Landsvirkjun, sem er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, hagnaðist um 14 milljarða króna, eða 121 milljón dala, á síðasta ári. Rekstrartekjur félagsins hækkuðu um 50,8 milljónir dala á milli ára og námu 533,9 milljónum dala, eða 61,9 milljörðum króna. EBITDA hagnaður (rekstrarhagnaður fyrir fjármagnskostnað, skatta og afskriftir) var 45,2 milljarðar króna og EBITDA hlutfall fyrirtækisins var 73 prósent af tekjum.
Þetta kemur fram í ársreikningi Landsvirkjunar sem birtur var í dag.
Þar er haft eftir Herði Arnarssyni, forstjóra Landsvirkjunar, að árið 2018 hafi verið gott ár í rekstri fyrirtækisins. „Tekjur hækkuðu um 11% milli ára og hafa aldrei verið meiri, en þar munaði mestu um aukið selt magn og hækkandi álverð.
Átjánda aflstöð Landsvirkjunar, Búrfellsstöð II, var tekin í gagnið á árinu, auk þess sem annar áfangi þeirrar sautjándu, á Þeistareykjum, hóf rekstur. Raforkusalan jókst um 430 gígavattstundir frá fyrra ári og var um 14,8 teravattstundir.
Áfram bættist við hóp viðskiptavina stórnotenda hjá fyrirtækinu á árinu. Gerðir voru rafmagnssamningar við tvo aðila í gagnaversiðnaði; Advania Data Centers og Etix Everywhere Iceland. Hópur viðskiptavina er nú fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr.“
Skuldir lækka
Landsvirkjun hefur lagt mikla áherslu á að lækka skuldir síðustu ár. Nettó skuldir fyrirtækisins um síðustu áramót voru um 1.884,6 milljónir dala, 218,6 milljarðar króna, og lækkuðu um 158 milljónir dala í fyrra. Handbært fé frá rekstri 295,8 milljónum dala, 34,3 milljörðum króna, sem er hækkun upp á 6,4 prósent frá fyrra ár
Hörður segir að eftir framkvæmdir síðustu ára, sem hafi að mestu verið fjármagnaðar með sjóðsstreymi, haldi nettó skuldir nú áfram að lækka. „Hlutfall nettó skulda á móti EBITDA-rekstrarhagnaði er nú komið niður í 4,8 og hefur skuldsetning á þennan mælikvarða aldrei verið minni í sögu fyrirtækisins. Nú hafa skapast skilyrði til að auka arðgreiðslur Landsvirkjunar í skrefum til eiganda síns, en síðastliðinn áratug hefur fyrirtækið fjárfest fyrir um einn milljarð dollara í nýjum orkumannvirkjum og á sama tíma greitt niður skuldir fyrir einn milljarð dollara.“