Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti í gær frumvarp sem felur í sér að frystiskylda á innfluttu kjöti verði afnumin og heimilt verði að flytja inn ferskt kjöt, fersk egg og vörur úr ógerilsneyddri mjólk. Á sama tíma kynnti ráðherra aðgerðaáætlun með mótvægisaðgerðum til þess að verja íslenska búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Nái frumvarpið fram að ganga munu hömlur á innflutningi falla niður þann 1. september næstkomandi.
Staðfest að íslensk stjórnvöld brutu gegn EES-samningnum
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hefur birt frumvarpið í Samráðsgátt stjórnvalda, frumvarpið nær til breytinga á lögum um matvæli, lögum um fóðri, áburði og sáðvöru og lögum um dýrasjúkdóma. Í frumvarpinu er kveðið á um afnám núverandi leyfisveitingakerfis vegna innflutnings á ákveðnum landbúnaðarafurðum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Umrætt leyfisveitingakerfi felur í sér að óheimilt er að flytja inn kjöt og egg hingað til lands nema með sérstakri heimild Matvælastofnunar. Með beiðni um slíkt innflutningsleyfi, fyrir hverja vörusendingu, þarf að fylgja vottorð um að vörurnar hafi verið geymdar við a.m.k. 18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu.
Árið 2007 tóku íslensk stjórnvöld ákvörðun um að heimila innflutning á ófrystu kjöti frá öðrum ríkjum EES og afnema þannig skilyrði fyrir innflutningi á tilteknum landbúnaðarafurðum innan EES í því skyni að tryggja stöðu Íslands á innri markaði EES. Þá skuldbindingu staðfesti Alþingi árið 2009 en þrátt fyrir það var íslenskum lögum ekki breytt til samræmis við þá skuldbindingu. Á síðustu tveimur árum hafa bæði EFTA-dómstóllinn og Hæstiréttur Íslands staðfest að íslensk stjórnvöld hafi með þessu brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum. Þá hefur skaðabótaskylda íslenska ríkisins vegna þessa verið staðfest.
Aðgerðaáætlun kynnt samhliða frumvarpinu
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að markmið frumvarpsins sé að íslensk stjórnvöld standi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hafi undirgengist á sama tíma og öryggi matvæla og vernd lýðheilsu og búfjárstofna sé tryggð. Ráðuneytið hefur undanfarið ár unnið að aðgerðaráætlun sem miðar að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu.
Stjórnvöld kynntu því samhliða frumvarpinu aðgerðaáætlun í tólf liðum. Meðal aðgeranna er lagt til óheimilt verði að dreifa alifuglakjöti nema matvælafyrirtæki geti sýnt fram á að kjötið sé ekki sýkt kampýlóbakteríu. Með þessu verður sama krafa gerð til innflutts alifuglakjöts og gerð hefur verið til innlendrar framleiðslu undanfarna tvo áratugi. Ásamt því eru aðgerðir sem snúa að því að bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu, þar á meðal að setja á fót matvælasjóð með áherslu á eflingu nýsköpunar í innlendri matvælaframleiðslu.
Segja að hagsmunum landbúnaðarins sé fórnað fyrir heildsala
Bændasamtök Íslands sendu frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem frumvarpsdrög ráðherra voru gagnrýnd harðlega. Nái frumvarpið fram að ganga á vorþingi munu hömlur á innflutningi á hráu kjöti falla niður í byrjun sláturtíðar íslenskra lamba, þann 1. september næstkomandi. Í yfirlýsingu segir að mati Bændasamtakanna sé hagsmunum landbúnaðarins fórnað fyrir heildsala sem vilja flytja inn erlendan mat í stórum stíl.
Jafnframt segir í yfirlýsingunni að hafið sé yfir allan vafa að innflutningurinn mun valda íslenskum landbúnaði miklu tjóni og ógna bæði lýðheilsu og búfjárheilsu. „Viðskiptahagsmunir eru teknir fram yfir heilbrigðisrök. Búfjárheilsa er látin lönd leið og bitlausar varnir í aðgerðaáætlun landbúnaðarráðherra duga skammt. Það er þverstæða að kynna til sögunnar aðgerðaáætlun til að auka matvælaöryggi á sama tíma og innflutningur á hráu ófrosnu kjöti, eggjum og ógerilsneyddum mjólkurafurðum er heimilaður. Við eigum hreina og heilbrigða búfjárstofna og erum heppin að því leyti að matvælasýkingar eru fátíðar hérlendis. Það er beinlínis skylda okkar að viðhalda þeirri góðu stöðu.“Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, formaður samtakanna, segir ákvörðun ráðherra vonbrigði. „Þessi ákvörðun ráðherra segir raunverulega að stjórnvöld hafi ekki vilja til þess að efla innlenda matvælaframleiðslu. Það er það sorglegasta í málinu.“
Hann segir jafnframt að það sé óraunhæft að ætla að 1. september næstkomandi verði öll mál komin í höfn sem talin eru upp í aðgerðaáætlun stjórnvalda. „Nú emur málið til kasta Alþingis og við getum ekki annað en treyst því að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar standi með almannahagsmunum og komi í veg fyrir að frumvarpið fari í gegn óbreytt.“
FA fagnar frumvarpi ráðherra
Félag atvinnurekenda fagnar aftur á móti frumvarpi Kristjáns. Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að með samþykki frumvarpsins ljúki loks áratugalöngum brotum íslenskra stjórnvalda á EES-samningnum. „Frumvarpið tryggir hag neytenda af auknu vöruúrvali og samkeppni, innflutningsfyrirtækja af því að tæknilegar viðskiptahindranir séu afnumdar og íslenskra matvælaútflutningsfyrirtækja, einkum á sviði sjávarafurða, af því að réttur þeirra til útflutnings til EES-ríkja án heilbrigðiseftirlits á landamærum sé áfram tryggður,“ segir í tilkynningunni.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að íslensk stjórnvöld hafi ekki átt annarra kosta völ en að afnema bannið við innflutning. „Með því að fara ekki að dómum EFTA-dómstólsins og Hæstarétt væri gróflega brotið gegn réttaröryggi íslenskra fyrirtækja og gífurlegir hagsmunir íslenskra matvælaútflytjenda settir í uppnám,“ segir Ólafur.