Stjórn Iceland Seafood International hefur ákveðið að hefja sameiningu á tveimur dótturfélögum sínum á Spáni, Iceland Seafood Spain og Icelandic Ibérica. Félagið Icelandic Ibérica varð hluti af Iceland Seafood International samsteypunni í september á síðasta ári í kjölfar kaupa ISI á Solo Seafood sem þá var aðaleigandi Icelandic Ibérica. Í tilkynningu frá samsteypunni segir að markmið samrunans sé að styrkja enn frekar markaðsstöðu félagsins í Suður-Evrópu, þar sem fyrirtækin eru leiðandi í léttsöltuðum og söltuðum þorski. Samanlögð velta félaganna tveggja er um 180 milljónir evra eða um 24,5 milljarðar króna.
Magnús B. Jónsson mun stýra sameinaða félaginu
Í kjölfar samruna Iceland Seafood Spain og Icelandic Ibérica verða sameinaða félagið stærsta einstaka einingin innan ISI samsteypunnar að samruna loknum. Félögin eru með starfsemi víðs vegar á Spáni og á Ítalíu en Iceland Seafood Spain var stofnað árið 1988. Icelandic Ibérica var síðan stofnað árið 1996 og er, samkvæmt tilkynningunni, stærsti söluaðili létt saltaðs þorsks frá Íslandi í Suður- Evrópu en það er stærsta markaðssvæði íslenskra þorskafurða.
Nýja sameinaða félagið verður stýrt af Magnúsi B. Jónssyni, núverandi forstjóra Iceland Seafood Spain en Hjörleifur Ásgeirsson, forstjóri Icelandic Ibérica, lætur af störfum eftir 23 ár í starfi.