Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, mun auglýsa stöðu forstjóra Samgöngustofu lausa til umsóknar á næstunni. Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, staðfesti það í svari við fyrirspurn Kjarnans. Þórólfur hefur gegnt starfinu síðan í byrjun ágúst árið 2014 en samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna skulu þeir skipaðir tímabundið til fimm ára í senn og því fer skipunartíma Þórólfs senn að ljúka.
Opinberir starfsmenn skipaðir í fimm ár í senn
Æviráðningar í stjórnsýslunni voru afnumdar með nýjum lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem tók gildi um mitt ár 1996. Í 23. grein laganna segir að embættismenn séu skipaðir í fimm ár í senn. Tilkynna þarf þeim sem situr í viðkomandi embætti um að til standi að auglýsa það laust til umsóknar sex mánuðum áður en að skipanatími rennur út. Ef ráðherra tilkynnir ekki embættismanni um að staðan verði auglýst innan ofangreinds tímafrests þá framlengist skipanatími þeirra sjálfkrafa í önnur fimm ár, nema þeir óski eftir að láta af störfum.
Samgöngustofa heyrir undir samgöngu - og sveitastjórnarráðuneytið og samkvæmt Þórólfi, forstjóra Samgöngu, hefur Sigurður Ingi upplýst hann um að ákveðið hafi verið að auglýsa stöðuna lausa til umsóknar. Sitjandi forstjóri þarf því að sækja um stöðuna vilji hann gegna starfinu áfram. Samgöngustofa fer með stjórnsýslu samgöngumála hér á landi og annast eftirlit er varðar flug, siglingar, umferð og öryggiseftirlit með samgönguvirkjum.
Túristi greindi frá því í dag að ekki fengust svör frá Ingveldi Sæmundsdóttur, aðstoðarkonu Sigurður Inga Jóhannssonar, samgönguráðherra, hvort staðan verði auglýst eða hvort Þórólfur verði sjálfkrafa skipaður forstjóri á ný til ársins 2024.