Fjölmiðillinn Fótbolti.net telur að nýtt frumvarp um endurgreiðslur til fjölmiðla vegna ritstjórnarkostnaðar þeirra geti gert út um starfsemi sína. Miðillinn mun að óbreyttu ekki fá 25 prósent ritstjórnarkostnaðar endurgreiddan, líkt og frumvarpið gerir ráð fyrir að greiða þeim miðlum sem það nær til, þar sem hann sinnir einungis umfjöllun um íþróttir.
Skilyrði fyrir endurgreiðslu úr ríkissjóði er að viðtakendur uppfylli ýmis skilyrði fjölmiðlalaga, efni þeirra sé fjölbreytt og fyrir allan almenning og byggist á fréttum, fréttatengdu efni og samfélagsumræðu í víðum skilningi.
Hafliði Breiðfjörð Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fótbolti.net, skilaði í dag umsögn um frumvarpið inn í samráðsgátt stjórnvalda. Þar gerir hann, fyrir hönd síns fjölmiðils, alvarlegar athugasemdir við að samkeppnisstaða fjölmiðla verði gríðarlega skert verði lögin sett samkvæmt fyrirliggjandi drögum.
Þetta gæti gert út um starfsemi Fótbolta.net sem rekinn hefur verið í 17 ár og alltaf greitt reikninga og gjöld á réttum tíma, samkvæmt Hafliða. „Hvetjum ykkur því til að gæta að því að vernda alla fjölmiðla með setningu laganna en ekki gera rekstur ákveðinna fjölmiðla erfiðari.“
Frestur til að skila inn umsögnum um frumvarpið rennur út á morgun, föstudaginn 15. febrúar.