„Ég kaus með tillögu minnihlutans í morgun á fundi umhverfis-og samgöngunefndar því mér finnst mikilvægt að styðja við tillögu minnihlutans um formennsku í nefndinni,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í færslu á Facebook síðu sinni.
Eins og greint var frá fyrr í dag, þá tók Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, við formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd af Bergþóri Ólasyni, þingmanni Miðflokksins, en hann tók sér tímabundið leyfi frá þingstöfum eftir að hafa verið staðinn að því að úthúða mörgum samstarfsmönnum sínum á Alþingi, drukkinn, á Klaustur bar, eins og kunnugt er.
Með honum á barnum voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Anna Kolbrún Árnadóttir, úr Miðflokki, og Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, sem nú eru utan flokka eftir að hafa verið reknir úr Flokki fólksins, í kjölfar þess að upptökur af samtölum þingmannanna voru gerðar opinberar.
Gunnar Bragi og Bergþór voru þeir sem höfðu uppi verstu ummælin. Þeir hafa beðist afsökunar á þeim. Meðal ummæla sem féllu hjá Gunnari Braga Sveinssyni, voru þau að kalla Lilju Dögg Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, „helvítis tík“.
Sjálfstæðisflokkurinn er nú með formennsku í helmingi fastanefnda.
Rósa Björk segir stöðuna á Alþingi langt í frá lýðræðislega. „Staðan á þingi er auðvitað langt í frá lýðræðisleg, því með þessari kosningu í morgun er Sjálfstæðisflokkurinn endanlega komin með töglin og haldirnar á nefndum Alþingis. Ég er ansi hrædd um að það sé langt frá því lýðræðislegt. Svo raungerðist það í morgun hversu mikið Sjálfstæðiflokkurinn og Miðflokkurinn eru að nudda sér upp við hvern annan. Þrátt fyrir þau pólitísku atlot, þurfum við að klára Klaustursmálið með sóma fyrir Alþingi Íslendinga, því þó að formaður Sjálfstæðisflokksins sé orðin leiður á málinu og fleiri þingmenn hans, þá vilja konur, fórnarlömb kvenfyrirlitningar, feministar af öllum kynjum og við öll sem höfum samúð með minnihlutahópum að Alþingi gefi skýr skilaboð um algjöra andstöðu sína og fordæmingu á ósæmilegri hegðun Klaustursþingmanna fyrir nokkrum vikum,“ segir Rósa Björk.