Mynd: Samsett

Reynt að bjarga íslensku fjölmiðlalandslagi frá algjörri einsleitni

Drög að frumvarpi um hvernig íslenska ríkið ætlar að styðja við einkarekna fjölmiðla liggja fyrir og verða kynnt í ríkisstjórn von bráðar. Í þeim er útlistað hvernig greiða eigi 350 milljónir króna til þeirra framleiðenda fréttaefnis sem uppfylla ströng skilyrði um meðal annars rekstrarsögu, gagnsæi í eignarhaldi og skil á opinberum skuldum. Tilgangurinn er að bjarga fjölbreytni í íslensku fjölmiðlalandslagi.

Fyrir mán­aða­mót er von á frum­varpi sem ætlað er að stuðla að bættu rekstr­ar­um­hverfi rit­stýrðra íslenskra fjöl­miðla sem miðla frétt­um, frétta­tengdu efni og mik­il­vægu sam­fé­lags­legu hlut­verki í sam­ráðs­gátt stjórn­valda. Ragnar Árna­son, pró­fessor í hag­fræði, hefur und­an­farna mán­uði unnið að því að reikna út kostnað við mis­mun­andi sviðs­myndir þessu tengdu. Heim­ildir Kjarn­ans herma að þeir útreikn­ingar hafi meðal ann­ars snú­ist um hvort næði til­gangi frum­varps­ins bet­ur, að greiða einka­reknum fjöl­miðlum styrki úr rík­is­sjóði eða gera þeim kleift að fá hluta rit­stjórn­ar­kostn­aðar end­ur­greidd­an. Nið­ur­staðan er sú að dreif­ing þeirrar upp­hæðar sem til stendur að greiða til fjöl­miðla sem frum­vinna fréttir er mjög sam­bæri­leg í báðum leið­um. Því er lík­legt að end­ur­greiðslu­leiðin verði ofan á. 

Það munu ekki allir fjöl­miðlar geta fengið end­ur­greiðslur vegna rit­stjórn­ar­kostn­að­ar, verði frum­varpið að lögum óbreytt. Í því verða ströng skil­yrði um t.d. rekstr­ar­sögu til að koma í veg fyrir að nýir aðilar geti stofnað fjöl­miðil og farið sam­stundis fram á greiðslur úr rík­is­sjóði, um gegn­sæi eign­ar­halds og að öll opin­ber gjöld séu í skil­um, svo fátt eitt sé nefn­t. 

Drög að frum­varp­inu liggja fyrir og næsta skref er að Lilja D. Alfreðs­dótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra, kynni það í rík­is­stjórn og fái þar stað­fest­ingu á boð­uðum stuðn­ingi við það. Í kjöl­farið verður frum­varpið að öllum lík­indum lagt fram til sam­ráðs. 

Ferli sem staðið hefur yfir í eitt ár

Lilja kynnti þær til­lögur sem frum­varpið á að meg­in­uppi­stöðu að byggja á á frétta­manna­fundi í sept­em­ber 2018. Þær byggðu meðal ann­ars á skýrslu nefndar sem falið var að koma með til­lögur um bætt rekstr­ar­um­hverfi einka­rek­inna fjöl­miðla, sem gerð var opin­ber fyrir einu ári síð­an. Frá þeim tíma hefur verið unnið að útfærslu sem nú stendur til að kynna á næstu vik­um. 

Í til­lögum Lilju kom fram að áætl­aðar end­ur­greiðslur til þeirra einka­reknu fjöl­miðla sem munu upp­fylla sett skil­yrði verði alls 350 millj­ónir króna á ári. Ráð­gert er að fyrst end­ur­greiðslan komi til vegna rekstr­ar­árs­ins 2019, og yrði því til útgreiðslu í byrjun árs 2020. 

