HB Grandi hagnaðist um 32,2 milljónir evra, jafnvirði 4,4 milljarða króna á árinu 2018 og jókst hagnaðurinn um 30 prósent frá árinu 2017 er hann nam 24,8 milljónum evra. Þetta kemur fram í ársreikning fyrirtæksins sem birtur var í gær. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda segir að hagnaður fyrirtæksins hafi minnkað á síðustu árum vegna styrkingu krónunnar og hærri veiðigjalda. HB Grandi seldi laxeldisfélag í Síle á síðasta ári, og nam söluhagnaðurinn 14,9 milljónum evra, og segir forstjórinn það skýra að hluta góða afkomu fyrirtækisins á síðasta ársfjórðungi 2018.
Ekki ásættanleg rekstrarafkoma
Hagnaður HB Granda fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsliði, EBITDA, nam 36,8 milljónum evra árið 2018 en nam 35,7 milljónum evra árið áður. Rekstrartekjur ársins 2018 námu 210,7 milljónum evra en þær voru 217,3 milljónir árið 2017. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 17 milljónir evra en þar af nam söluhagnaður vegna sölu á laxeldisfélaginu Salmones Friousur S.A. í Síle 14,9 milljónum evra.
Heildareignir HB Granda í árslok 2018 námu 667,1 milljón evra, eða um 90,5 milljörðum króna. Eigið fé nam 279,5 milljónum evra og var eiginfjárhlutfall 42 prósent og lækkar um 10 prósent frá því í árslok 2017. Heildarskuldir námu 387,6 milljónum evra í árslok 2018.
Sé litið til fjórða ársfjórðungs nam hagnaður félagsins 21 milljón evra, eða um 2,8 milljörðum króna samanborið við 7,5 milljónir evra árið áður. EBTIDA HB Granda á fjórða ársfjórðungi nam 12,7 milljónum evra en var 3,4 milljónir á sama tímabili árið 2017.
„Rekstrarafkoma HB Granda var ekki ásættanleg á árinu 2018. Hagnaður fyrirtækisins hefur verið að minnka á síðustu árum vegna styrkingar íslenskrar krónu og hærri veiðigjalda. Á seinni hluta ársins 2018 veiktist íslenska krónan og það styrkir útflutningsfyrirtæki. Árið 1992 fjárfesti HB Grandi í sjávarútvegsfyrirtæki í Síle. Þetta fyrirtæki seldi laxeldisfyrirtæki sitt á síðasta ári og fékk HB Grandi töluverðan hagnað af þeirri sölu og skýrir það að hluta góða afkomu á síðasta ársfjórðungi 2018.“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda.
Fyrirtækið keypti Ögurvík í fyrra
Í september í fyrra gerði HB Grandi hf. samning um kaup á öllu hlutafé útgerðarfélaginu Ögurvík ehf. Seljandi hlutafjárins var Útgerðarfélags Reykjavíkur, áður Brims, sem jafnframt er stærsti eigandi HB Granda með 35 prósent hlut. Þar er Guðmundur Kristjánsson stærsti eigandi, en hann er jafnframt forstjóri HB Granda. Kaupverðið á Ögurvík var 12,3 milljarðar króna.