Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Timo Soini utanríkisráðherra Finnlands heimsóttu Árskógssand um miðjan janúar síðastliðinn en sú heimsókn fól jafnframt í sér kvöldverðarboð utanríkisráðherra fyrir finnska utanríkisráðherrann og föruneyti hans. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
Í frétt RÚV um málið frá því í morgun kemur fram að utanríkisráðuneytið hafi greitt í lok síðasta mánaðar reikning upp á tæpar 185 þúsund frá Bjórböðum ehf. á Árskógssandi. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er reikningurinn tilkomin vegna fyrrnefndar heimsóknar Guðlaugs Þórs og Timo Soini í Bjórböðin.
Segir í svari ráðuneytisins til Kjarnans að alls hafi verið fjórtán manns í sendinefndum Íslands og Finnlands, sjö frá hvoru ríki. Þar af hafi verið greiddur aðgangseyrir fyrir tíu manns að baðaðstöðunni. Samkvæmt upplýsingum á vef Bjórbaða kostar stakt bjórbað 7.900 krónur en parabjórbað 14.900 krónur.
Þá hafi jafnframt verið keyptur matur handa öryggisverði finnska ráðherrans, íslenskum lögreglumönnum og bílstjórum. Ekki fást afhendir sundurliðaðir reikningar, samkvæmt ráðuneytinu.
Málefni norðurslóða og Norðurskautsráðsins var ofarlega á baugi í heimsókninni, segir í svarinu, en Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu af Finnlandi í maí. Af því tilefni var ákveðið að þeir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Soini funduðu á Siglufirði og tækju svo þátt í málþingi um norðurslóðir í Háskólanum á Akureyri.
„Á meðan heimsókninni stóð kynntu ráðherrarnir sér jafnframt atvinnulíf og starfsemi fyrirtækja á Tröllaskaga. Meðal annars heimsóttu þeir Bjórböðin á Árskógssandi ásamt föruneyti sínu. Eigendur fyrirtækisins, sem jafnframt reka Bruggsmiðjuna á Árskógssandi, hafa hlotið mikið lof fyrir atvinnuuppbyggingu og nýsköpun. Má í því sambandi nefna að framkvæmdastjórinn, Agnes Sigurðardóttir, var á nýársdag sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til þróunar atvinnulífs í heimabyggð,“ segir í svari ráðuneytisins.