Auk þessa sagði Lilja að til stæði að sam­ræma skatt­lagn­ingu á aug­lýs­ingum svo íslenskir fjöl­miðlar standi jafn­­­fætis erlendum net­miðlum og með því að auka gagn­­sæi í opin­berum aug­lýs­inga­­kaup­­um. Mikið ójafn­ræði er í slíkum aug­lýs­inga­kaupum en á fyrstu tíu mán­uðum síð­asta árs borg­uðu ráðu­neyti, rík­is­stofn­anir og fyr­ir­tæki á vegum hins opin­vera alls tæp­lega 190 millj­ónir króna fyrir birt­ingu aug­lýs­inga. Tvö fjöl­miðla­­fyr­ir­tæki, útgáfu­­fé­lag Frétta­­blaðs­ins og Árvakur útgef­andi Morg­un­­blaðs­ins, fengju sam­tals tæp­­lega þriðj­ung fjár­­ins ­sem hið opin­bera eyddi í aug­lýs­inga­birt­ing­ar.

Brugð­ist við til að koma í veg fyrir eins­leitni

Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans munu end­ur­greiðsl­urnar ein­ungis standa þeim fjöl­miðlum sem frum­vinna frétta­efni til boða. Þeir sem að uppi­stöðu taka upp fréttir ann­arra miðla og end­ur­segja þær munu ekki upp­fylla þau skil­yrði sem sett verða.

Þá á að draga úr umsvifum RÚV á aug­lýs­inga­­mark­aði og skapa með því svig­­rúm fyrir aðra til að auka sínar tekj­­ur. Alls er búist við því að umsvif RÚV á sam­keppn­is­­mark­aði muni drag­­ast saman um 560 millj­­ónir króna á ári með því að kostun dag­­skrár­liða verði hætt og með lækkun hámarks­­­fjölda aug­lýs­ingamín­útna úr átta í sex á klukku­­stund. Lilja hefur margoft látið hafa það eftir sér opin­ber­lega síðan að RÚV verði bætt upp þetta tekju­tap með öðrum hætti. Sam­hliða verði metið hvað RÚV þurfi að kosta til að geta sinnt því hlut­verki sem fyr­ir­tæk­inu er ætlað sam­kvæmt þjón­ustu­samn­ingi sem er í gildi milli rík­is­ins og RÚV, en sá samn­ingur er til end­ur­skoð­unar í ár.

RÚV í algjörri yfirburðastöðu á markaðnum

Ríkisútvarpið, eða RÚV eins og það er betur þekkt sem, var gert að opinberu hlutafélagi árið 2007. Fyrsti heili ársreikningur þess var því fyrir rekstrarárið 2008, sem hófst 1. september 2007 og lauk 31. ágúst 2008. Það ár námu greiðslur úr ríkissjóði til ríkisfjölmiðilsins 2,9 milljörðum króna auk þess sem hann sótti sér tæplega 1,4 milljarða króna í tekjur með sölu auglýsinga og kostana. Alls voru tekjur RÚV það árið vegna ofangreinds því um 4,3 milljarðar króna.

Ef þessar tekjur eru uppreiknaðar, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, þá eru þær um 6,1 milljarður króna miðað við vísitölu neysluverðs í upphafi árs 2018. Til samanburðar voru tekjur RÚV úr ríkissjóði og vegna auglýsinga eða kostana 6,4 milljarðar króna árið 2017. Þær eru því aðeins hærri að raunvirði á því ári en þær voru á rekstrarárinu 2008.

Staða RÚV vænkaðist enn frekar í fyrra. Samkvæmt fjárlögum ársins 2018 fékk fyrirtækið úthlutað 4,2 milljörðum króna úr ríkissjóði auk þess sem sýning á HM í knattspyrnu tryggði RÚV um 200 milljóna króna viðbótartekjur vegna auglýsinga og kostana. Ef gert er ráð fyrir því að aðrar tekjur vegna samkeppnisrekstrar hafi verið svipaðar og árið 2017 þá ætti sala auglýsinga og kostana að skila RÚV um 2,5 milljörðum króna í kassann á árinu 2018. Ofan á það fékk RÚV 222 milljónir króna úr ríkissjóði á fjáraukalögum síðasta árs vegna „leiðréttingar“ á lögbundnu framlagi til fyrirtækisins. Sú upphæð sem RÚV fékk á fjáraukalögum er 63 prósent af því sem til stendur að deila á milli allra einkarekinna fjölmiðla landsins verði hugmyndir mennta- og menningarmálaráðherra um ívilnanir fyrir þá að veruleika.

