Sex sóttu um að verða næsti forstjóri Barnaverndarstofu en umsóknarfrestur rann út í síðustu viku. Á meðal þeirra sem sóttu um er Heiða Björg Pálmadóttir, sem hefur gegnt starfi forstjóra Barnaverndarstofu tímabundið eftir að Bragi Guðbrandsson fór í leyfi. Aðrir umsækjendur eru Birna Guðmundsdóttir, Guðlaug María Júlíusdóttir, Katrín Jónsdóttir, Róbert Ragnarsson og Svala Ísfeld Ólafsdóttir. Frá þessu er greint á vef stjórnarráðsins.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, skipar forstjóra Barnaverndarstofu til fimm ára í senn að undangengnu mati sérstakrar hæfnisnefndar sem ráðherra setur á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Bragi Guðbrandsson, sem hafði gegnt starfinu árum saman, lét af starfi forstjóra í febrúar í fyrra eftir að hafa tekið sæti í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna fyrir Íslands hönd og tekið að sér sérverkefni á vegum velferðarráðuneytisins.
Félags- og barnamálaráðuneytið vinnur að heildarendurskoðun á barnaverndarlöggjöf og framkvæmd þjónustunnar við börn og samkvæmt tilkynningunni geta breytingar orðið í kjölfarið sem hafa áhrif á starfsemi Barnaverndarstofu.
Í lok febrúar á síðasta ári tilkynnti ráðuneytið að eftirlit með öllu barnaverndarstarfi í landinu yrði endurskoðað og ráðist yrði í heildarendurskoðun barnaverndarlaga. Þá verði settar skýrar formkröfur um samskiptahætti stjórnvalda sem gegna hlutverki á sviði barnaverndar.
Í tilkynningunni um frumvarpið kom fram að fyrirhugaðar breytingar á sviði barnaverndar séu að hluta til liður í viðbrögðum ráðuneytisins til að endurheimta traust í kjölfar kvartana frá formenn barnaverndarnefndanna vegna samskipta við Barnaverndarstofu og forstjóra hennar en þeim sé einnig ætlað að bæta stjórnsýslu málaflokksins og stuðla að þróun nýrra úrræða í barnavernd.
Hlutverk Barnaverndarstofu er að vinna að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs í landinu og er félagsmálaráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í málaflokknum, samkvæmt vef félagsmálaráðuneytisins. Jafnframt fer Barnaverndarstofa með leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd barnaverndarlaga og fræðslu og ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir í landinu. Enn fremur hefur Barnaverndarstofa eftirlit með störfum barnaverndarnefnda.
Barnaverndarstofa annast meðal annars leyfisveitingar til fósturforeldra, tekur ákvarðanir og veitir barnaverndarnefndum liðsinni í fósturmálum, fer með yfirstjórn heimila og stofnana sem ríkinu ber að sjá til að séu tiltæk og hlutast til um að slík heimili og stofnanir verði sett á fót. Stofan hefur yfirumsjón með vistun barna á þessum heimilum og stofnunum.