„Þegar maður horfir líka á samhengi kjarasamninganna þá er það þannig að ríkið er meira aflögufært en atvinnulífið og að því leyti til, og svo líka ekki hvað síst í ljósi þessara skattatilfærslu, þá stendur það upp á ríkið að leiðrétta þetta óréttlæti sem það innleiddi á löngum tíma í mörgum smáum skrefum.“
Þetta segir Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem frumsýndur verður klukkan 21:00 í kvöld.
Þar ræðir Stefán þær breytingartillögur á skattkerfinu sem hann og Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, unnu fyrir Eflingu og kynntar voru í síðustu viku. Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins hér að neðan.
Í tillögum þeirra Stefáns og Indriða kemur fram að það þurfi að koma á stígandi skattkerfi með fjórum til fimm skattþrepum, hækka þurfi fjármagnstekjuskatt til samræmis við það sem almennt tíðkast á hinum Norðurlöndunum og breyta skattlagningu rekstrarhagnaðar til samræmis við skatt á launatekjur.
Þá þurfi að bæta framkvæmd reiknaðs endurgjalds sjálfstætt starfandi aðila þannig að endurgjaldið verði einnig látið taka til fjármálastarfsemi, leggja þurfi á stóreignaskatt með frítekjumarki fyrir eðlilegt verðmæti íbúðarhúsnæðis, sumarhúsa og einkabifreiða og sanngjörn auðlindagjöld „fyrir allar atvinnugreinar sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar.”
Við þetta myndu skattar lækka á 90 prósent launamanna, eða alla þá sem eru með 900 þúsund krónur á mánuði eða minna.
Stefán segir að hann sé mjög bjartsýnn að eðlisfari og því bjartsýnn á að tillögurnar geti komist til framkvæmda, þrátt fyrir augljósan hugmyndafræðilegan ágreining um skattamál milli þeirra flokka sem sitji í ríkisstjórn, sérstaklega Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. „Fyrir það fyrsta þá hefur þessi ríkisstjórn lofað því að breyta tekjuskattskerfinu þannig að það gagnist mest lægstu hópunum og lægri millitekjuhópum eins og þau skilgreindu það sjálf. Þannig að þau þurfa að efna þau loforð og þannig að eitthvað bragð sé af.“
Stefán segir að málefnastaðan með tillögunum sé mjög sterk. „Hún hefur réttlætið með sér, hún hefur sanngirnina með sér, hún hefur það að 90 prósent skattgreiðenda myndu græða á þessu.“