Í ár verður staðan enn betri. Fjárlög ársins 2019 gera ráð fyrir því að framlag ríkissjóðs til RÚV hækki um 534 milljónir króna, eða um 12,8 prósent. Breyt­ing­una má rekja til 175 milljón króna hækk­unar á fram­lagi til RÚV vegna sjóðs sem ætlað er að kaupa efni frá sjálf­stæðum fram­leið­endum hér­lendis og 360 milljón króna hækk­unar á fram­lagi til RÚV. Alls mun RÚV fá um 4,7 milljarða króna úr ríkissjóði á árinu 2019. Því má ætla að tekjur RÚV fari nálægt, og jafnvel yfir, sjö milljarða króna í ár.

Ef svo skyldi fara að þeir styrkir eða endurgreiðslur sem stefnt er að greiða til einkarekinna fjölimðla myndu gilda fyrir árið 2019, og sú upphæð sem ráðherra málaflokksins hefur kynnt haldist, myndu framlög ríkisins til fjölmiðla á þessum ári því nema rétt rúmlega fimm milljörðum króna. Af þeirri upphæð myndi 93 prósent renna til RÚV en sjö prósent til einkarekinna fjölmiðla sem uppfylla skilyrði fyrir styrki eða ívilnun.

RÚV hefur getað aukið rekstr­­ar­hæfi sitt með öðrum leiðum en auknum tekjum og fram­lögum á síð­­­ustu árum. Samanlagður hagnaður RÚV á árunum 2016 og 2017 nam tæplega 1,8 milljarði króna. Þar skipti hagnaður af sölu byggingalóða við Efstaleiti mestu máli.

Til viðbótar gerði RÚV tímamótasamkomulag við Líf­eyr­is­­­sjóð starfs­­­manna rík­­­is­ins (LSR) um að breyta skil­­­málum á skulda­bréfi í eigu sjóðs­ins sem er til­­­komið vegna ógreiddra líf­eyr­is­skuld­bind­inga ríkisfjölmiðilsins. Í sam­komu­lag­inu fólst að veru­­lega er lengt í greiðslu­­­ferli bréfs­ins, en loka­gjald­dagi þess er nú 1. októ­ber 2057 í stað 1. apríl 2025. Sam­hliða er höf­uð­­­stóll hækk­­­aður og vextir lækk­­­aðir úr fimm pró­­­sentum í 3,5 pró­­­sent. Þetta mun gera það að verkum að greiðsla skuld­­ar­innar mun teygja sig til nýrra kyn­slóða en fjár­­­magns­­gjöld sem RÚV greiðir árlega munu lækka umtals­vert. Þau voru 282,5 millj­­ónir króna árið 2017.

Þegar sam­ráði um frum­varpið er lokið verður það lagt fram á Alþingi og síðan vísað til alls­herj­ar- og mennta­mála­nefndar til með­ferð­ar. Páll Magn­ús­son, þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks og fyrr­ver­andi útvarps­stjóri RÚV, er for­maður þeirrar nefnd­ar. Hann sagði í sam­tali við Frétta­blaðið 4. jan­úar síð­ast­lið­inn að hann geri ráð fyrir því að frum­varpið verði tölu­vert átaka­mál, bæði á milli flokka og innan flokka. „Þótt flestir séu sam­mála um að það verði að huga að þessum málum ef menn ætla ekki að sitja bara uppi með einn rík­is­fjöl­miðil í land­inu, eins og þró­unin hefur ver­ið, þá er ég jafn viss um að tek­ist verði á um aðferð­irnar við að ná því mark­mið­i.“

