Almenna leigufélagið, í eigu GAMMA, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem málflutningi Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, er mótmælt og hann sakaður um „ómaklega árás“ á fyrirtækið.
Eins og greint var frá fyrr í dag sagði í opnu bréfi VR að Almenna leigufélagið hefði krafist tugþúsunda hækkunar á leigu og að leigjendum séu settir afarkostir, með litlum sem engum fyrirvara. „VR hafa borist gögn með samskiptum Almenna leigufélagsins við nokkra leigjendur sína þar sem enn á ný er án fyrirvara, eða nokkurra haldbærra raka, krafist tugþúsunda hækkunar leigu og leigjendum settir þeir afarkostir að samþykkja hækkunina ellegar vera hent á götuna án húsaskjóls. Umhugsunarfrestur sem leigjendum er gefinn til að samþykkja eða hafna tilboðinu er einungis fjórir dagar. Ljóst er að tugþúsunda hækkun á leigu gerir væntar hækkanir sem VR er nú að semja um við Samtök atvinnulífsins að engu,“ segir í bréfinu.
Stjórn VR telur að varla sé hægt að lýsa þessu með öðrum orðum en sem grimmd, taumlausri græðgi og mannvonsku. VR segist tilbúið að færa fé sem er hjá Kviku í stýringu, samtals 4,2 milljarðar króna, ef ekki verður brugðist við gagnrýni VR.
Almenna leigufélagið hafnar málflutningi VR og Ragnars Þórs. Félagið segist fagna uppbyggingu leigufélaga, þar á meðal félaga sem séu óhagnaðardrifin. Félagið segir að aldrei hafi verið greiddur arður út úr félaginu frá stofnun.
Yfirlýsing Almenna leigufélagsins er hér að neðan, í heild sinni:
Almenna leigufélagið fagnar allri umræðu um leigumarkaðinn á Íslandi, sem hefur vaxið hratt á undanförnum árum og er enn í mótun. Félagið tekur heilshugar undir kröfur VR og fleiri um uppbyggingu á félagslegu leiguhúsnæði og óhagnaðardrifinna félaga líkt og Bjargs, Búseta og Félagsstofnunar stúdenta. Málflutningur Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, um Almenna leigufélagið í opnu bréfi til Kviku er hins vegar óheppilegt innlegg í umræðuna um það hvernig byggja megi upp hagkvæman og fjölbreyttan leigumarkað til framtíðar.
Árið 2017 tók Almenna leigufélagið við rekstri tveggja fasteignasafna, annars vegar á Leigufélaginu Kletti, í eigu Íbúðalánasjóðs (ÍLS), og hins vegar á félaginu BK-eignir. Rekstur þessa félaga stóð ekki undir sér og var tugmilljóna tap af leigurekstri þeirra árið 2017. Þegar Almenna leigufélagið tók við Leigufélaginu Kletti var það meðal skilyrða að leiguverð myndi ekki hækka næstu 12 mánuði. Vegna rekstrar- og fjármagnskostnaðar greiddi Almenna leigufélagið því háar fjárhæðir með þessum eignum.
Undanfarið ár hefur Almenna leigufélagið þurft að aðlaga leigusamninga að meðalleigu á markaði svo reksturinn standi undir sér. Það hefur verið gert í skrefum og í langflestum tilfellum með rúmum fyrirvara svo leigjendur fái svigrúm til að laga sig að breyttum aðstæðum. Leiguverð hefur einnig fylgt verðbólgu, fasteignagjöldum og öðrum opinberum gjöldum, sem hafa hækkað gríðarlega undanfarin ár með hækkandi fasteignamati.
Almenna leigufélagið var stofnað árið 2014 og var fyrsta sérhæfða leigufélagið fyrir almenning á Íslandi. Félagið hefur allar götur síðan lagt ríka áherslu á að tryggja einstaklingum og fjölskyldum á leigumarkaði húsnæðisöryggi til langs tíma, stöðugleika og góða þjónustu að skandinavískri fyrirmynd. Það hefur tekist enda sýna kannanir stóran hóp ánægðra viðskiptavina hjá Almenna leigufélaginu.
Almenna leigufélagið er einungis með 4% markaðshlutdeild á almenna leigumarkaðnum og stýrir því ekki verðmyndun á honum eins og stundum hefur verið haldið fram. Félagið er í eigu fjölbreytts hóps fagfjárfesta og stofnanafjárfesta, þar á meðal lífeyrissjóða, tryggingafélaga og einstaklinga. Eignarhaldið er dreift og á enginn stærri en 10% hlut. Frá stofnun hefur félagið aldrei greitt út arð til hluthafa.
Sem fyrr segir tekur Almenna leigufélagið heilshugar undir orð VR og fleiri um uppbyggingu á félagslegu leigukerfi og óhagnaðardrifinna félaga. Slíkt er verkefni sveitarfélaga og annarra opinberra aðila í samvinnu við almannasamtök. Einkarekin leigufélög hafa, eins og dæmin sanna frá grannlöndum okkar, hlutverki að gegna á fjölbreyttum leigumarkaði þar sem margir kjósa að leigja frekar en eiga, þótt ekki sé um niðurgreidda leigu að ræða. Orð formanns VR eru því ómakleg árás á fyrirtæki sem tekið hefur þátt í að ryðja brautina fyrir þróun skilvirks leigumarkaðar á Íslandi.“