Bankaráð Landsbankans hækkaði mánaðarlaun bankastjórans í 3,8 milljónir króna í apríl í fyrra. Með því hafa laun hans hækkað um 140 prósent á fjórum árum, sem er fjórum sinnum meiri hækkun en hjá almennri launavísitölu.
Samkvæmt frétt Fréttablaðsins í morgun voru mánaðarlaun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, hækkuð um 17 prósent þann fyrsta apríl í fyrra, úr 3,25 milljónum í 3,8 milljónir. Þannig hafa laun hennar auk bifreiðahlunninda hækkað um tæp 82 prósent því að ákvörðun um þau færðust undan kjararáði þann 1. júlí 2017.
Kjarninn hefur áður fjallað um mikla launahækkun forstjóra ríkisfyrirtækja eftir að kjör þeirra voru ekki lengur í höndum kjararáðs. Í kjölfarið fengu forstjórar ríkisfyrirtækja mikla kauphækkun, til að mynda hækkuðu mánaðarlaun forstjóra Landsvirkjunar úr 2 milljónum í 3,3 milljónir og mánaðarlaun forstjóra Isavia úr 1,7 milljónum í 2,4 milljónir
Samkvæmt frétt Fréttablaðsins segir bankaráð Landsbankans að laun bankastjórans hafi nú verið færð nær þeim kjörum sem almennt gilda fyrir æðstu stjórnendur fjármálafyrirtækja.
Á mynd hér að ofan sést þó að laun forstjóra ríkisfyrirtækja hafa hækkað umtalsvert borið saman við almenna launaþróun í landinu. Á árunum 2014-2018 hækkaði launavísitala Hagstofunnar um 36 prósent, en sú hækkun er um það bil fjórðungur af 140 prósent hækkun bankastjóra Landsbankans á sama tíma.