfærslna í umræðunni hefur stóraukist og árásir stjórnmálamanna og annara áhrifamanna á fjölmiðla hafa orðið mun tíðari. 

Eftirbátur Norðurlanda

Það rekstrarumhverfi sem íslenskum einkareknum fjölmiðlum er sniðið er í andstöðu við það sem tíðkast víðast hvar í Evrópu. Þannig eru beinir ríkisstyrkir til einkarekinna fjölmiðla á öllum Norðurlöndunum, í Frakklandi, Lúxemborg, Lettlandi og Ítalíu. Á hinum Norðurlöndunum, sem eru þau samfélög sem Ísland ber sig mest saman við, má rekja rekstrarstuðning hins opinbera til einkarekinna fjölmiðla aftur til ársins 1990. Í Noregi og Svíþjóð hefur stuðningurinn verið aukinn umtalsvert undanfarin misseri. Dönsk stjórnvöld kynntu einnig aðgerðir til að bregðast við rekstrarstöðu fjölmiðla í fyrra, sem fólust meðal annars í því að draga saman umfang DR, danska ríkissjónvarpsins.

Lilja D. Alfreðsdóttir er ráðherra fjölmiðlamála.
Mynd: Hringbraut.

Undirliggjandi er að tryggja að gagnrýnin umræða, aðhald, fjölbreyttar skoðanir og sjónarmið, menningarleg fjölbreytni, rannsóknarblaðamennska séu grundvöllur hvers lýðræðisríkis. Til þess að ná því markmiði þurfa fjölmiðlar að vera fjölbreyttir og í eigu ólíkra aðila.

Gagnrýnendur þess að ríkið styrki einkarekna fjölmiðla halda því fram að slíkir styrkir geti grafið undan sjálfstæði fjölmiðlanna. Að þeir muni ekki bíta hendina sem fóðrar þá og þar af leiðandi muni þeir ekki sinna aðhaldshlutverki sínu nægilega vel. 

Íslenskt fjölmiðlaumhverfi veikt með algjöru afskiptaleysi

Fjölmiðlaumhverfi Íslands er mun óþroskaðra en á hinum Norðurlöndunum. Skipta má sögu einkarekinna fjölmiðla sem sinna fréttavinnslu gróflega upp í þrjú tímabil: það fyrsta þegar stjórnmálaflokkar voru allsráðandi í yfirráðum yfir fjölmiðlum, annað þegar viðskiptablokkir réðu öllum einkareknum fjölmiðlum á árunum 2002-2008 og svo hið þriðja, sem er áratugurinn sem er liðinn frá hruni. 

Öll tímabilin eiga það sameiginlegt að þorri þeirra fjölmiðla sem starfræktir voru á þeim þurftu ekki að sýna rekstrarlega sjálfbærni. Tilgangurinn með útgáfu þeirra var annar en að láta þá standa undir sér. Auðvitað voru undantekningar frá þessari stöðu, og var þá sérstaklega um að ræða smærri miðla sem lifðu í skemmri tíma eða síðdegisblöð.

Auglýsing

Síðustu tíu árin eru líklega sérstaka tímabilið. Sjaldan eða aldrei í Íslandssögunni hefur þörfin fyrir stönduga fjölmiðla verið jafn mikið og á þeim árum til að upplýsa almenning og setja atburði í samhengi fyrir hann. Ástæðuna fyrir því má finna í fordæmalausu efnahagshruni, allsherjarendurskipulagningu samfélagsins, milliríkjadeilum, dómsmálum, einstæðum pólitískum óstöðugleika, hneykslismálum sem hafa ítrekað vakið heimsathygli og einhverjum mestu samfélagsbreytingum sem þjóðin hefur upplifað, meðal annars vegna fjölgunar á erlendum ríkisborgurum og margföldunar á fjölda ferðamanna sem heimsækja landið. 

Þessi þörf hefur þó ekki orðið til þess að rekstrarumhverfi frjálsu fjölmiðlanna hafi verið styrkt. Þvert á móti hefur það veikst mjög.

