Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, er með 4,2 milljónir króna í mánaðarlaun, en laun hennar voru lækkuð um 14,1 prósent í nóvember síðastliðnum, eftir að hún fór fram á það við stjórn bankans, sem varð við því. Launin fóru úr um 4,8 milljónum á mánuði, niður í 4,2 milljónir.
Laun Birnu eru því um 400 þúsund krónum hærri en hjá Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, en laun hennar eru um 3,8 milljónir á mánuði.
Íslenska ríkið er eigandi Íslandsbanka, en það á einnig 98,2 prósent hlut í Landsbankanum (bankinn sjálfur á svo 1,5 prósent af eigin hlutum).
Eins og fram kom í dag þá gagnrýndi Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, mikla launahækkanir bankastjóra Landsbankans harðlega, og sagði þær ekki í samræmi við tilmæli frá fjármála- og efnahagsráðherra frá árinu 2017.
Bankaráð Landsbankans svaraði því með tilkynningu og sagði að laun bankastjórans væru í samræmi við starfskjarastefnu bankans.
Laun bankastjórans hafa hækkað um 82 prósent frá því ákvörðun um laun var færð undan kjararáði.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, hafði frumkvæði að því að laun hennar yrðu lækkuð um 14,1% í nóvember síðastliðnum, niður í 4,2 milljónir króna.
Í tilkynningu frá Íslandsbanka segir að heildarlaun bankastjóra Íslandsbanka hafi hækkað um 4,6 prósent síðastliðin tvö ár, en launavísitala hefur á sama tíma hækkað um rúmlega 13 prósent.