Nefnd á vegum forsætisráðuneytisins hefur nú skilað af sér skýrslu um tillögur að umbótum á úrvinnslu og nýtingu tölfræðiupplýsinga hér á landi. Nefndin leggur meðal annars til að stofnuð verði sérstök Kjaratölfræðinefnd, sem væri samráðsvettvangur milli aðila í aðdraganda kjarasamninga. Auk þess leggur nefndin áherslu á að Hagstofan ljúki við að uppfæra íslenska starfaflokkunarkerfið, ÍSTARF95.
„Skýrslan og þær umbætur sem þar eru lagðar til er að mínu mati mikilvægt framlag til þeirrar víðtæku vinnu sem nú á sér stað á vettvangi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Bætt launatölfræði er meðal atriða sem ég hef lagt ríka áherslu á að verði bætt til frambúðar og ég fagna sérstaklega tillögu nefndarinnar um stofnun Kjaratölfræðinefndar, sem er vettvangur aðila í aðdraganda kjarasamninga líkt og tíðkast m.a. í Noregi,” sagði Katrín en ríkisstjórnin fjallaði um skýrsluna á fundi sínum í morgun.
Aðilar vinnumarkaðrins takist á um efnisatriði frekar en tölfræðilegar aðferðir og niðurstöður
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra skipaði nefndina í kjölfar fundar stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launatölfræði í janúar í fyrra. Nefndin var skipuð fulltrúum frá forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, velferðarráðuneyti, heildarsamtökum á vinnumarkaði, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ríkissáttasemjara og Hagstofu Íslands.
Nefndin skoðaði sérstaklega hvort að taka ætti upp launatölfræðinefnd að erlendri fyrirmynd. Í Noregi er slík nefnd sem starfað hefur með góðum árangri í rúmlega 50 ár. Norska nefndin kallast TBU en hún er skipuð er fulltrúum heildarsamtaka á vinnumarkaði, stjórnvalda og Hagstofunnar. Hlutverk TBU að greina þróun launa og efnahagsmála til undirbúnings kjarasamningum og birtir töluleg gögn sem leggja grunn að samningaviðræðum og tryggja þannig samræmdan skilning á þeim hagtölum sem liggja til grundvallar.
Í skýrslunni segir að sambærileg samráðsnefnd milli aðila hér á landi myndi skapa vettvang fyrir samræður um forsendur í aðdraganda kjarasamninga, jafnt launatölfræði sem aðrar hagtölur og auka traust milli aðila óháð því hvaða samningslíkan eða fyrirkomulag lagt væri til grundvallar kjarasamningum á hverjum tíma. „Hlutverk nefndarinnar er að tryggja sameiginlega sýn aðila á stöðu og þróun launa og efnahagsmála og ýta undir það að aðilar vinnumarkaðarins takist á um efnisatriði frekar en tölfræðilegar aðferðir eða niðurstöður,“ segir í skýrslunni.
Kjaratölfræðinefndin tekur ekki beinan þátt í kjarasamningum
Í skýrslunni má nú þegar finna drög að samkomulagi um stofnun Kjaratölfræðinefndar; „Aðilar að samkomulagi þessu eru sammála um að stofna til samstarfs heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um launa og efnahag til undirbúnings og eftirfylgni með kjarasamningum. Nefndinni er ætlað að stuðla að því að aðilar samkomulagsins hafi sameiginlegan skilning á eðli, eiginleikum og þróun þeirra hagtalna sem mestu varða við gerð kjarasamninga.“
Í drögunum segir að með hliðsjón að framansögðu lýsi forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, BSRB, Kennarasamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, Hagstofa Íslands og Ríkissáttasemjari hér með yfir stofnun Kjaratölfræðinefndar.
Í drögunum segir að markmið nefndarinnar sé að fyrir liggi áreiðanlegar upplýsingar um laun og efnahag sem nýtast við undirbúning og eftirfylgni kjarasamninga á hverjum tíma. Kjaratölfræðinefndin tekur þó engan beinan þátt í kjarasamningum. Nefndin á að gefa út tvær skýrslur árlega, fyrir lok mars og lok september og skal fyrsta skýrslan birt fyrir lok mars árið 2020.