Sérhagsmunir greiða fyrir taprekstur

Birtingarmynd þess er sú að stærstu fjölmiðlafyrirtæki landsins á einkamarkaði hafa verið í rekstri sem er ósjálfbær á undanförnum árum. Þ.e. þau hafa verið í eigu aðila sem eru tilbúnir að borga gríðarlegan taprekstur ár eftir ár og því liggur fyrir að ekki hefur verið að reka samsteypurnar á viðskiptalegum forsendum. 

Árvakur, sem gefur út Morgunblaðið, heldur úti stærsta fréttavef landsins, mbl.is, á Eddu útgáfu og útvarpsstöðina K100 hefur til að mynda tapað um 1,8 milljarði króna frá árinu 2009, þegar nýir eigendur, að mestu úr íslenskum sjávarútvegi, keyptu fyrirtæki. Samhliða hafa þessir eigendur sett 1,4 milljarða króna inn í reksturinn. 

Mikill taprekstur hefur verið á Árvakri, sem gefur meðal annars út Morgunblaðið, á undanförnum árum.
Mynd: Bára Huld Beck

Hinn risinn á einkareknum íslenskum fjölmiðlamarkaði var lengst af 365 miðlar, sem hefur verið í eigu Ingibjargar Pálmadóttur og stýrt af eiginmanni hennar Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. 365 miðlar gáfu út Fréttablaðið, áttu Stöð 2 og Vísir.is og flestallar einkareknar útvarpsstöðvar landsins. 365 miðlar töpuðu 348 milljónum króna á árinu 2017 og hafa í heild tapað hátt í tveimur milljörðum króna frá árinu 2014. 

Í desember 2017 seldi fyrirtækið Stöð 2 og tengdar sjón­­­varps­­­stöðv­­­­­ar, útvarps­­­­­rekstur fyr­ir­tæk­is­ins (t.d. Bylgj­an, X-ið og FM957) og Vísir.is til fjarskiptafyrirtækisins Fjarskipta. Frétta­­­stofa 365 fylgdi með í kaup­un­um, en hún er ein stærsta frétta­­­stofa lands­ins og sú eina sem heldur úti dag­­­legum sjón­­­varps­frétta­­­tíma utan frétta­­­stofu RÚV. Eftir inni í 365 miðlum var einungis Fréttablaðið og tímaritið Glamour. 

Kaupin hafa ekki reynst happadrjúg fyrir Fjarskipti, sem hafa nú breytt nafni sínu í Sýn. Kostnaður við samþættinguna hefur reynst meiri en reiknað var með og Sýn hefur tvívegis sent frá sér afkomuviðvaranir þar sem áætlaður rekstrarhagnaður vegna ársins lækkaði um samtals 550 milljónir króna. Ástæða þessa var meðal annars sú að dagskrárkostnaður var hærri en gert hafði verið ráð fyrir en auglýsingasala og sala sjónvarpsáskrifta lægri. Samhliða hrapaði markaðsvirði félagsins, en ekkert félag í íslensku kauphöllinni lækkaði meira í verði á árinu 2018 en Sýn. Alls dróst markaðsvirði félagsins saman um 38,3 prósent. Í vikunni voru tveir stjórnendur Sýnar látnir fara. Annar þeirra var Björn Víglundsson, sem leitt hefur miðla félagsins.

Gjörbreyting á einu ári

Önnur birtingarmynd er sú að fjölmiðlar eru sífellt að týna töluna, eða ganga í gegnum eigendaskipti í kjölfar mikilla rekstrarerfiðleika. Þetta var sérstaklega sýnilegt árið 2017. Fyrir utan söluna á flestum ljósvakamiðlum 365 miðla hóf Árvakur samstarf við Símann, annað fjarskiptafyrirtæki, um efnisframleiðslu. Fréttatíminn fór á hausinn á því ári og Pressusamstæða Björns Inga Hrafnssonar, sem hafði farið mikinn árum saman og safnað að sér allskyns fjölmiðlum með fjármagni sem ekki var gerð grein fyrir hvaðan kæmi, gerði það sömuleiðis síðar á því ári og miðlar í kjölfarið seldir til annars félags, Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. Í ljós kom að Pressumiðlarnir höfðu ekki skilað háum upphæðum í opinber gjöld og þar af leiðandi tekið ólögleg rekstrarlán hjá hinu opinbera sem hlupu á tugum milljóna króna hið minnsta. Rekstur miðlanna er til rannsóknar hjá héraðssaksóknara vegna grunsemda um lögbrot. Auk þess eru á dagskrá riftunarmál þar sem rökstuddur grunur er um að kröfuhöfum hafi verið mismunað.

