Skattrannsóknarstjóri hefur hætt rannsókn á bókhaldi og skattskilum Björns Inga Hrafnssonar, ritstjóra Viljans og fyrrverandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins. Hann var til rannsóknar grunaður um skattaundanskot.
Frá þessu greinir Björn Ingi í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni í dag en hann fékk bréf þess efnis í gær.
Bréfið er dagsett 30. janúar 2019 en í því kemur fram að skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi á árinu 2018 hafið rannsókn á bókhaldi og skattskilum Björns Inga vegna tekjuáranna 2014 til og með 2017. „Sú rannsókn þykir, að svo komnu máli, ekki gefa tilefni til frekari aðgerða af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins,“ segir í bréfinu. Enn fremur kemur fram að meðferð málsins sé þar með lokið hjá embættinu.
Björn Ingi segir í stöðuuppfærslunni að fyrir fjögurra barna fjölskylduföður sé ekki einfalt mál að sæta kæru og hafa réttarstöðu sakbornings frammi fyrir alþjóð. Hvað þá að sæta kyrrsetningu allra sinna eigna og geta sig hvergi hrært.
Hann segist ætla að skoða næstu skref með lögmanni sínum. Undanfarin misseri hafi ekki verið auðveld fyrir sig og tjónið sé mikið.
Fyrir fjögurra barna fjölskylduföður er ekki einfalt mál að sæta kæru og hafa réttarstöðu sakbornings frammi fyrir...
Posted by Björn Ingi Hrafnsson on Wednesday, February 6, 2019