Alþýðusamband Íslands segir það rangt hjá Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnhagsráðherra, að tillögur sambandsins í skattamálum muni leiða til hækkunar á skattbyrði meðaltekjufólks. Sambandið sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi en þar segir að tillögur sambandsins geri þvert á móti ráð fyrir að skattbyrði 95 prósent vinnandi fólks lækki eða haldist óbreytt en tekjuhæstu 5 prósent munu hins vegar greiða hærri skatta en nú enda sé skattbyrði þeirra tekjuhæstu sú lægsta á Norðurlöndunum.
Þetta köllum við að nýta tekjuskattkerfið sem raunverulegt jöfnunartæki
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna Benediktsson um aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum á Alþingi í vikunni. Morgunblaðið greindi frá því að Logi hafi meðal annars bent Bjarna á að Samfylkingin hefði talað fyrir hugmyndum ASÍ um fjölþrepa skattkerfi sem fjármálaráðherra hefði ekki tekið vel í. Bjarni svaraði því og sagði að tillögur ASÍ myndu auka jaðarskatta.
„Það sem mér finnst vera ákveðin hugsanavilla hjá mörgum í tengslum við uppbyggingu skattkerfisins í heild er að fara annars vegar fram á mjög hátt frítekjumark en síðan lága skatta fyrir þá sem koma fyrst inn í skattkerfið í tekjuskattinum. Menn verða að velja dálítið á milli þessara tveggja kosta. Ég hefði frekar verið talsmaður þess að vera með lægri frítekjumörk og byrja með lægri prósentur en þessi framstilling á málinu gerir það í raun og veru að verkum að við þurfum að hækka skattprósentuna of mikið á millitekjufólkið,“ sagði Bjarni.
Alþýðusambandið segir í tilkynningu sinni að þessi ummæli Bjarna bendi til þess að hann hafi ekki kynnt sér tillögurnar nægilega vel. „Fjármálaráðherra hefur haldið því fram með gagnrýni sinni á tillögur ASÍ um breytingar á skattkerfinu að þær muni leiða til þess að skattbyrði hækki á meðaltekjur og jaðarskattar aukist. Þessi ummæli ráðherrans benda til þess að hann hafi ekki kynnt sér tillögurnar nægilega vel og því full ástæða til þess að leiðrétta þennan misskilning.“
Alþýðusambandið segir að með tillögum þeirra, um breytingar á skattkerfinu, sé verið að reyna auka mest ráðstöfunartekjur þeirra sem hafi laun undir 500.000 krónum á mánuði, skattbyrði í efri millitekjum verður óbreytt en eykst hjá þeim allra tekjuhæstu. „Þetta köllum við að nýta tekjuskattskerfið sem raunverulegt jöfnunartæki. Áhyggjur fjármálaráðherrans af auknum jaðarsköttum eru einnig óþarfar því tillögurnar gera beinlínis ráð fyrir því að jaðarskattar hinna tekjulægri lækki.“ segir að lokum í tilkynningunni.
Vilja bæta stöðu hinna tekjulægri
Alþýðusambandið hefur á undanförnum árum ítrekað gagnrýnt þróun skatt- og tilfærslukerfanna og lagði sambandið nýlega fram róttækar tillögur um breytingar á skattkerfi Íslendinga. Þar er meðal annars lagt til að tekið verði upp þrepaskipt skattkerfi með fjórum skattþrepum, að fjórða þrepið verði hátekjuþrep, að skattleysismörk verði hækkuð og látin fylgja launaþróun og að breytingin á skattkerfinu auki ráðstöfunartekjur mest hjá þeim sem séu með laun undir 500 þúsund krónur. Þá fela tillögurnar í sér að endurreisa þurfi húsnæðisstuðningskerfin og að koma þurfi í veg fyrir að sveiflur á markaði hafi áhrif á húsnæðisstuðning, og þar með afkomu launafólks.
Í tilkynningu frá sambandinu segir að ástæðan sé einföld, þær breytingar sem gerðar hafi verið hafa ekki miðað að því að bæta stöðu hinna tekjulægri. Alþýðusambandið vísar þar í skýrslu Hagdeildar sem gefin var út haustið 2017 þar sem skattbyrði launafólks rakin frá árinu 1998. Niðurstaða skýrslunnar var aukin skattbyrði launafólks á síðustu áratugum og hefur þróunin komið verst niður á tekjulægri hópum sökum þróunar skattkerfis og veikingar tilfærslukerfanna. Tillögur ASÍ í skattamálum er því miðuð að því að leiðrétta þessa þróun með „einföldum aðgerðum“, samkvæmt tilkynningunni.