Minni fjölmiðlar sem hafa ekki aðgengi að lánsfjármagni eða djúpum vösum hafa upplifað miklar þrengingar á auglýsingamarkaði, bæði vegna þess að hann hefur í heild skroppið saman en ekki síður vegna þess að sífellt stærri hlutur hans ratar í auglýsingar hjá erlendum stórfyrirtækjum á borð við Facebook, Google og Youtube. Þeir miðlar hafa tekið út rekstraraðlögun í gegnum rekstrarreikninginn.

Sjálfsögð krafa að almenningur viti hver ræður fjölmiðli

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut þann 20. september síðastliðinn að það væri útilokað að þeir fjöl­miðlar sem séu til að mynda með opin­ber gjöld í van­skilum muni geta fengið end­ur­greiðslur frá rík­inu vegna rekstrar síns. Hún sagði líka að verið sé að horfa á gagn­sæi í eign­ar­haldi í þeim efn­um.

Í þætt­inum var hún spurð út í það hvort það muni fylgja því ein­hverjar kvaðir að fá umræddar end­ur­greiðsl­ur. Til dæmis um skýrt og gegn­sætt eign­ar­hald, bæði beint og óbeint vegna fjár­mögn­unar fjöl­miðla, liggi fyr­ir, að öll opin­ber gjöld séu í skil­um, að fyrir liggi ein­hver rekstr­ar­saga og lág­marks­fjöldi stöðu­gilda svo að hver sem er geti ekki stofnað miðil og byrjað að þiggja end­ur­greiðsl­ur.

Lilja sagði skýrt að svo yrði og nefndi sér­stak­lega þá sem skulda opin­ber gjöld. „Það er alveg úti­lokað í mínum huga að menn séu í þannig aðstöðu geti svo óskað eftir beinum fjár­hags­legum stuðn­ingi hjá hinu opin­bera. Eitt sem við erum að horfa á er að við­kom­andi séu í skilum með öll opin­ber gjöld. Við erum líka að horfa á gagn­sæi varð­andi eign­ar­hald sem mér finnst skipta mjög miklu máli hjá fjöl­miðl­u­m.“

Lilja gekk síðan lengra hvað varðar eignarhald á fjölmiðlum í svari við fyrirspurn Smára McCarthy, þingmanns Pírata, sem birtist á vef Alþingis fyrr í þessum mánuði. Þar sagði Lilja að ef kröfuhafar geti haft áhrif á ritstjórn fjölmiðils og efnistök þá mætti telja það sjálfsagða kröfu almennings, sem noti efni fjölmiðilsins, að fá upplýsingar þar af lútandi.

Fjölmiðlanefnd, sem sinnir eftirliti með starfsemi fjölmiðla á landinu, hefur nokkrum sinnum kallað eftir hluthafasamkomulögum og lánasamningum sem hún taldi að gæti haft áhrif á yfirráð fjölmiðils. Viðkomandi fjölmiðlar hafa aldrei afhent slík til nefndarinnar og hún telur sig ekki hafa valdheimildir til að gera annað en að biða um gögnin.

Því ráða fjölmiðlafyrirtæki, sem hafa fengið háar upphæðir að láni frá huldumönnum, hvort þeir upplýsi um hverjir þeir huldumenn eru. Nærtækasta dæmið um þetta úr íslenskum fjölmiðlaveruleika eru lán til Frjálsrar fjölmiðlunar, sem rekur m.a. DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt og 433.is. Eini skráði eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar er eignarhaldsfélags lögmannsins Sigurðar G. Guðjónssonar, Dalsdalur ehf. Það félag fékk 425 milljónir króna lánaðar vaxtalaust til að kaupa ofangreinda fjölmiðla. Þá var hlutafé Frjálsrar fjölmiðlunar aukið tvívegis á síðasta ári, alls um 120 milljónir króna. Sigurður hefur ætið neitað að gefa upp hver lánveitandinn er.

Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar