Þingmenn Miðflokksins vilja banna upptökur í dómhúsum

Þingmenn Miðflokksins hyggjast leggja fram frumvarp en ef það verður samþykkt þá verður óheimilt að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi eða í dómhúsum.

Héraðsdómur Reykjavíkur - Salur 201
Héraðsdómur Reykjavíkur - Salur 201
Auglýsing

Þing­menn Mið­flokks­ins hyggj­ast leggja fram frum­varp til laga um breyt­ingu á lögum um með­ferð saka­mála varð­andi bann við mynda­tökum og hljóð­upp­tökum í dóm­hús­um. Málið er á dag­skrá þing­fundar Alþingis í dag. 

Ef frum­varpið verður sam­þykkt þá verður óheim­ilt að hljóð­rita eða taka myndir í þing­haldi eða í dóm­hús­um. Dóm­ari gæti veitt und­an­þágu frá þessu banni ef sér­stak­lega stæði á, enda væri þess gætt að mynda­tökum og hljóð­upp­tökum yrði ekki beint að aðilum dóms­máls án sam­þykkis þeirra. „Ef tekið hefur verið upp hljóð eða teknar myndir í þing­haldi án leyfis dóm­ara er óheim­ilt að birta þær hljóð­upp­tökur eða mynd­ir. Einnig eru óheim­ilar mynda­tökur og hljóð­upp­tökur af sak­born­ing­um, brota­þolum eða vitnum á leið í dóm­hús eða frá því án sam­þykkis þeirra,“ segir í frum­varp­inu.

Fyrsti flutn­ings­maður er Þor­steinn Sæmunds­son en með honum eru Anna Kol­brún Árna­dótt­ir, Birgir Þór­ar­ins­son, Gunnar Bragi Sveins­son, Berg­þór Óla­son, Þor­grímur Sig­munds­son og Sig­urður Páll Jóns­son. Öll eru þau þing­menn eða vara­þing­menn Mið­flokks­ins.

Auglýsing

Ákvæði að noskri og danskri fyr­ir­mynd

Í grein­ar­gerð með frum­varp­inu segir að í því sé gert ráð fyrir að víkka gild­is­svið laga um með­ferð saka­mála um bann við mynda­tökum og hljóð­ritun af aðilum að saka­mál­um, sem eru á leið í dóm­hús eða frá því, án sam­þykkis þeirra. Sé slíkt ákvæði að norskri og danskri fyr­ir­mynd. Ákvæð­inu sé ekki ætlað að ná til mynda­töku og hljóð­rit­unar sem fram fer á vegum dóm­stóls­ins sjálfs, og séu þar hafðar í huga þær upp­tökur sem séu eðli­legar við rekstur dóm­stóls­ins, svo sem hljóð­ritun á fram­burði vitna og hefð­bundin notkun örygg­is­mynda­véla. Þá sé gert ráð fyrir því að dóm­ari geti heim­ilað mynda­töku og hljóð­ritun með sér­stöku leyfi og sé þar átt við upp­tökur sem ekki snerta aðila dóms­máls, sem eru í dóm­hús­inu vegna máls­ins. Megi hugsa sér í þessu sam­hengi mynda­töku vegna almennrar fréttar um dóm­stól­inn eða við­tals við dóm­ara.

Í grein­ar­gerð­inni kemur fram jafn­framt fram að í dönskum rétt­ar­fars­lögum sé meg­in­reglan sú að hljóð­ritun eða mynda­tökur séu bann­að­ar. Enn fremur séu mynda­tökur í dóm­húsum bann­að­ar, nema með sér­stöku leyfi. Sama gildi um mynda­tökur af grun­uðum mönn­um, sak­born­ingum eða vitnum í saka­máli sem eru á leið til eða frá þing­haldi.

Ákvæðum í norskum dóm­stóla­lögum svipi nokkuð til dönsku regln­anna. Mynda­tökur og hljóð­rit­anir í þing­haldi í saka­málum séu bann­aðar og einnig sé bannað að hljóð­rita eða taka myndir af sak­born­ingi á leið til eða frá þing­haldi eða í dóm­húsi því þar sem þing­hald fer fram. Heim­ilt sé að víkja frá þessu ef veiga­mikil rök mæla með því.

