Stjórn Íslandsbanka telur að launakjör Birnu Einarsdóttur, bankastjóra bankans, séu í samræmi við setta starfskjarastefnu bankans. Stjórnin telur einnig að Birna hafi staðið sig afar vel í starfi og að heildarlaun hennar, sem voru 5,3 milljónir króna á mánuði í fyrra en 4,8 milljónir króna í ár, séu ekki leiðandi eftir að hafa gert samanburð við gögn annarra bankastjóra og forstjóra á Íslandi sem birst hafi í gögnum úr tekjublaði Frjálsrar verslunar og ýmsum ársreikningum.
Þetta kemur fram í bréfi sem stjórn Íslandsbanka hefur sent Bankasýslu ríkisins vegna launamála Birnu. Bankasýslan sendi stjórninni bréf í síðustu viku og krafðist þar skýringa á launaþróun bankastjórans. Þess var auk þess krafist að svar bærist innan viku, eða fyrir lok dags 19. febrúar. Sambærilegt bréf var sent til bankaráðs Landsbankans, sem er einnig í ríkiseigu og heyrir því undir Bankasýslu ríkisins. Það svarbréf var birt fyrr í dag.
Mjög stórt fyrirtæki
Í bréfi stjórnar Íslandsbanka, sem stjórnarformaðurinn Friðrik Sophusson skrifar undir, segir að Íslandsbanki sé mjög stórt fyrirtæki á íslenska mælikvarða og leiðandi á ýmsum sviðum íslensks atvinnulífs. „Bankinn hefur víðtækar starfsheimildir skv. lögum um fjármálafyrirtæki og starfsemi bankans er margþætt og tæknilega flókin, sem gerir miklar kröfur til daglegs stjórnanda um hæfni og stjórnunarhæfileika. Þá má geta þess að Fjármálaeftirlitið gengur úr skugga um hæfni og þekkingu framkvæmdastjóra með prófum til þess að ganga úr skuffa um að hann uppfylli þær kröfur og þekkingu og hæfni sem lög gera.“
Stjórnin telur einnig til að fjármálatímaritið Euromoney hafi valið Íslandsbanka besta banka á Íslandi á árinu 2018 og að það væri í fimmta sinn sem bankinn hlyti þá viðurkenningu. Þá hafi ánægja viðskiptavina Íslandsbanka mælst mikil, hann hlotið Hvatningarverðlaun jafnréttismála og bankinn rekið öflugt fræðslustarf.
Í svari stjórnarinnar segir að starfskjaranefnd og stjórn bankans fari reglulega yfir samanburð á launakjörum bankastjóra „við launakjör forstjóra á Íslandi og hefur til þess stuðst við gögn úr Frjálsri verslun, ársreikningum skráðra fyrirtækja sem og ársreikningum annarra fjármálafyrirtækja. Stjórn telur þann samanburð sýna að laun bankastjóra séu ekki leiðandi.“
Bankanum beri að bjóða starfskjör sem séu sambærileg því sem gerist í starfsumhverfi bankans og niðurstaða stjórnar hafi verið sú að stjórnin hafi fylgt starfskjarastefnu bankans við ákvörðun á launakjörum Birnu „til samræmis við þær óskir sem fram voru settar í bréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá 6. janúar 2017. Breytingarnar á launakjörum bankastjóra Íslandsbanka eru vel innan við almenna launaþróun frá þeim tíma.“
Launin voru aldrei í samræmi við ákvörðun kjararáðs
Bréf fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem vísað er í var sent af Benedikt Jóhannessyni þegar hann stýrði því ráðuneyti í upphafi árs 2017. Í því var tilmælum beint til stjórna ríkisfyrirtækja að gæta varkárni við launaákvarðanir þegar ákvörðunarvald yfir slíkum færðist frá kjararáði og yfir til stjórnanna um mitt ár 2017.
Í janúar 2017 úrskurðaði kjararáð að lækka ætti laun Birnu í rúmlega tvær milljónir króna á mánuði. Sú launalækkun kom þó aldrei til framkvæmda þar sem Birna var með tólf mánaða uppsagnarfrest. Ákvörðun um launakjör hennar færðist svo aftur til stjórnar Íslandsbanka um mitt ár 2017 sem ákvað að hækka laun hennar enn frekar frá því sem áður var, en ekki lækka.
Birna óskaði sjálf eftir því að grunnlaun hennar yrðu lækkuð síðla á árinu 2018. Sú breyting tók gildi í byrjun þessa árs. Samkvæmt útreikningum Morgunblaðsins eru heildarlaun og hlunnindi hennar á þessu ári 4,8 milljónir króna að meðaltali á mánuði. Það er um einni milljón króna meira en laun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, hins ríkisbankans, en laun hennar eru nú 3,8 milljónir króna á mánuði. Þau hafa hækkað um 82 prósent frá miðju ári 2017 með vísun í að launin hafi ekki verið samanburðarhæf við önnur í geiranum.
Hægt er að lesa bréf stjórnar Íslandsbanka til Bankasýslu ríkisins í heild sinni hér.