Vilja að Hagstofan skoði hvernig launavísitalan endurspegli hækkandi starfsaldur og aukna menntun
Hagstofa Íslands gefur út mánaðarlega út launavísitölu á grundvelli laga. Í skýrslu nefndarinnar segir hins vegar að á undanförnum misserum hefur aðferðafræði við gerð launavísitölunnar verið gagnrýnd á opinberum vettvangi og snýr gagnrýnin einkum að aðferðafræði við vinnslu verðvísitalna, sem byggir á svokölluðum pöruðum samanburði. Í gagnrýninni kemur fram, að talið er að sú aðferð ofmeti launabreytingar, meðal annars vegna starfsaldursbreytinga.
Nefndin fékk Dr. Kim Zieschang., sérfræðing í verðvísitölum til að gera úttekt á launavísitölunni. Niðurstöður hans voru að launavísitala Hagstofunnar sé traust afurð sem byggð sé á aðferðafræðilega sterkum grunni en að rétt sé að skoða ítarlega hvort að vænta megi áhrifa af auknum gæðum vinnuafls yfir tíma. Nefndin leggur því til að Hagstofa Íslands skoði hvernig launavísitalan endurspegli hækkandi starfsaldur og aukna menntun. Jafnframt er lagt til að niðurstöður greiningarinnar verði birtar opinberlega og brugðist við ef þær leiði í ljós að bjögun sé á launavísitölunni.
Mikilvægt að uppfæra íslenska starfaflokkunarkerfið
Launarannsókn Hagstofunnar er helsta heimild opinberrar launatölfræði en einnig eru notaðar aðrar heimildir eins og staðgreiðslugögn. Rannsóknin nær til allra ríkisstarfsmanna en tekið er úrtak úr fyrirtækjum á almenna vinnumarkaðnum, með 10 eða fleiri starfsmenn, sem og hjá sveitarfélögum. Í skýrslu nefndarinnar segir aftur á móti að þekju launarannsóknar sé ábótavant meðal annars vegna þess að rannsóknin nær ekki til allra atvinnugreina og takmarkar það upplýsingagjöf. Aðilar vinnumarkaðarins leggja ríka áherslu á að þekja rannsóknarinnar sé aukin þannig að hún nái til alls vinnumarkaðarins og eru tvær leiðir mögulegar til að auka þekjuna. Annars vegar er hægt að bæta núverandi launarannsókn og stækka úrtakið og hins vegar að fara í heildarsöfnun launaupplýsinga líkt og gert er í Noregi.
Í skýrslunni segir að starfshópur innan fjármálaráðuneytisins skoði nú kosti þess að koma á miðlunarkerfi fyrir greiðslu launa og launatengdra gjalda og skilagreinum sem tengjast launaupplýsingum. „Verulegt hagræði felst í því að gera launagreiðendum kleift að ganga frá greiðslum og upplýsingagjöf miðlægt á einum stað í stað þess að skila til nokkurra aðila eins og nú er gert.“ segir í skýrslunni. Því telur nefndin að koma eigi á heildarsöfnum launaupplýsinga beint frá launagreiðendum. Nefndin leggur þó áherslu á að einnig er mikilvægt að efla núverandi launarannsókn samhliða heildargagnasöfnun til að áhætta við breytta gagnaöflun verði viðunandi og unnt verði að brúa bilið milli ólíkra gagna og tímaraðar.
Enn fremur segir í skýrslunni að á undanförnum árum hafi Hagstofan unnið að mati á vinnutíma til að geta betur áætlað vinnumagn að baki framleiðsluþáttum í þjóðhagsreikningum og vinnutíma vegna launakostnaðar og mun áfram vinna að úrbótum í vinnutímamælingum. Nefndin telur það því mikilvægt að tekið sé upp nýtt starfaflokkunarkerfi en kerfið sem nú er notað, ÍSTARF-95, var fyrst gefið út 1994 og svo aftur aukið og endurbætt árið 2009. Hagstofan er nú þegar að vinna að upptöku á nýju starfaflokkunarkerfi og í skýrslunni segir að nefndin sé sammála um að mikilvægt sé að uppfæra íslenska starfaflokkunarkerfið svo það taki betur mið af þeim störfum sem hafa breyst og orðið til á síðustu áratugum og leggur áherslu á að Hagstofan ljúki því verkefni.