Bylt­ing og aðgerð­ar­leysi

Það sem Páll á við með því að án aðgerða gæti þjóðin setið uppi með ein­ungis einn fjöl­mið­il, RÚV, er að rekstr­ar­að­stæður einka­rek­inna fjöl­miðla hafa versnað gríð­ar­lega hratt síð­ast­lið­inn ára­tug. Á sama tíma hefur rekstr­ar­staða RÚV hald­ist nokkuð svip­uð, líkt og rakið er í hlið­ar­efn­i. 

Að hluta til er það vegna þess að upp­lýs­inga- og tækni­bylt­ingin hefur gjör­breytt heim­inum og öllum neyt­enda­venj­um. En að hluta til er það vegna þess að stjórn­mála­menn á Íslandi hafa ekki skil­greint fjöl­miðla sem nægi­lega nauð­syn­legan hluta, jafn­vel horn­stein, lýð­ræð­is­ins til að grípa inn í þró­un­ina og tryggja fjöl­breytni fjöl­miðla. 

Raunar hafa þeir ekk­ert gert til að bæta stöðu einka­rek­inna fjöl­miðla þrátt fyrir aug­ljós við­vör­un­ar­ljós sem blikkað hafa stans­laust ár frá ári. Afleið­ingin er sú að flest allir einka­reknir fjöl­miðlar lands­ins hafa verið reknir með tapi á und­an­förnum ára­tug. Sam­hliða hefur átt sér stað atgervis­flótti úr stétt fjöl­miðla­manna vegna kjara og starfs­að­stæðna, hlutur fals­frétta, áróð­urs og rang­færslna í umræð­unni hefur stór­auk­ist og árásir stjórn­mála­manna og ann­ara áhrifa­manna á fjöl­miðla hafa orðið mun tíð­ar­i. 

Eft­ir­bátur Norð­ur­landa

Það rekstr­ar­um­hverfi sem íslenskum einka­reknum fjöl­miðlum er sniðið er í and­stöðu við það sem tíðkast víð­ast hvar í Evr­ópu. Þannig eru beinir rík­is­styrkir til einka­rek­inna fjöl­miðla á öllum Norð­ur­lönd­un­um, í Frakk­landi, Lúx­em­borg, Lett­landi og Ítal­íu. Á hinum Norð­ur­lönd­un­um, sem eru þau sam­fé­lög sem Ísland ber sig mest saman við, má rekja rekstr­ar­stuðn­ing hins opin­bera til einka­rek­inna fjöl­miðla aftur til árs­ins 1990. Í Nor­egi og Sví­þjóð hefur stuðn­ing­ur­inn verið auk­inn umtals­vert und­an­farin miss­eri. Dönsk stjórn­völd kynntu einnig aðgerðir til að bregð­ast við rekstr­ar­stöðu fjöl­miðla í fyrra, sem fólust meðal ann­ars í því að draga saman umfang DR, danska rík­is­sjón­varps­ins.

Lilja D. Alfreðsdóttir er ráðherra fjölmiðlamála.
Mynd: Hringbraut.

Und­ir­liggj­andi er að tryggja að gagn­rýnin umræða, aðhald, fjöl­breyttar skoð­anir og sjón­ar­mið, menn­ing­ar­leg fjöl­breytni, rann­sókn­ar­blaða­mennska séu grund­völlur hvers lýð­ræð­is­rík­is. Til þess að ná því mark­miði þurfa fjöl­miðlar að vera fjöl­breyttir og í eigu ólíkra aðila.

Gagn­rýnendur þess að ríkið styrki einka­rekna fjöl­miðla halda því fram að slíkir styrkir geti grafið undan sjálf­stæði fjöl­miðl­anna. Að þeir muni ekki bíta hend­ina sem fóðrar þá og þar af leið­andi muni þeir ekki sinna aðhalds­hlut­verki sínu nægi­lega vel. 

