Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, sem voru kjörnir á þing fyrir Flokk fólksins haustið 2017, eru gengnir til liðs við þingflokk Miðflokksins. Sá þingflokkur telur nú níu þingmenn og er sá þriðji stærsti á þingi.
Í tilkynningu frá þeim segir: „Áherslur okkar hafa birst í eindregnum stuðningi við láglaunafólk og þá sem standa höllum fæti í íslensku samfélagi og þar eigum við samleið með Miðflokknum. Við erum sammála um nauðsyn þess að leiðrétta kjör hinna lægst launuðu og skapa öldruðum og öryrkjum tækifæri til að bæta hag sinn með aukinni vinnu án skerðingar almannatryggingabóta. Við erum sammála um áherslur í málefnum hins sístækkandi hóps aldraðra sem geti notið ævikvöldsins á heimili sínu eins lengi og unnt er, með öruggu framboði hjúkrunarrýma þegar nauðsyn knýr á um slík úrræði.
Á Alþingi höfum við átt samleið í áherslu á nútímalegt fjármálakerfi laust við okurvexti og verðtryggingu, þróttmikið atvinnulíf og fjárhagslegt öryggi íslenskra heimila. Við erum sammála um mikilvægi réttarríkisins, mannréttinda og að standa gegn hvers kyns valdníðslu. Við viljum stórátak í samgöngumálum og styðja við sóknarfæri í hinum dreifðu byggðum landsins.
Á vettvangi Miðflokksins teljum við okkur geta náð betri árangri í baráttumálum okkar og styrkt málefnastöðu flokksins. Við höfum sameiginlega sýn á sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar, yfirráð hennar á auðlindum sínum og mikilvægi vestrænnar samvinnu.
Við teljum að á vettvangi Miðflokksins styrkjum við stöðu okkar á Alþingi til að knýja á um framgang þeirra málefna, sem kjósendur treystu okkur fyrir í síðustu alþingiskosningum.“
Reknir vegna Klausturmálsins
Karl Gauti og Ólafur voru reknir úr Flokki fólksins í lok nóvember. Ástæðan var alvarlegur trúnaðarbrestur sem átti sér stað á drykkjufundi þeirra með fjórum þingmönnum Miðflokksins, þeim Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Bergþóri Ólasyni, Gunnari Braga Sveinssyni og Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, á Klausturbar 20. nóvember síðastliðinn.Á fundinum töluðu þeir með niðrandi hætti um konur sérstaklega, og lét Karl Gauti hafa eftir sér að Inga Sæland gæti ekki stjórnað Flokki fólksins. Þá var umtalsvert rætt um það á fundinum að þeir tveir myndu ganga til liðs við Miðflokkinn.
Þeir hafa starfað sem óháðir þingmenn síðan þetta gerðist.
Staða Ólafs og Karl Gauta á þingi hefur verið mikil til umræðu hjá þingmönnum að undanförnu. Fyrir lá að þeir gætu raskað fyrirliggjandi valdajafnvægi mjög mikið ef þeir myndu ákveða að ganga til liðs við nýjan flokk frekar en að vera áfram óháðir.
Miðað við málefnastöðu þeirra og fortíð komu einungis tveir flokkar til greina sem nýtt heimili. Sá fyrri var augljóslega Miðflokkurinn, flokkurinn sem fundurinn á Klaustri í nóvember snerist um að ná þeim í. Mikil málefnaleg samleið hefur verið á milli Ólafs og Karls Gauta annars vegar og Miðflokknum hins vegar í stórum málum. Hinn var Sjálfstæðisflokkurinn.
Nú er ljóst hvar hið nýja heimili mannanna tveggja er.
Voru á Klaustri til að svíkja flokkinn
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, skrifaði harðorða grein í Morgunblaðið um þessa tvo fyrrverandi félaga sína í janúar. Þar sagði hún mennina tvo einungis hafa átt eitt erindi á Klaustur Bar þetta kvöld og að þeir hafi mætavel vitað hvað til stóð. „Þeir voru að svíkja flokkinn sem kom þeim á þing. Er uppvíst varð hvað þarna hafði farið fram átti stjórn Flokks fólksins engan annan kost en að fara fram á afsögn þessara tveggja þingmanna.“
Inga sagði að enginn stjórnmálaflokkur hefði getað látið forystumenn þingflokks síns eins og Ólaf og Karl Gauta komast upp með önnur eins svik og framin hafi verið á Klausturbar 20. nóvember síðastliðinn án þess að slíkir stjórnmálamenn hefðu verið látnir axla ábyrgð. „Með þá Ólaf og Karl Gauta áfram innanborðs hefði þingflokkur Flokks fólksins ekki aðeins verið óstarfhæfur heldur einnig meðsekur í þeirri andstyggð sem fram fór á Klaustur Bar.“
Inga sagði fyrrum félaga sína, þá Ólaf og Karl Gauta, nú vera farna í sögubækurnar sem fyrstu þingmenn lýðveldissögunnar sem séu látnir sæta ábyrgð fyrir gjörðir sínar með því að þeir eru reknir úr sínum eigin flokki fyrir afbrot sín. „Engir nema þeir sjálfir frömdu þau ótrúlegu afglöp að fara til samsærisfundar við stjórn flokks pólitískra andstæðinga Flokks fólksins á Klaustur Bar, steinsnar frá Alþingishúsinu þann 20. nóvember síðastliðinn. Öll heimsbyggðin hefur þegar fengið að frétta af því í fjölmiðlum hvað gerðist þar.“
Inga sagði að fundurinn á Klausturbar hafi haft skýrt markmið: að fá Ólaf og Karl Gauta til að ganga til liðs við Miðflokkinn. „Þess vegna sat gervöll stjórn Miðflokksins á barnum Klaustri með þeim. Tilefni fundarins augljóst, þessi „hættulegi“ flokkur fátæka fólksins sem auðmaðurinn Sigmundur Davíð [Gunnlaugsson] og félagar hans vildu fyrir hvern mun koma fyrir kattarnef.“