Íslensk stjórnvöld hafa lýst yfir stuðningi við Juan Guadió, andstæðing Maduro forseta í Venesúela, og hvatt til þess að kosningar fari fram hið fyrsta. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, lýsti því yfir stuðningi við Guadió á Twitter í gær.
Kunnuglegar fylkingar eru að teiknast upp í alþjóðasamfélaginu.
Ástandið í Venesúela er skelfilegt og til marks um það spáir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, að landsframleiðsla muni halda áfram að dragast hratt saman í ár en samdrátturinn er um 50 prósent frá árinu 2013. Hinn 5. mars það ár lést Hugo Chavez og tók Maduro, náinn bandamaður hans og utanríkisráðherra frá árinu 2006, við stjórnartaumunum.
Upplausn
Efnahagur landsins er í rúst um þessar mundir. Óðaverðbólga, fjöldagjaldþrota lítilla fyrirtækja, heilbrigðiskerfi óskilvirkt og skólastarf víða í molum. Upplausn er kannski það orð sem lýsir ástandinu best.
Það á ekki síst við hið pólitíska svið, þar sem Mudor og Juan Guadió, helsti andstæðingur hans, takast á um völdin, og óhætt er að segja að alþjóðasamfélagið sé farið að blanda sér með beinum hætti í stöðu mála.
Reuters greindi frá því seinni partinn í dag, að portúgalski bankinn Novo Banco hefði komið í veg fyrir að 1,2 milljarðar Bandaríkjadala, eða um 150 milljarðar króna, hefðu verið færðir frá bankanum inn á reikninga í Úrugvæ, að skipan Maduro og stjórnar hans.
Iceland supports @jguaido as the Interim President of Venezuela. Free and fair elections should now be called and the will of the people respected.
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) February 4, 2019
Guadió hefur fengið vaxandi stuðning til að verða leiðtogi landsins sem forseti frá Evrópuríkjum að undanförnu. Íslensk stjórnvöld bættust í hóp margra ríkja í gær, með yfirlýsingu. „Íslensk stjórnvöld lýsa áhyggjum af stöðu þingsins í Venesúela og stöðu mannréttinda. Með yfirlýsingunni er verið að ítreka mikilvægi þess að lýðræðislegar kosningar fari fram sem fyrst og lýsa yfir stuðningi við að forseti réttkjörins þjóðþings verði forseti landsins til bráðabirgða. Ísland gengur með þessu skemur en mörg ríki sem formlega viðurkenna Juan Guaidó sem forseta, eins og til dæmis Danmörk. Í yfirlýsingunni felst enginn stuðningur við hótanir annarra ríkja um hernaðaríhlutun í Venesúela eða önnur slík inngrip,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í viðtali við Kjarnann í dag.
Bandaríkin beita þrýstingi
Bandaríkin hafa beitt sér verulega í málefnum Venesúela, meðal annars með efnahagsþvingunum. Ein verðmætasta eign Venesúela utan landsins er fyrirtækið Citgo, sem er dótturfyrirtæki ríkisolíufélagsins PDVSA.
Citgo einblínir á olíuflutninga, olíuhreinsun og aðrar stoðþjónustu við olíuiðnað og er með höfuðstöðvar í Texas. Bandarísk stjórnvöld hafa hótað því að gera eignir félagsins upptækar og hefta færslur á fjármagni frá félaginu til Venesúela ef Maduro fer ekki frá sem forseti, og Guadió tekur við völdum.
Maduro hefur brugðist æfur við afskiptum Bandaríkjanna og segir þau vera að ræna almenning í Venesúela og reyna að komast yfir olíulindir landsins, sem eru þær mestu í heiminum, sem hafa verið staðfestar með rannsóknum.
Hann kallaði eftir því í dag, að ef Bandaríkin vildu hjálpa til við að leysa úr efnahagsvanda Venesúela, þá ættu þau að aflétta viðskiptaþvingunum áður en lengra yrði haldið, af því er fram kom í umfjöllun Bloomberg.
Kína, Rússland og Norður-Kórea í stuðningsliðinu
Maduro hefur opinberar stuðning nokkurra ríkja í heiminum. Þar á meðal eru Kína, Rússland, Tyrkland, Sýrland, Norður-Kórea og nágrannaríkið Bólivía, svo dæmi séu nefnd. Segja má að þarna sé að teiknast upp kunnuglegar línur í alþjóðstjórnmálunum.
Mörg ríki hafa bæst í hóp þeirra sem styðja það að Guadió verði forseti landsins til bráðabirgða, og að kosningar fari fram hið fyrsta, samkvæmt umfjöllun NPR. Þar á meðal eru Spánn, Frakkland, Þýskaland, Bretland, Lettland, Litháen, Tékkland, Holland, Portúgal, Svíþjóð og Finnland, svo nefnd séu nokkur dæmi. Flest nágrannaríki Venesúela styðja ekki Maduro, og eru þar stærstu ríki Suður-Ameríku, Brasilía og Argentína, bæði á sama báti.
Utanríkisráðherra Bretlands, Jeremy Hunt, sagði í færstu á Twitter að Maduro hefði ekki boðað til kosninga innan þess átta daga frests sem gefinn var, og því sé ekki lengu hægt að líta á hann sem leiðtoga Venesúela.
Nicolas Maduro has not called Presidential elections within 8 day limit we have set. So UK alongside European allies now recognises @jguaido as interim constitutional president until credible elections can be held. Let’s hope this takes us closer to ending humanitarian crisis
— Jeremy Hunt (@Jeremy_Hunt) February 4, 2019
Í Venesúela búa tæplega 32 milljónir manna, en talið er að yfir 2,5 milljónir manna hafi flúið heimili sín á undanförnum árum, og hefur flótti frá landinu aukist jafnt og þétt undanfarin misseri. Sérstaklega er staðan alvarleg í úthverfum höfuðborgarinnar Caracas, sem er með tvær milljónir íbúa, en séu nágrannabyggðir teknar með í reikninginn, eru íbúar yfir 6 milljónir. Á þessu svæði er upplausnarástand víða, vöruskortur og innviðir að grotna niður.