Íslenskt fjöl­miðlaum­hverfi veikt með algjöru afskipta­leysi

Fjöl­miðlaum­hverfi Íslands er mun óþroskaðra en á hinum Norð­ur­lönd­un­um. Skipta má sögu einka­rek­inna fjöl­miðla sem sinna frétta­vinnslu gróf­lega upp í þrjú tíma­bil: það fyrsta þegar stjórn­mála­flokkar voru alls­ráð­andi í yfir­ráðum yfir fjöl­miðl­um, annað þegar við­skipta­blokkir réðu öllum einka­reknum fjöl­miðlum á árunum 2002-2008 og svo hið þriðja, sem er ára­tug­ur­inn sem er lið­inn frá hrun­i. 

Öll tíma­bilin eiga það sam­eig­in­legt að þorri þeirra fjöl­miðla sem starf­ræktir voru á þeim þurftu ekki að sýna rekstr­ar­lega sjálf­bærni. Til­gang­ur­inn með útgáfu þeirra var annar en að láta þá standa undir sér. Auð­vitað voru und­an­tekn­ingar frá þess­ari stöðu, og var þá sér­stak­lega um að ræða smærri miðla sem lifðu í skemmri tíma eða síð­deg­is­blöð.

Síð­ustu tíu árin eru lík­lega sér­staka tíma­bil­ið. Sjaldan eða aldrei í Íslands­sög­unni hefur þörfin fyrir stönduga fjöl­miðla verið jafn mikið og á þeim árum til að upp­lýsa almenn­ing og setja atburði í sam­hengi fyrir hann. Ástæð­una fyrir því má finna í for­dæma­lausu efna­hags­hruni, alls­herjar­end­ur­skipu­lagn­ingu sam­fé­lags­ins, milli­ríkja­deil­um, dóms­mál­um, ein­stæðum póli­tískum óstöð­ug­leika, hneyksl­is­málum sem hafa ítrekað vakið heims­at­hygli og ein­hverjum mestu sam­fé­lags­breyt­ingum sem þjóðin hefur upp­lif­að, meðal ann­ars vegna fjölg­unar á erlendum rík­is­borg­urum og marg­föld­unar á fjölda ferða­manna sem heim­sækja land­ið. 

Þessi þörf hefur þó ekki orðið til þess að rekstr­ar­um­hverfi frjálsu fjöl­miðl­anna hafi verið styrkt. Þvert á móti hefur það veikst mjög.

Sér­hags­munir greiða fyrir tap­rekstur

Birt­ing­ar­mynd þess er sú að stærstu fjöl­miðla­fyr­ir­tæki lands­ins á einka­mark­aði hafa verið í rekstri sem er ósjálf­bær á und­an­förnum árum. Þ.e. þau hafa verið í eigu aðila sem eru til­búnir að borga gríð­ar­legan tap­rekstur ár eftir ár og því liggur fyrir að ekki hefur verið að reka sam­steyp­urnar á við­skipta­legum for­send­um. 

Árvak­ur, sem gefur út Morg­un­blað­ið, heldur úti stærsta frétta­vef lands­ins, mbl.is, á Eddu útgáfu og útvarps­stöð­ina K100 hefur til að mynda tapað um 1,8 millj­arði króna frá árinu 2009, þegar nýir eig­end­ur, að mestu úr íslenskum sjáv­ar­út­vegi, keyptu fyr­ir­tæki. Sam­hliða hafa þessir eig­endur sett 1,4 millj­arða króna inn í rekst­ur­inn. 

Mikill taprekstur hefur verið á Árvakri, sem gefur meðal annars út Morgunblaðið, á undanförnum árum.
Mynd: Bára Huld Beck

Hinn ris­inn á einka­reknum íslenskum fjöl­miðla­mark­aði var lengst af 365 miðl­ar, sem hefur verið í eigu Ingi­bjargar Pálma­dóttur og stýrt af eig­in­manni hennar Jóni Ásgeiri Jóhann­essyni. 365 miðlar gáfu út Frétta­blað­ið, áttu Stöð 2 og Vís­ir.is og flestallar einka­reknar útvarps­stöðvar lands­ins. 365 miðlar töp­uðu 348 millj­ónum króna á árinu 2017 og hafa í heild tapað hátt í tveimur millj­örðum króna frá árinu 2014. 

