Gengi bréfa í Marel hélt áfram að hækka í dag í viðskiptum upp á 1,8 milljarða króna.
Erlendir fjárfestar hafa sýnt félaginu mikinn áhuga að undanförnu, en senn líður að því ákveðið verði hvar félagið mun verða tvískráð í erlenda kauphöll, en til greina koma kauphöllin í Amsterdam og Nasdaq kauphöllin í Kaupmannahöfn.
Aðalfundur félagsins fer fram 6. mars næstkomandi í höfuðstöðvum félagsins í Austurhruni í Garðabæ.
Markaðsvirði félagsins hefur hækkað hratt að undanförnu, og er það nú 303,5 milljarðar króna og gengi bréfa félagsins 445. Á undanförnum mánuði hefur gengið hækkað um tæplega 15 prósent og um tæplega 23 prósent sé horft yfir tólf mánaða tímabil.
Stærsti einstaki eigandinn er Eyrir Invest með 27,9 prósent hlut. Virði hans nemur nú um 84,6 milljörðum króna.
Stærstu eigendur félagsins stofnendur félagsins, feðgarnir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, og Þórður Magnússon, með um 35 prósent hlut. Þórður á 19 prósent hlut en Árni Oddur 16 prósent.
Eyrir Invest keypti 9,2 prósent hlut í félaginu sjálfu af Landsbankanum í desember í fyrra fyrir 3,8 milljarða króna. Íslenska ríkið á 98,2 prósent hlut í Landsbankanum og bankinn á síðan 1,5 prósent hlut af eigin bréfum. Ríkið fer því með nær allt hlutafé í bankanum, fyrir utan um 0,3 prósent hlut sem skiptist að mestu á milli starfsmanna Landsbankans og fyrrum starfsmanna.
Heildarvirði félagsins, miðað við það verð sem fékkst fyrir hlutinn þegar Eyrir keypti, var því áætlað 41 milljarður króna. Sé mið tekið af mikilli hækkun á virði helstu eignar félagsins, sem er fyrrnefndur hlutur í Marel, hefur virði félagsins aukist umtalsvert undanfarin misseri.
Landsbankinn fer enn með 12,8 prósent hlut í félaginu en tilkynnt var um það 30. nóvember síðastliðinn að Hreiðar Bjarnason, fjármálastjóri Landsbankans, myndi stíga úr stjórn Eyris Invest, en hann hafði verið í stjórn félagsins frá því í maí 2017 ásamt Jóni Helga Guðmundssyni, Ingólfi Guðmundssyni, Ásu Ólafsdóttur, Sigurjóni Jónssyni, Ólafi S. Guðmundssyni og Þórði Magnússyni, eins og fyrr segir.
Íslenskir hluthafar eiga Marel að langsamlega stærstum hluta, en áhugi erlendra fjárfesta hefur aukist verulega á félaginu, ekki síst eftir að ljóst varð að félagið stefni að formlegri skráningu í erlenda kauphöll. Fjallað var ítarlega um þennan áhuga í fréttaskýringu sem birtist á vef Kjarnans 30. nóvember í fyrra, en greiningarfyrirtækið Stockviews sendi frá sér verðmat á félaginu, þar sem fram kom að fyrirtækið var undirverðlagt og horft til tólf mánaða væri verðið 433 milljarðar en ekki 290 milljarðar eins var þegar verðmatið kom fram.
Miklir hagsmunir lífeyrissjóða
Teleios Capital, evrópskur fjárfestingasjóður, hefur bæst í hóp stærstu hluthafa félagsins að undanförnu og á félagið nú 1,07 prósent hlut, sem er virði um 3,3 milljarða króna, og er félagið 17. stærsti hluthafinn miðað við þá stöðu.
Lífeyrissjóður verslunarmanna er næst stærsti hluthafi félagsins með 9,74 prósent hlut, Gildi lífeyrissjóður á 6,6 prósent hlut, LSR (A og B deild) á 6,6 prósent hlut og Birta lífeyrissjóður 3,93 prósent. Stapi, Festa, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Brú, Almenni lífeyrissjóðurinn, Lífsverk og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda eru einnig allir á meðal 20 stærstu hluthafa.
Samanlagt eiga þessir sjóðir 37,4 prósent hlut í Marel og nemur virði þess hlutar, miðað við gengi bréfa í félaginu um þessar mundir, 113,6 milljörðum króna. Það upphæð sem nemur um 2,6 prósentum af heildareignum íslenskra lífeyrissjóða, en samkvæmt síðustu birtu hagtölum Seðlabanka Íslands námu heildareignir íslenskra lífeyrissjóða um 4.300 milljörðum króna.