Aðstæður trufla máls­að­ila

„Mjög hefur færst í vöxt að reynt sé að ná myndum af aðilum og vitnum í dóms­máli þegar þeir sinna erindum sínum í dóm­hús­um. Einkum á þetta við í opin­berum mál­um. Und­an­farin ár hefur jafn­vel verið tíðkað að beina mynda­vélum inn í dóm­sali þegar dyr eru opn­aðar meðan á þing­haldi stend­ur, svo sem þegar nýtt vitni gengur í sal­inn. Leiðir það til þess að hinn ákærði og vitni þurfa jafnan að hafa vara á sér að þessu leyti meðan á þing­hald­inu stendur í stað þess að ein­beita sér að málsvörn sinni eða vitna­leiðslu.

Þykja þessar aðstæður vera til þess fallnar að trufla máls­að­ila, enda hafa þær slæm áhrif á bæði sak­born­inga og vitni. Dæmi eru um að vitni hafi viljað koma sér undan því að bera vitni vegna þessa. Einnig er ljóst að tækn­inni hefur fleygt fram hvað varðar far­síma, spjald­tölvur og mynda­vélar þannig að unnt er t.d. að taka myndir af skjölum í dóm­sal eða skjölum í fórum sak­born­inga eða vitna í dóm­húsi. Slíkar mynda­tökur geta haft óeðli­leg áhrif á gang mála,“ segir í grein­ar­gerð­inni.

Enn fremur kemur fram að meg­in­reglan sé sú að þing­höld skuli háð í heyranda hljóði. Sú regla sé ekki skert með því að banna mynda­tökur af aðilum máls inni í dóm­húsi eða nálægt því eins og tíðkast í Dan­mörku og Nor­egi. Sú tak­mörkun sem gert er ráð fyrir í frum­varp­inu gangi ekki of nærri meg­in­regl­unni um opin þing­höld að mati flutn­ings­manna.

Börn eiga alltaf rétt á stuðningi og heildstæðu mati
Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Vinstri grænna hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingar á útlendingalögum.
Kjarninn 18. febrúar 2019
Orð Ragnars Þórs „ómakleg árás“ á leigufélag sem rutt hefur brautina
Almenna leigufélagið hafnar því alfarið að félagið hafi hagað sér með óábyrgum hætti á markaði.
Kjarninn 18. febrúar 2019
Ragnar gefur Kviku frest til að „rifta“ kaupunum
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir stjórn félagsins standa þétt saman og hún sætti sig ekki við það hvernig Almenna leigufélagið starfar.
Kjarninn 18. febrúar 2019
Guðlaugur ræddi við Guaidó og lýsti yfir formlegum stuðningi ríkisstjórnarinnar
Utanríkisráðherra hefur ákveðið að auka við fjárstuðning við flóttamenn frá Venesúela.
Kjarninn 18. febrúar 2019
Ármann: Höfum ekkert með stjórn GAMMA að gera
Kvika er ekki orðinn eigandi Gamma. Forstjóri Kviku segir að misskilningur birtist í opnu bréfi VR.
Kjarninn 18. febrúar 2019
Ólafur Kristófersson
Er árið 2007 komið á ný?
Kjarninn 18. febrúar 2019
Segja hækkun á leigu vera grimmd, taumlausa græðgi og mannvonsku
VR gefur Kviku banka 4 daga frest til þess að láta Almenna leigufélagið hætta því sem VR kallar grimmdarverk. VR mun taka allt sitt fé úr eignastýringu hjá þeim ef leiga félagsins hækkar umfram verðlag og ef leigjendum verður ekki tryggt húsnæðisöryggi.
Kjarninn 18. febrúar 2019
Leifsstöð
Áætla að sætaframboð WOW air dragist saman um 44 prósent
Samkvæmt ferðaáætlunum flugfélaganna sem fljúga um Keflavíkurflugvöll á komandi sumri mun framboð sæta hjá WOW air dragast saman um 44%. Icelandair áformar að auka sætaframboð sitt yfir sumartímann um 14%.
Kjarninn 18. febrúar 2019
Meira úr sama flokkiInnlent