Í des­em­ber 2017 seldi fyr­ir­tækið Stöð 2 og tengdar sjón­­­­varps­­­­stöðv­­­­­­­ar, útvarps­­­­­­­rekstur fyr­ir­tæk­is­ins (t.d. Bylgj­an, X-ið og FM957) og Vís­ir.is til fjar­skipta­fyr­ir­tæk­is­ins Fjar­skipta. Frétta­­­­stofa 365 fylgdi með í kaup­un­um, en hún er ein stærsta frétta­­­­stofa lands­ins og sú eina sem heldur úti dag­­­­legum sjón­­­­varps­frétta­­­­tíma utan frétta­­­­stofu RÚV. Eftir inni í 365 miðlum var ein­ungis Frétta­blaðið og tíma­ritið Gla­mo­ur. 

Kaupin hafa ekki reynst happa­drjúg fyrir Fjar­skipti, sem hafa nú breytt nafni sínu í Sýn. Kostn­aður við sam­þætt­ing­una hefur reynst meiri en reiknað var með og Sýn hefur tví­vegis sent frá sér afkomu­við­var­anir þar sem áætl­aður rekstr­ar­hagn­aður vegna árs­ins lækk­aði um sam­tals 550 millj­ónir króna. Ástæða þessa var meðal ann­ars sú að dag­skrár­kostn­aður var hærri en gert hafði verið ráð fyrir en aug­lýs­inga­sala og sala sjón­varps­á­skrifta lægri. Sam­hliða hrap­aði mark­aðsvirði félags­ins, en ekk­ert félag í íslensku kaup­höll­inni lækk­aði meira í verði á árinu 2018 en Sýn. Alls dróst mark­aðsvirði félags­ins saman um 38,3 pró­sent. Í vik­unni voru tveir stjórn­endur Sýnar látnir fara. Annar þeirra var Björn Víglunds­son, sem leitt hefur miðla félags­ins.

Gjör­breyt­ing á einu ári

Önnur birt­ing­ar­mynd er sú að fjöl­miðlar eru sífellt að týna töl­una, eða ganga í gegnum eig­enda­skipti í kjöl­far mik­illa rekstr­ar­erf­ið­leika. Þetta var sér­stak­lega sýni­legt árið 2017. Fyrir utan söl­una á flestum ljós­vaka­miðlum 365 miðla hóf Árvakur sam­starf við Sím­ann, annað fjar­skipta­fyr­ir­tæki, um efn­is­fram­leiðslu. Frétta­tím­inn fór á haus­inn á því ári og Pressu­sam­stæða Björns Inga Hrafns­son­ar, sem hafði farið mik­inn árum saman og safnað að sér allskyns fjöl­miðlum með fjár­magni sem ekki var gerð grein fyrir hvaðan kæmi, gerði það sömu­leiðis síðar á því ári og miðlar í kjöl­farið seldir til ann­ars félags, Frjálsrar fjöl­miðl­unar ehf. Í ljós kom að Pressu­miðl­arnir höfðu ekki skilað háum upp­hæðum í opin­ber gjöld og þar af leið­andi tekið ólög­leg rekstr­ar­lán hjá hinu opin­bera sem hlupu á tugum millj­óna króna hið minnsta. Rekstur miðl­anna er til rann­sóknar hjá hér­aðs­sak­sókn­ara vegna grun­semda um lög­brot. Auk þess eru á dag­skrá rift­un­ar­mál þar sem rök­studdur grunur er um að kröfu­höfum hafi verið mis­mun­að.

