„Það er bara skýr stéttaskipting þarna, milli þeirra sem eiga og þeirra sem leigja. Þetta er líka kynslóðarmál, hvernig komum við okkur unga fólkinu inn á öruggari húsnæðismarkað.“
Þetta sagði Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut síðastliðið miðvikudagskvöld. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Drífa segir að það það sem hafi verið hefur einkenni okkar á Íslandi sé að við höfum einbeitt okkur mjög mikið að séreignarstefnu í húsnæðismálum en nú séum við síðan að hamast við að byggja upp einhverskonar sanngjarnan leigumarkað til þess að fólk geti verið í leiguhúsnæði jafnvel á meðan að það safnar sér upp í íbúð og komist að heiman. „Þetta er hagsmunamál fyrir okkur öll að börnin okkar fari að heiman einhvern tímann.“
Hún segir aðkomu stjórnvalda að yfirstandandi kjaraviðræðum vera afskaplega brýna, en krafa hefur verið uppi um að þau komi með breytingar á skattkerfi og millifærslum að borðinu auk sértækra lausna fyrir húsnæðismarkaðinn.
Drífa segir að að jöfnunartæki stjórnvalda til þess að létta fólkið lífið sé einfaldlega svo ofboðslega mikilvægt. „Við erum kannski með manneskju sem er með 700 þúsund á mánuði. Ef þú átt skuldlausa eign þá ert þú bara sæmilega settur þannig, ég tala nú ekki um ef að þú ert í sambúð og búin að koma börnunum á legg. Svo ertu með manneskju með 700 þúsund sem er á leigumarkaði ,einstæð, þarf að greiða 250 þúsund í leigu. Hún er kannski ekkert sérstaklega vel sett. Þau börn hafa kannski ekki tök á því að fara í tónlistarnám og íþróttir.“