Seðlabanki Íslands verður skipaður fjórum bankastjórum, einum seðlabankastjóra og þremur varabankastjórum, samkvæmt drögum að frumvarpi um breytingar á lögum um Seðlabankann. Í stað núverandi fyrirkomulags Seðlabankans, þar sem það er einn aðstoðarseðlabankastjóra, þá er gert ráð fyrir þremur varabankastjórum sem munu skipta með sér verkum. Einn varabankastjórinn fari með peningamál, annar beri ábyrgð á fjármálastöðuleiga og þriðji verði yfir fjármálaeftirliti innan sameiginlegar stofnunar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Frá þessu er greint í Markaðinum í dag.
Skila drögum að lagafrumvarpi á morgun
Tilkynnt var í október í fyrra að hafin væri vinna við að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins ákvað að hefja endurskoðun lagaumgjarðar um peningastefnu, þjóðhagsvarúð og fjármálaeftirlit. Á vegum ráðherranefndarinnar var skipuð verkefnisstjórn um peningastefnu, þjóðhagsvarúð og fjármálaeftirlit. Hún er skipuð fulltrúum forsætisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis auk tengiliða frá Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Verkefnisstjórnin á að skila drögum að lagafrumvörpum til ráðherranefndar eigi síðar en á morgun, 28. febrúar.
Samkvæmt heimildum Markaðarins eru lagðar til breytingar um að fjölga skuli bankastjórum Seðlabankans í fjóra í frumvarpsdrögum verkefnisstjórnarinnar, sem rædd verða á fundi ráðherranefndar á morgun. Líkt og greint var frá hér að ofan er lagt til að áfram verði einn seðlabankastjóri en auk hans verða þrír varabankastjórar sem skipti með sér ólíkum verkum. Verði frumvarpið samþykkt á Alþingi þá er áætlað að breytingarnar munu taka gildi þann 1. janúar næstkomandi.
Greint var frá því að meginleiðarljós verkefnisstjórnarinnar væri að efla traust, gagnsæi og skilvirkni við yfirstjórn efnahagsmála. Miðað skuli við endurskoðunina að viðhalda verðbólgumarkmiði sem meginmarkmiði peningastefnunnar og sjálfstæði Seðlabankans og peningastefnunefndar hans til að beita stjórntækjum til að ná því, en jafnframt gera viðeigandi breytingar sem efla traust og auka gagnsæi. Enn fremur átti vinnan að miða við að sameina Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið með þeim hætti sem eflir traust og tryggir skilvirkni við framkvæmd þjóðhagsvarúðar og fjármálaeftirlits.
Nýr Seðlabankastjóri í ágúst
Skipunartími Más Guðmundssonar, núverandi Seðlabankastjóra, rennur út þann 20. ágúst næstkomandi. Búið að auglýsa stöðu bankastjóra lausa til umsóknar en umsóknarfrestur er til 25. mars næstkomandi.