Minni fjöl­miðlar sem hafa ekki aðgengi að láns­fjár­magni eða djúpum vösum hafa upp­lifað miklar þreng­ingar á aug­lýs­inga­mark­aði, bæði vegna þess að hann hefur í heild skroppið saman en ekki síður vegna þess að sífellt stærri hlutur hans ratar í aug­lýs­ingar hjá erlendum stór­fyr­ir­tækjum á borð við Face­book, Google og Youtu­be. Þeir miðlar hafa tekið út rekstr­arað­lögun í gegnum rekstr­ar­reikn­ing­inn.

Sjálfsögð krafa að almenningur viti hver ræður fjölmiðli

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut þann 20. september síðastliðinn að það væri útilokað að þeir fjöl­miðlar sem séu til að mynda með opin­ber gjöld í van­skilum muni geta fengið end­ur­greiðslur frá rík­inu vegna rekstrar síns. Hún sagði líka að verið sé að horfa á gagn­sæi í eign­ar­haldi í þeim efn­um.

Í þætt­inum var hún spurð út í það hvort það muni fylgja því ein­hverjar kvaðir að fá umræddar end­ur­greiðsl­ur. Til dæmis um skýrt og gegn­sætt eign­ar­hald, bæði beint og óbeint vegna fjár­mögn­unar fjöl­miðla, liggi fyr­ir, að öll opin­ber gjöld séu í skil­um, að fyrir liggi ein­hver rekstr­ar­saga og lág­marks­fjöldi stöðu­gilda svo að hver sem er geti ekki stofnað miðil og byrjað að þiggja end­ur­greiðsl­ur.

Lilja sagði skýrt að svo yrði og nefndi sér­stak­lega þá sem skulda opin­ber gjöld. „Það er alveg úti­lokað í mínum huga að menn séu í þannig aðstöðu geti svo óskað eftir beinum fjár­hags­legum stuðn­ingi hjá hinu opin­bera. Eitt sem við erum að horfa á er að við­kom­andi séu í skilum með öll opin­ber gjöld. Við erum líka að horfa á gagn­sæi varð­andi eign­ar­hald sem mér finnst skipta mjög miklu máli hjá fjöl­miðl­u­m.“

Lilja gekk síðan lengra hvað varðar eignarhald á fjölmiðlum í svari við fyrirspurn Smára McCarthy, þingmanns Pírata, sem birtist á vef Alþingis fyrr í þessum mánuði. Þar sagði Lilja að ef kröfuhafar geti haft áhrif á ritstjórn fjölmiðils og efnistök þá mætti telja það sjálfsagða kröfu almennings, sem noti efni fjölmiðilsins, að fá upplýsingar þar af lútandi.

Fjölmiðlanefnd, sem sinnir eftirliti með starfsemi fjölmiðla á landinu, hefur nokkrum sinnum kallað eftir hluthafasamkomulögum og lánasamningum sem hún taldi að gæti haft áhrif á yfirráð fjölmiðils. Viðkomandi fjölmiðlar hafa aldrei afhent slík til nefndarinnar og hún telur sig ekki hafa valdheimildir til að gera annað en að biða um gögnin.

Því ráða fjölmiðlafyrirtæki, sem hafa fengið háar upphæðir að láni frá huldumönnum, hvort þeir upplýsi um hverjir þeir huldumenn eru. Nærtækasta dæmið um þetta úr íslenskum fjölmiðlaveruleika eru lán til Frjálsrar fjölmiðlunar, sem rekur m.a. DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt og 433.is. Eini skráði eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar er eignarhaldsfélags lögmannsins Sigurðar G. Guðjónssonar, Dalsdalur ehf. Það félag fékk 425 milljónir króna lánaðar vaxtalaust til að kaupa ofangreinda fjölmiðla. Þá var hlutafé Frjálsrar fjölmiðlunar aukið tvívegis á síðasta ári, alls um 120 milljónir króna. Sigurður hefur ætið neitað að gefa upp hver lánveitandinn er.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar