Yngve Slyngdstad, sjóðsstjóri norska olíusjóðsins, segir að það sé áherslumál hjá sjóðnum að minnka gjaldeyrisáhættu sjóðsins, og einangra hana að mestu við Bandaríkjadal, evru og breskt pund. Um 90 prósent af gjaldeyrisforða heimsins er í Bandaríkjadal og evru, þannig að stærsta gjaldeyrisáhættan hjá norska olíusjóðnum, stærsta fjárfestingasjóði í heimi, liggur alltaf í þessum tveimur myntum.
Í bréfi sem Slyngstad skrifaði til fjármálaráðherra Noregs, og gert að umtalsefni í ítarlegu viðtali við Slyngstad í Bloomberg Markets, segir hann að sjóðurinn hafi áhættu í sínu eignasafni í 23 gjaldmiðlum, en að það sé stefna sjóðsins að minnka hana.
Slyngstad, sem er heimspekingur að mennt, með framhaldsnám í stjórnmála- og lögfræði, segir sjóðinn vera nú með um 70 prósent af eignum í hlutabréfum, en 30 prósent í öðrum eignum, mest ríkisskuldabréfum.
Sjóðurinn á um 1,3 prósent af öllum skráðum skuldabréfum í heiminum, og nema heildareignir hans nú meira en þúsund milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 120 þúsund milljörðum króna. Það er upphæð sem nemur um 23 milljónum á hvern Norðmann.
Slyngstad segir að það sé einlæg trú hans, og stefna sjóðsins, að hið mikla tekjustreymi sem kemur úr Norðursjóð, úr olíuauðlindum Noregs, verði áfram til staðar fyrir komandi kynslóðir. Það hafi í reynd alltaf verið þarna, en verkefnið sé að vernda það og komandi kynslóðir Noregs.
Hann nefnir sem dæmi, að vegna sjóðsins, hafi enginn efast um það á fjármálamörkuðum, að Noregur gæti stutt fjármálakerfi landsins, þegar alþjóðamarkaðir gengum í gegnum storminn mikla, 2008 og 2009.