Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur og þingmaður Samfylkingarinnar á árunum 2007-2010, hefur verið skipuð í stöðu skrifstofustjóra yfir nýrri skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipar Steinunni Valdísi í starfið.
Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að umsækjendur um embættið hafi verið 30 talsins. Ráðgefandi hæfnisnefnd mat sex umsækjendur vel hæfa og var Steinunn Valdís ein þeirra.
Þar segir enn fremur að Steinunn Valdís hafi víðtæka þekkingu á jafnréttismálum. „Hún starfaði m.a. fyrir Kvenfélagasamband Íslands árin 1992-1998 og sem framkvæmdastjóri kvennaheimilisins Hallveigarstaða 1996-1998. Hún var borgarfulltrúi fyrir Kvennalistann og síðar Reykjavíkurlistann og sat á þeim tíma í jafnréttisráði. Hún var formaður jafnréttisnefndar Reykjavíkurborgar og formaður Svanna, lánatryggingarsjóðs kvenna um árabil.“
Steinunn Valdís lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1992 og viðbótardiplóma í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla árið 2018. Árin 1986-1987 var Steinunn Valdís stjórnarráðsfulltrúi á launaskrifstofu fjármálaráðuneytis, borgarfulltrúi árin 1994-2007 og borgarstjóri í Reykjavík 2004-2006. Steinunn Valdís átti sæti á Alþingi 2007-2010. Frá 2011-2017 var hún sérfræðingur og staðgengill skrifstofustjóra á skrifstofu innviða í innanríkisráðuneytinu. Frá febrúar 2017 hefur hún starfað sem sérfræðingur og staðgengill skrifstofustjóra á skrifstofu ferðamála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.