Fjöldi þeirra starfsmanna fjármálafyrirtækja sem hafa lokið að minnsta kosti mastersgráðu eða MBA námi hefur hlutfallslega aukist mikið á undanförnum árum.
Í október síðastliðnum var staðan þannig að 23,7 prósent starfsmanna þeirra höfðu lokið mastersgráðu eða MBA námi og 36,5 prósent höfðu lokið BS/BA gráðu eða sambærilegu háskólanámi. Þá höfðu 0,6 prósent lokið doktorsnámi og því höfðu tæplega 61 prósent starfsmanna fjármálafyrirtækja lokið einhvers konar háskólanámi.
Þetta kemur fram í kjarakönnun sem Gallup gerði fyrir Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) í október í fyrra. Alls tóku 2.786 félagsmenn samtakanna þátt, sem þýðir að þátttakan var 74 prósent. Þorri félagsmanna í samtökunum vinnur hjá bönkum landsins.
Þessi menntunarstaða er töluvert önnur en þegar íslenska bankaútrásin stóð sem hæst. Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að í maí 2008, þegar íslensku bankarnir Kaupþing, Landsbanki Íslands og Glitnir störfuðu út um allan heim ásamt fjölda stórra fjárfestingafélaga og stærð bankanna var margföld íslensk þjóðarframleiðsla eftir tuttugufaldan vöxt á rúmum sex árum, voru einungis 8,8 prósent starfsmanna fjármálafyrirtækja með mastersgráðu eða höfðu lokið MBA námi. 28 prósent höfðu lokið BA/BS gráðu eða sambærilegu háskólanámi.
Yngra fólkið mun betur menntað
Þróunin í átt að menntaðra vinnuafli innan fjármálafyrirtækjanna hefur verið stöðug frá bankahruni. Í október 2010, þegar búið var að endurreisa föllnu bankana með nýjum kennitölum hafði hlutfall þeirra sem sem lokið höfðu mastersgráðu eða MBA námi hækkað í 11,8 prósent og fjöldi þeirra sem lokið höfðu grunngráðu í háskóla einnig hækkað lítillega. Í febrúar 2013 var hlutfall mastersgráðuhafa og þeirra sem lokið höfðu MBA námi orðið 15,7 prósent og í sama mánuði þremur árum síðar 20,2 prósent. Að sama skapi hefur hlutfall þeirra sem hefur lokið BA/BS námi eða sambærilegu vaxið umtalsvert á tímabilinu og var orðið 35,4 prósent í febrúar 2016.
Það kemur kannski lítið á óvart en yngra starfsfólk fjármálafyrirtækja er mun líklegra til að vera með háskólamenntun en það sem eldra er. Þannig eru 78 prósent slíkra sem eru undir 34 ára annað hvort með BA/BS gráðu eða masters- og/eða doktorsgráðu. Í aldurshópnum 35-44 er það hlutfall enn hærra, eða 84 prósent. Þar af hafa 38 prósent þeirra sem tilheyra hópnum lokið masters- eða doktorsgráðu. Í aldurshópnum 55 til 68 ára snýst dæmið hins vegar við. Þar eru einungis 24 prósent með háskólamenntun. Hlutfall þeirra starfsmanna fjármálafyrirtækja sem eru á því aldursbili sem eru með masters- eða doktorsgráðu er sjö prósent.